*

miðvikudagur, 20. janúar 2021
Huginn og muninn
1. janúar 2021 15:04

Mest lestu hrafnamolarnir: 1-5

Patagucci vesti, Finnur sinnum tveir og nýr oddviti VG í norðaustur var meðal þess sem lesendur blaðsins höfðu mikinn áhuga á.

vb.is

Huginn og Muninn hafa í gengum tíðina látið fátt ósnert og árið í fyrra var engin undantekning. Í byrjun nýs árs er ekki úr vegi að rifja upp þá pistla hrafnanna sem slógu í gegn í fyrra.

1. Miðlarar Landsbankans í Patagonia

Sá hrafnamoli sem langmesta athygli vakti á árinu á rætur að rekja til Landsbankans. Sagt var frá því að starfsmenn í markaðsviðskiptum og viðskiptavakt Landsbankans væru komnir í forláta Patagonia, stundum kölluð Patagucci, vesti. Blá vesti fyrir viðskiptavakt en grá vesti fyrir markaðsviðskiptin.

2. Snögg að finna nýjan Finn

Finnur Oddsson hætti sem forstjóri Origo á árinu og tók við af nafna sínum Árnasyni sem forstjóri Haga. Athygli vakti hve skamman tíma það tók að ráða nýjan forstjóra en einnig að Oddsson kom frá upplýsingatæknifyrirtæki. Mál manna hafði verið að Hagar hefðu lent aftarlega á merinni í netverslun en Guðmundur Marteinsson, framkvæmdastjóri Bónus, hafði skömmu áður sagt í viðtali við Viðskiptablaðið að „að viðskiptamódel Bónusar bjóði ekki upp á að setja á fót netverslun“.

3. Hætt í háskólanum

Guðrún Johnsen og Ásgeir Brynjar Torfason hættu bæði störfum við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands nýverið en nokkrir samstarfsörðugleikar höfðu verið í viðskiptafræðideildinni. Bæði áttu þau það sameiginlegt að vera stjórnarmenn í Gagnsæi - samtökum gegn spillingu.

4. Steingrímur J. út og Kolbeinn inn?

Hrafnarnir reyndust sannspáir þegar þeir giskuðu á að Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis og einn þaulsetnasti þingmaður sögunnar, myndi láta þetta gott heita í næstu kosningum. Það tilkynnti hann síðla árs. Það hafði vakið athygli hrafnanna að Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstri grænna í Reykjavík suður, virtist renna hýru auga til sætis Steingríms í norðausturkjördæmi. Nú verður að koma í ljós hvort þær vangaveltur standist.

5. Kyrrsetning 737Max lán í óláni?

Það hefur ekki blásið byrlega fyrir Icelandair síðustu mánuði og ár. Fyrst voru Boeing 737Max þoturnar kyrrsettar og því næst skall faraldurinn á. „Forsvarsmenn Icelandair hljóta sömuleiðis að prísa sig sæla að hafa fallið frá fyrirhuguðum kaupum á Wow air, nú þegar fækkun flugferða á alþjóðavísu blasir við. Ef af kaupunum hefði orðið sæti félagið ekki einungis uppi með himinháar skuldir, heldur einnig fjólubláar þotur sem erfitt væri að fylla,“ sögðu Huginn og Muninn.

Sjá einnig: Vinsælustu molar hrafnanna: 6-10

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.