Mikil aukning hefur orðið í sölu á metaneldsneyti og er það bein afleiðing af auknum vinsældum og fjölgun ökutækja sem nýtt geta metan sem eldsneyti. Í mars síðastliðnum var sala á metani hátt í 100% meiri en hún var í mars á síðasta ári samkvæmt upplýsingum sem fengust á www.metan.is.

Það kemur raunar ekki á óvart á tímum hækkandi eldsneytisverðs en metan er um helmingi ódýrara en bensín.

Ökutækjum sem ganga fyrir metani hefur fjölgað mjög hratt að undanförnu. Þar ber mest á ökutækjum sem uppfærð hafa verið til að geta nýtt metaneldsneyti en einnig er nokkuð um að bílar séu fluttir til landsins í fullri metanútfærslu. Metanknúnum leigubílum hefur fjölgað verulega og fyrirsjáanlegt er að fleiri leigubílstjórar bætist í hópinn á næstunni.

Á metan.is kemur fram að megi gera ráð fyrir að í árslok 2011 verði um þúsund ökutæki í landinu sem nýtt geta metan í akstri ef miðað er við upplýsingar frá þeim umboðum, sem selja nýja metanknúna bíla, sem og verkstæðum sem uppfært geta slíkan búnað í bílum. Sú mikla aukning sem hefur átt sér stað í eftirspurn og sölu á metaneldsneyti hefur kallað á að hraða áformum um aukna metanframleiðslu í landinu. Fyrirsjáanlegt þykir að allt það metaneldsneyti sem framleitt verður í landinu með hagfelldum hætti verði nýtt í samgöngum landsins á komandi árum, segir á metan.is.

Og það er ekki nóg með að eldsneytisverð hækki í sífellu og sé að sliga fjölmarga landsmenn. Nú hafa bílastæðagjöld við Leifsstöð hækkað um tæp fimmtíu prósent. Á fréttavef FÍB segir að gjald fyrir 10 daga afnota af langtímabílastæði við Leifsstöð sé nú 7.400 krónur en var áður rúmar fimm þúsund krónur. Gjaldið hafi því verið hækkað um tæplega 50% á einu bretti. Þetta er vægast sagt óskammfeilin aðgerð hjá fyrirtæki í einokunarstöðu á þeim tímapunkti þegar vertíð ferðalaga til útlanda eru að ná hámarki. Nógu dýrt er að ferðast til útlanda um þessar mundir án þess að svona hækkun bætist við.