Erlendir ferðamenn sem sóttu Ísland heim árið 2012 voru rúmlega tvöfalt fleiri en landsmenn, þá eru farþegar skemmtiferðaskipa ekki meðtaldir. Þetta kemur fram í samantekt sem unnin var fyrir Ferðamálastofu. Þar er farið yfir mögulegar leiðir tekjuöflunar til að fjármagna uppbyggingu ferðamannastaða. Það eru eflaust flestir sammála um að gjaldtaka sé eðlileg, sérstaklega í ljósi mikillar aukningar ferðamanna til landsins. Það verður því forvitnilegt sjá hvaða leið verður farin fyrir næsta sumar en iðnaðarráðherra hefur nefnt þá tímasetningu sem viðmið fyrir upphaf gjaldtöku. Í samantektinni kemur einnig fram að í Bandaríkjunum hafi margir garðar tekið þátt í Fee Demonstration Program en þá halda garðarnir 80% af aðgangseyri til að byggja upp garðinn en 20% fara í uppbyggingu garða þar sem ekki er innheimtur aðgangseyri.

Áður en garðarnir tóku upp þetta fyrirkomulag þá fór stærstur hluti gjalda sem garðarnir söfnuðu til ríkissjóðs og 20% af gjaldinu fór til garðanna. Ástæðan fyrir jákvæðni í garð gjaldtökunnar er að flestir vilja sjá þessar tekjur fara beint í uppbyggingu eða viðhald. Það hefur vonandi enginn áhuga á að sjá þessar tekjur hverfa í svarthol ríkiskassans.

Stefán Tryggvason hótelstjóri er meðal þeirra sem vilja að tekin verði stærri skref í þessum málum og vill sjá uppbyggingu sem mun vekja athygli. Hann vill meðal annars sjá listafólk, arkitekta og hönnuði koma saman að uppbyggingu ferðamannamiðstöðva sem væru eftirtektarverðar og fengju mikla athygli. Breytingar hafa þegar orðið á mörgum fyrirtækjum sem tengjast ferðamannastöðum.

Síðustu ár hafa til dæmist breytingar orðið á matseðlum á ferðamannastöðum sem eru mjög jákvæðar. Verðið er kannski aðeins hærra, en nú er hægt að fá íslenskan mat sem hlýtur að heilla ferðamenn meira en hamborgari og franskar.

Við Íslendingar njótum góðs af þessu öllu þó þetta kosti aukakrónur. Hver veit nema við getum á næstu árum heimsótt ferðamannastaði þar sem ferðamannamiðstöðin er stórglæsileg hönnun og salernin stórkostlega snyrtileg. Eftir heimsóknina er svo hægt að fá sér góða íslenska kjötsúpu.