*

þriðjudagur, 14. júlí 2020
Leiðari
22. nóvember 2019 16:15

Miðjarðarhafs-meirihlutinn

Það er ekkert sjálfbært eða grænt við það að byggja gróðurhvelfingu og bílastæði í Elliðaárdalnum.

Sumardagur í Elliðaárdal.
Aðsend mynd

Því miður er saga Elliðaárdalsins sorgarsaga, þar sem þrengt hefur verið að náttúrunni. Nú, árið 2019, er meirihlutinn í Reykjavík staðráðinn í því að halda þessari stefnu áfram með því að afhenta ALDIN Biodome 12 þúsund fermetra lóð í dalnum, þar sem byggja á 4.500 fermetra gróðurhvelfingu. Raunar er heimild fyrir enn meira byggingarmagni á lóðinni.

Það vekur óneitanlega athygli þegar jafn ólíkir flokkar og Sjálfstæðisflokkurinn, Sósíalistaflokkurinn, Miðflokkurinn og Flokkur fólksins standa saman að tillögu í borgarstjórn. En það gerðist einmitt í vikunni þegar þessir flokkar, sem mynda minnihlutann í Reykjavík, lögðu fram tillögu um að haldin yrði atkvæðagreiðsla á meðal borgarbúa um byggingu gróðurhvelfingarinnar. Það að þessir flokkar hafi staðið saman að tillögunni ætti að sýna að málið sé hafið yfir flokkapólitík, að þverpólitísk samstaða sé um málið en það er nú heldur betur ekki svo. Meirihlutinn, borgarfulltúrar Samfylkingarinnar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna, felldi tillöguna.

Við hvað er meirihlutinn hræddur? Stöldrum aðeins við. Í stefnu Samfylkingarinnar segir beinlínis að nýta eigi „vettvanginn Betri Reykjavík til aukins samráðs við íbúa, t.d. með ráðgefandi atkvæðagreiðslum um tiltekin málefni“. Í stefnu Pírata segir að píratar ætli að „valdefla almenning og auka samráð við borgarbúa og hleypa fólki að ákvörðunum með því að styrkja lýðræðistól á við Betri Reykjavík“ Í stefnu Vinstri grænna segir: „Reykjavíkurborg hefur verið í fararbroddi í lýðræðistilraunum, þar sem verkefnið „Hverfið mitt“ hefur verið áberandi.“

Viðreisn virðist eini flokkurinn sem minnist ekki á aukið samráð við íbúa eða hvað? Í meirihlutasáttmálunum, sem birtur var 12. júní 2018 segir að auka eigi „áhrif borgarbúa á ráðstöfun skattfjár og stefnumótun. Útvíkka skal verkefnið „Hverfið mitt“ þannig að hægt verði að hafa bein áhrif á fleira en framkvæmdir og viðhald í hverfinu.“

Þrátt fyrir allt þetta þverskallast meirihlutinn við. Stóra spurningin hlýtur að vera hvers vegna hann vilji ekki að borgarbúar hafi eitthvað um þetta mál að segja.

Borgarfullrúi Vinstri grænna sagði í samtali við Morgunblaðið í vikunni að íbúalýðræði væri „fyrir íbúa, en ekki á forsendum kjörinna fulltrúa, sem á allra síðustu stundu hlaupa til og leggja fram tillögu um íbúakosningu …“ Þetta verða að teljast afar sérstök rök því strax síðasta sumar kom fram krafa um íbúakosningu. Hún var ekki frá kjörnum fulltrúum heldur Hollvinasamtökum Elliðaárdalsins.

Ef þetta er jafn góð hugmynd og meirihlutinn telur af hverju er þá borgarbúum ekki leyft að hafa eitthvað um það að segja að 12 þúsund fermetra lóð í Elliðaárdalnum sé útdeilt til ALDIN Biodome? Þá hafa hugmyndasamkeppnir um nýtingu lóða verið haldnar af minna tilefni en þessu.

Raunar er röksemdarfærslan og réttlætingin fyrir þessari framkvæmd afar sérstök, hvernig sem á það er litið. Talað hefur verið um að verið sé að styðja græna og sjálfbæra starfsemi. Er þá væntanlega verið að vísa til þess að inni í hvelfingunni verður gróður og, svo vísað sé í heimasíðu ALDIN Biodome, þá er meginmarkmiðið að „tengja fólk við náttúruna og stuðla að heilbrigðum lífsstíl, allt á sjálfbæran og arðbæran hátt. ALDIN verður einstakur samkomustaður í hjarta borgarinnar og nýtir ótrúlegan kraft „grænnar orku“ til að veita róandi upplifun í allra veðra von.“

Það sem gleymist í þessari röksemdarfærslu er fórnarkostnaðurinn, sem er sá að verið er að þrengja að einni helstu útivistarparadís Reykjavíkurborgar og Elliðaánum, einni gjöfulustu laxveiðiá landsins. Það er verið að skipuleggja 4.500 fermetra gróðurhvelfingu og flennistórt bílastæði á kostnað náttúrunnar. Það er ekkert sjálfbært eða grænt við það.

Verkefnið á að kosta 4,5 milljarða króna og hafa litlar fréttir borist af því hvernig fjármögnunin gengur. Það er áhyggjuefni. Fjöldi athugasemda hefur borist vegna gróðurhvelfingarinnar og sem dæmi telur Umhverfisstofnun að fyrirhuguð bygging gangi á svæðið, skerði útivistarsvæði almennings verulega og þrengi að vatnasviði Elliðaánna.

Á vefsíðu Reykjavíkurborgar segir að Elliðaárdalur sé eitt stærsta græna svæðið innan þéttbýliskjarna Reykjavíkur. „Hann er jafnframt eitt vinsælasta svæðið til útivistar, leikja og íþróttaiðkunar af ýmsu tagi.“

Ennfremur segir á vefsíðu borgarinnar að dalurinn einkennist af fjölbreyttu umhverfi, landslagi og gróðurfari, þar sem Elliðaárnar séu þungamiðjan en í þeim er lax, bleikja og urriði. Þá sé fuglalíf mjög auðugt í dalnum og þar hafi um 25 fuglategundir verpt. Birki, reyniviður, viðja, lerki, alaskavíðir, sitkagreni og stafafura eru algengar trjátegundir í Elliðaárdal og þar hafa einnig fundist hátt í 320 tegundir háplantna.

Inni í gróðurhvelfingunni, sem meirihlutinn leggur ofuráherslu á að rísi, verða m.a. loftslagsstýrð visthvolf, þar sem líkt verður eftir Miðjarðarhafs- og hitabeltisloftslagi.  Við búum í einstakri náttúrufegurð á norðurhjara veraldar. Borgaryfirvöld ættu kannski að hugleiða það aðeins í stað þess að planta pálmatrjám í turnlaga glerhýsi í Vogahverfinu, höfundarréttarvörðum dönskum strám í Nauthólsvík og byggja gróðurhvelfingu, sem á að skapa Miðjarðarhafsstemningu í Elliðaárdalnum.

Það sem helst stingur í augun þegar gengið er um Elliðaárdalinn er rusl. Fámennur hópur borgarbúa hefur tekið málin í sínar hendur og reglulega gengið um dalinn og tínt rusl. Vilji borgaryfirvöld raunverulega gera Elliðaárdalinn að enn betra útivistarsvæði þá væri fyrsta skrefið kannski að sinna honum betur. Að auki á meirihlutinn í borginni auðvitað að sjá sóma sinn í því að leyfa borgarbúum að kjósa um framtíðarskipulag Elliðaárdals.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.