*

fimmtudagur, 28. janúar 2021
Andrés Magnússon
15. september 2019 13:43

Miðlar í vanda

Fjölmiðlarýnir fjallar um styrki til fjölmiðla, verðlaun frá ráðuneytum og bull í DV.

Haraldur Guðjónsson

Í nýframlögðu fjárlagafrumvarpi er gert ráð fyrir að 400 milljónir króna séu útbærar úr ríkissjóði til þess að styrkja einkarekna fjölmiðla í landinu. Þar af skuli 350 milljónir renna til beinna styrkja við þá miðla, sem uppfylla skilyrði um almenna og reglubundna fjölmiðlun. Til viðbótar beinu styrkjunum er svo gert ráð fyrir stuðningi við miðlana, sem nemi allt að 5,15% af launum þess starfsfólks á ritstjórn, sem fellur undir lægra skattþrep tekjuskattsstofns. Reiknað er með því að sú aðgerð nemi um 170 milljónum króna og áformin í heild sinni því metin á um 520 milljónir króna á ári.

Í frumvarpsdrögum Lilju Alfreðsdóttur menningarmálaráðherra er mælt fyrir reiknireglu um styrkfé til fjölmiðla, sem miðar við endurgreiðslu á tilteknum kostnaði á ritstjórn, beinum launakostnaði blaða- og fréttamanna, ritstjóra, myndatökumanna, ljósmyndara og prófarkalesara. Verktakagreiðslur fyrir sömu störf eiga og að falla þar undir. Endurgreiðsluhlutfallið má samkvæmt frumvarpsdrögum Lilju hæst nema 25% af styrkhæfum kostnaði, en þó ekki hærri en 50 milljónir til hvers einstaks fjölmiðils.

Miklar efasemdir hafa komið fram um að helstu fjölmiðlum landsins sé mikið gagn í styrkjunum ef þakið er í 50 milljónum króna á ári. Nægir sjálfsagt í því samhengi að nefna nýlegar fréttir af taprekstri þeirra. En hvað er þá til ráða? Að hækka þakið? Að styrkir skattborgara til fjölmiðla dugi til þess að stappa í mörghundruð milljón króna göt í rekstri þeirra? Að þjóðnýta bara allt heila galleríið?

Nei, það sér hver maður að slíkt er hvorki hægt né æskilegt. En það má gera þeim rekstrarumhverfið auðveldara, t.d. með lækkun eða afnámi virðisaukaskatts sem myndi létta þeim öllum róðurinn án flókinna reiknireglna eða matskenndra og óskýrra reglna annarra. Og umfram allt með því að hætta hinni eilífu forgjöf Ríkisútvarpsins, hvaða nafni sem nefnist. Vegna tækniþróunar, breyttrar fjölmiðlaneyslu og þjóðfélagsbreytinga er full ástæða til þess að taka hlutverk þess og umfang til endurskoðunar. Þrengingar frjálsra fjölmiðla eru enn ein röksemd fyrir því.

                                                                                                 * * *

Skoðanir fjölmiðlarýnis á hugmyndum um að frjálsir fjölmiðlar verði fjárhagslega háðir velvilja fjárveitingavaldsins hafa komið fram hér áður. Sem og gagnrýni á að hið opinbera veiti verðlaun fyrir fjölmiðlaumfjöllun því þóknanlega, eins og lesa má um í hægri dálki. Fjölmiðlaverðlaun umhverfisráðuneytisins eiga sér enga lagastoð og fjárútlát vegna þeirra sögð vera skrifstofukostnaður. Má ekki beina því til þingmanna að þeir lækki fjárframlög til ráðuneytisins sem því nemur við afgreiðslu fjárlaga? Og eins til kolleganna að þeir neiti að veita þessum skammarverðlaunum viðtöku? 

                                                                                                 * * *

Þá er komið að hinum vinsæla dagskrárlið Bull vikunnar í DV:

Þingsetning markar upphaf hins pólitíska vetrar og þar eru oft línur lagðar um framhaldið. Fjölmiðlarýnir varð þó eilítið hissa þegar hann sá frétt í DV undir fyrirsögninni „Forseti ávarpaði þingið í dag: Vill breyttar siðareglur fyrir þingmenn“. Þar greindi frá því að forseti lýðveldisins hefði kvatt sér hljóðs á þingi til þess að brýna fyrir þingheimi nauðsyn á breyttu vinnulagi í þinginu, einkum og sér í lagi varðandi endurbætur á siðareglum þingmanna. Þetta er svo einkennilegt frumkvæði hjá herra Guðna að eitt augnablik óttaðist fjölmiðlarýnir að það væri farið að slá út í fyrir honum. En svo las hann „fréttina“:

Alþingi var sett í dag og er það 150. löggjafarþingið. Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands ávarpaði þingheim við setninguna. Guðni hefur hug á að vinna á endurbótum á starfsháttum þingsins. Hann vill einnig vinna að endurbótum á siðareglum þingmanna.

Ávarp Guðna er eftirfarandi: Ávarp forseta Alþingis við setningu 150. löggjafarþings Ég býð hv. alþingismenn og gesti Alþingis velkomna við setningu 150. löggjafarþings. Sérstakar hamingjuóskir færi ég [… og svo framvegis.]

Þarna kom skýrt fram í fréttinni sjálfri að hún er della. Eins og þar segir skilmerkilega var þar vitnað til orða Steingríms J. Sigfússonar, forseta Alþingis, en ekki Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Íslands.

Er það til of mikils mælst að blaðamenn lesi þær fréttir sem þeir skrifa? Einhver tók af DV ómakið um það og gerði viðvart, en samt tók það nú alveg sólarhring að fjarlægja hana af vefnum, án leiðréttingar að séð verður. En kannski maður eigi bara að þakka fyrir að DV kynnti ekki Jón forseta til leiks.

                                                                                                 * * *

Fjölmiðlarýnir fékk spurningu frá kollega eftir skrifin um DV í þessum dálkum síðastliðnar tvær vikur. Hún var um það bil sú hvers vegna yðar einlægur nennti að elta ólar við DV, jaðarmiðil sem fáir tækju mark á eða sæktu sér eiginlegar fréttir til.

Að því hafði raunar eilítið verið vikið í pistlinum 29. ágúst, því ekki þyrfti annað en að líta á forsíðu dv.is til að sjá að miðillinn flytti sárafáar fréttir í eiginlegum skilningi, aðallega þá misgóðar endursagnir á fréttum annarra, eitthvert raus af Facebook í bland við erlendar furðufréttir og slebbaslúður. Og því til svarað að vandinn væri sá að um þetta rusl væri búið líkt og um fréttir væri að ræða og því bæri nauðsyn til þess að finna að því.

En það er önnur ástæða, ekki síðri. Hún er sú að þegar litið er á vefmælingar Gallups kemur á daginn að dv.is er þriðji mest lesni netmiðill landsins.

Netútgáfa Morgunblaðsins er með um 180.000 notendur á viku að meðaltali og Vísir skammt undan með um 170.000 notendur. DV nokkru fyrir neðan en samt í þriðja sæti með 130.000 notendur og hefur sótt í sig veðrið jafnt og þétt undanfarna mánuði og misseri; var með liðlega 90.000 notendur fyrir ári. Næsti netmiðill á eftir er Ríkisútvarpið sem er með vel innan við helminginn af notendum DV. Og aðrir miðlar með töluvert minna en það, Fréttablaðið með 34.000, Stundin með 25.000 og blessað Viðskiptablaðið með tæp 11.000.

Það er því ástæða til þess að hafa áhyggjur af því að þrátt fyrir alla þvæluna –  kannski vegna hennar! –  sé DV í einhverjum skilningi einn útbreiddasti fjölmiðill þjóðarinnar.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.