Fjölmörg og stór tækifæri til vaxtar hagkerfisins eru í íslenskum iðnaði. Áform eru innan greinarinnar um verulega aukningu í útflutningi og umfangsmiklar fjárfestingar í innviðum eru framundan. Ef af þessum áformum verður munum við sjá meiri hagvöxt á næstu árum en nú er reiknað með í hagvaxtarspám. Við gætum jafnvel séð verulega aukinn hagvöxt ef vel tekst til.

Iðnaðurinn skiptir miklu máli

Umfang iðnaðar er mikið í íslensku efnahagslífi. Það skiptir því miklu fyrir hagkerfið í heild hvernig greinin þróast. Iðnaður er stærsta greinin í útflutningi hagkerfisins með 44% útflutningstekna en innan iðnaðarins eru tvær af fjórum stoðum útflutnings, þ.e. hugverkaiðnaður og orkusækinn iðnaður.

Í iðnaði starfar um einn af hverjum fjórum í hagkerfinu. Rétt tæplega þriðjungur veltu í hagkerfinu er í iðnaði og iðnaður stendur undir nær fjórðungi verðmætasköpunar hagkerfisins og mun meira ef óbein áhrif greinarinnar eru tekin með.

Líkt og vægi iðnaðar í verðmætasköpun hagkerfisins ber vitni um hefur vægi iðnaðarins í vexti hagkerfisins síðustu ár og áratugi verið umtalsvert. Þegar litið er til síðasta áratugar hefur iðnaður skapað 30% af allri fjölgun launþega í hagkerfinu. Hlutdeild greinarinnar í hagvexti þessa tíma hefur verið viðlíka. Litið til næstu ára er viðbúið að hlutdeild greinarinnar í hagvexti verði umtalsvert meira.

Það er ljóst að hugverkaiðnaður getur orðið verðmætasta útflutningsstoð hagkerfisins innan fárra ára.

Fjölbreytt flóra iðnfyrirtækja starfa um land allt. Fyrirtækin eru stór og smá í öllum greinum iðnaðar. Það er þessi fjölbreytileiki sem er styrkur iðnaðarins. Hann rennir stoðum undir samfélagið allt, sama hvar er á landinu. Fjölbreytileiki iðnaðarins skapar efnahagslegan stöðugleika sem er mjög mikilvægt fyrir samkeppnishæfni hagkerfisins og hag heimilanna.

Vöxtur í útflutningi hugverkaiðnaðar framundan

Talsverður vöxtur hefur verið í útflutningstekjum iðnaðar á síðustu árum. Greinin hefur tvöfaldað útflutningstekjur sínar frá árinu 2017. Hugverkaiðnaður hefur verið hratt vaxandi grein í útflutningi og skilaði greinin í fyrra 239 mö.kr. í útflutningstekjur sem er nær fimmföldun frá því fyrir um áratug samkvæmt gögnum Hagstofu Íslands.

Nýlega gerðu Samtök iðnaðarins könnun meðal nokkurra fyrirtækja í hugverkaiðnaði á því hvers þau vænta í auknum útflutningstekjum litið til næstu fimm ára. Innan greinarinnar eru fyrirtæki sem hafa verið í miklum vexti undanfarið og áform þeirra um vöxt litið til næstu ára eru stór. Áhrif þessa á hagkerfið verða veruleg en þetta mun bæði auka verðmætasköpun og fjölga vel launuðum störfum.

Það er ljóst að hugverkaiðnaður getur orðið verðmætasta útflutningsstoð hagkerfisins innan fárra ára. Lífskjör okkar eru háð auknum útflutningstekjum og þar eru tækifærin í hugverkaiðnaði gríðarleg.

Orkuskiptin sem eiga að eiga sér stað fyrir árið 2040 útheimta um 800 ma.kr. fjárfestingu.
© Haraldur Jónasson (VB MYND/HARI)

Mjög brýnar og arðvænlegar innviðaframkvæmdir

Það er mikil og brýn þörf fyrir uppbyggingu innviða hér á landi hvort sem er í uppbyggingu orkukerfis, íbúða eða samgangna svo eitthvað sé nefnt. Orkuskiptin sem eiga að eiga sér stað fyrir árið 2040 útheimta um 800 ma.kr. fjárfestingu. Brýnt er að ráðast í þessar framkvæmdir til að ná loftslagsmarkmiðum Íslands og stuðla um leið að auknu orkuöryggi og orkusjálfstæði Íslands. Efnahagslegur ávinningur þeirra framkvæmda verður mikill.

Ríki og sveitarfélög hafa gert með sér rammasamkomulag um byggingu 35 þúsund nýrra íbúða á næstu tíu árum. Markmiðið er að framboð nýrra íbúða mæti þörfum landsmanna en talsvert hefur skort upp á það á síðustu árum. Um er að ræða 2 þúsund milljarða fjárfestingu og tæplega 40% aukning í íbúðafjárfestingu m.v. síðastliðin 10 ár.

Þessu til viðbótar erum við með mikla uppsafnaða fjárfestingar- og viðhaldsþörf í samgöngukerfinu en uppbygging og viðhald samgöngukerfisins hefur ekki verið í takti við þarfir atvinnulífs og heimila um langt skeið.

Um er að ræða fjölda verkefna sem geta skilað miklum þjóðhagslegum ávinningi og eru til þess fallnar að hækka fjárfestingarstigið í hagkerfinu og renna stoðum undir framleiðslugetu þess og þar með verðmætasköpun til lengri tíma. Tafir á framkvæmd þeirra kosta samfélagið allt mikið. Samanlagt er þetta um 730 ma.kr. fjárfesting.

Til þess að við getum nýtt tækifærin sem við okkur blasa í iðnaðinum um þessar mundir þarf umhverfi greinarinnar að vera samkeppnishæft.

Uppskeran mjög ríkuleg

Til þess að þessi tækifæri sem blasa við okkur í iðnaði skili sér í aukinni verðmætasköpun og fjölgun starfa þarf starfsumhverfi þeirra hér á landi að vera þeim hagfellt. Í könnun sem gerð var meðal félagsmanna SI í aðdragandi Iðnþings var spurt um þá þætti sem munu helst hefta vöxt viðkomandi fyrirtækis litið til næstu fimm ára.

Á Iðnþingi verða niðurstöðurnar kynntar og endurspegla þær áherslur Samtaka iðnaðarins á þau málefni sem helst hafa áhrif á samkeppnishæfni og framleiðni, þ.e. mannauður, innviðir, nýsköpun, orka og umhverfi og starfsumhverfi. Ljóst er að til þess að við getum nýtt tækifærin sem við okkur blasa í iðnaðinum um þessar mundir þarf umhverfi greinarinnar að vera samkeppnishæft og til jafns við það besta sem gerist í heiminum. Ef rétt er á málum haldið verður uppskeran mjög ríkuleg.

Greinin birtist í sérblaðinu Iðnþing 2023 sem kom út í dag.