Íslensk verðbréf og Kjarninn stóðu fyrir áhugaverðri ráðstefnu um sæstreng 20. apríl síðastliðinn þar sem Charles Hendry, fyrrverandi orkumálaráðherra Bretlands, var meðal frummælenda. Í máli hans var ítrekaður sá mikli vilji sem er til staðar hjá breskum stjórnvöldum til þess að ganga til viðræðna við íslensk stjórnvöld um þetta verkefni. Hendry fullyrti að allir stærstu stjórnmálaflokkar Bretlands væru sammála um að sæstrengur til Íslands væri einn af áhugaverðustu kostunum á borði Breta til þess að mæta skuldbindingum og þörfum þeirra í orkumálum.

Fleira kom þó fram í máli Hendry sem vekur athygli. Bresk orkulöggjöf heimilar DECC (breska orkumálaráðuneytið) að gera svokallaða mismunasamninga (e. Contracts for Differences, CfDs) sem tryggja orkuframleiðendum fast verð fyrir afurð sína, óháð sveiflum markaðsins. Slíkir samningar eru bindandi af hálfu breska ríkisins og tryggja verð sem er margfalt hærra en það sem Landsvirkjun fær fyrir orku sína í dag.

Hingað til hefur DECC gefið út föst viðmiðunarverð eftir tegund raforku. Tryggt verð fyrir vatnsorku hefur þannig verið 100 GBP/MWst á verðlagi 2012. Einnig hefur verð samið um að tryggja 145 GBP/MWst fyrir jarðhita og 95 GBP/MWst fyrir vindmyllur á landi. Í öllum tilvikum er um verðtryggðar tölur að ræða sem dregur enn frekar úr áhættu seljanda. Til samanburðar var meðalverð á seldri raforku Landsvirkjunar til stóriðju 15,7 GBP/MWst árið 2014, (Ársskýrsla Landsvirkjunar 2014). Sexfaldur munur, eða meiri, hefði átt að vera mikill hvati til að setjast að samningaborðinu en samt virðast viðræður skammt á veg komnar.

Breyttar reglur um mismunasamninga

Bresk stjórnvöld hafa verið að þróa reglur sínar um mismunasamninga til að tryggja hagsmuni sína betur og hafa nú sett á uppboð um slíka samninga með það fyrir augum að lækka verðið sem þeir greiða fyrir rafmagnið. Niðurstöður fyrsta uppboðsins liggja nú fyrir og mismunasamningar náðust við 27 framleiðendur, þar af fimmtán í vindorku á landi. Vegið meðaltal þeirra samninga var 80,5 GBP/MWst, lægra en það sem samið hefur verið um hingað til, vísbending um að verðið fari lækkandi fyrir vindorku. Það er full ástæða til að bregðast við áður en slíkar verðlækkanir fara að hafa áhrif á mismunasamninga fyrir aðrar tegundir orkuframleiðslu. Ef vindur á að verða þriðja stoðin í orkukerfi Íslendinga er einnig rétt að hafa í huga hversu mikið hagsmunamál þetta er. Það er ekki sjálfgefið að raforkuverð muni fara síhækkandi í Bretlandi.

Tíminn skiptir máli

Það kann því að vekja athygli að tenging við Danmörku er komin á lista bresku orkustofnunarinnar (Ofgem) yfir vænlega raforkusæstrengi til Bretlands. Þrátt fyrir að slíkur strengur yrði um 800 km langur og dýr eftir því og þrátt fyrir að Danir búa ekki yfir sömu orkukostum og Íslendingar. Danir ætla þannig að nýta sér þau verðmæti sem hægt er að skapa með því að kaupa og selja rafmagn. Þeir leggja nú strengi til nágranna sinna í samræmi við það.

Miðað við þær upplýsingar sem liggja fyrir um framgang sambærilegra verkefna í Bretlandi og víðar í Evrópu er ljóst að það er kominn tími til að hefja viðræður. Bretar halda áfram að nálgast markmið sín sem þeir geta náð án þess að tengjast Íslandi. Á meðan versnar samningsstaða okkar.