*

sunnudagur, 20. júní 2021
Örn Arnarson
31. maí 2021 07:03

Milli Vanilli og trippin í Eyjafirði

Það er álíka mikil frétt að fyrirtæki taki til varna í opinberri umræðu og að strákarnir í Milli Vanilli sungu ekki sjálfir lögin sem voru gefin út í þeirra nafni.

Í skjali sem fannst við húsleit árið 2009 merkt almannatenglinum Gunnari Steini Pálssyni var sett fram víðtæk áætlun um áhrif á umræðu um helstu lykilpersónur í bankahruninu 2008 sem honum tengdust. Í skjalinu kemur m.a. fram hvernig hægt var að stofna bloggher til að hafa áhrif á umræðuna. Gunnar Steinn starfaði mikið fyrir Sigurð Einarsson, fyrrverandi stjórnarformann Kaupþings, og Hreiðar Má Sigurðsson, fyrrverandi bankastjóra Kaupþings-samstæðunnar, auk þeirra Ágústs og Lýðs Guðmundssona í Bakkavör. Frá þessu er sagt í bókinni Ísland ehf. eftir blaðamennina Þórð Snæ Júlíusson og Magnús Halldórsson sem kom út árið 2013.

Það er ekki óþekkt að stjórnendur fyrirtækja reyni að halda málstað sínum á lofti í fjölmiðlum og leiti meðal annars til sérstakra ráðgjafa í þeim efnum. Þeir eru ekki allir ráðagóðir eins og dæmin sanna. Hvaða skoðun sem menn kunna hafa á málstað einstakra fyrirtækja er ekkert óeðlilegt að þau taki til varna í opinberri umræðu ef stjórnendur þeirra telja að hallað sé þeirra máli. Það er álíka mikil frétt að fyrirtæki bregðist við með þessum hætti og þegar það spurðist út á sínum tíma að strákarnir í Milli Vanilli sungu ekki sjálfir lögin sem voru gefin út í þeirra nafni. 

                                                         ***

Stundin og Kjarninn gerðu sér mat í síðustu viku úr gögnum sem virðast hafa verið fengin úr illa fengnum síma starfsmanns Samherja. Fleiri miðlar endurómuðu þann fréttaflutning. Þrátt fyrir stórbokkalegt tal og ósmekklegt á köflum úr netsamtölum þremenninga sem starfa fyrir Samherja eru þær afhjúpanir Stundarinnar og Kjarnans ekkert sérlega merkilegar. Þannig kemur fram að almannatengill og lögfræðingur hafi aðstoðað skipstjóra Samherja við að berja saman nokkrar aðsendar greinar þar sem málstað fyrirtækisins er haldið á lofti auk nokkurra athugasemda á umræðum á Facebook. Eitthvað eru nú illa rekin trippin í Eyjafirði ef Samherji þarf að reiða sig á Facebook-innlegg eins skipstjóra á meðan stærstu fyrirtæki landsins réðu yfir heilum bloggherjum á árum áður.

Þá gera fjölmiðlar sér mat úr því að þetta hópspjall þremenninganna snerist meðal annars um skoðanaskipti á formannskjöri í Blaðamannafélaginu og val á oddvita sjálfstæðismanna í Norðausturkjördæmi. Þrátt fyrir að ekkert liggi fyrir að Samherji hafi beitt sér í málunum fluttu fjölmiðlar fréttir eins og fyrirtækið hefði beitt sér með óeðlilegum hætti. Enda byggði fréttaflutningurinn á einhverjum skoðanaskiptum og bollaleggingum.

                                                         ***

Þegar öllu er á botninn hvolft stendur lítið eftir af þessum fréttaflutningi annað en frásagnir af einhverju spjalli fólks sem virðist gera sig breiðara en efni stendur til. En það virðist duga til að þyrla upp moldviðri og hugsanlega er leikurinn til þess gerður.

Í þessu samhengi er rétt að rifja upp að fyrir skemmstu voru fluttar fréttir af ásökunum fyrrverandi starfsmanns lyfjafyrirtækis á hendur yfirmanni sínum um að hann hefði lagt á ráðin um rógsherferðir gegn meintum andstæðingum sínum og embættismönnum í fjölmiðlum. Hér er um að ræða eitt stærsta fyrirtæki landsins og áhugavert að bera saman umfjöllun fjölmiðla um þetta mál í samanburði við fréttaflutninginn af þessu Samherjaspjalli. Rétt er að halda því til haga að Íslandsdeild Transparency International hefur einungis ályktað um annað þessara mála.

                                                         ***

Í blaðaútgáfu Stundarinnar, sem kom út í síðustu viku, er að finna forvitnilega úttekt þar sem rætt er við forstjóra stærstu útgerðarfyrirtækja landsins að Samherja undanskildum. Þar kemur fram að svokölluð Namibíumál Samherja hafi ekki nein áhrif á sölu- og markaðsstarf íslensks sjávarútvegs erlendis. Miðað við málflutning ýmissa stjórnmálamanna og álitsgjafa kemur sú staðreynd nokkuð á óvart.

                                                         ***

Fréttir af rimmu ASÍ og flugfélagsins Play hafa verið fyrirferðarmiklar í vikunni. Miðstjórn ASÍ sendi frá sér yfirlýsingu í síðustu viku þar sem landsmenn voru hvattir til þess að sniðganga flugfélagið þar sem það er sakað um að brjóta lög með gerð kjarasamninga við starfsmenn sína. Yfirlýsingar hafa verið sendar út og greinar skrifaðar í kjölfar þessa útspils miðstjórnar ASÍ. Eftir stendur kjarni málsins: ASÍ fór fram með rangfærslur og hvatti í kjölfarið landsmenn til að þess að sniðganga nýstofnað félag. Þessar rangfærslur voru útskýrðar með ítarlegum og aðgengilegum hætti í fréttaskýringu sem birtist á vef Viðskiptablaðsins þann 25. maí. Hér er um grafalvarlegt mál að ræða og vekur það undrun að fjölmiðlar skuli ekki ganga harðar að Drífu Snædal, forseta ASÍ, og þeim sem skipa miðstjórn samtakanna eftir útskýringum.

                                                         ***

Miðstjórn ASÍ var í miklu stuði sama dag og hún hvatti landsmenn til að sniðganga Play. Hún mótmælti einnig stýrivaxtahækkun Seðlabankans. Fram kemur í yfirlýsingu miðstjórnarinnar að vaxtahækkun sé ekki rétta leiðin til þess að spyrna við verðlagshækkunum og óskað er eftir að Seðlabankinn grípi til annarra aðgerða á fasteignamarkaði til að vinna gegn hækkunum. Er þar átt við heimildir Seðlabankans til að hækka eiginfjárframlag til íbúðarkaupa. Seðlabankarnir í Svíþjóð og Danmörku hafa verið óhræddir við að grípa til slíkra aðgerða á undanförnum árum en ljóst er að slíkar aðgerðir bitna harðast á tekjulægstu hópunum. Áhugavert hefði verið ef fjölmiðlar hefðu óskað eftir svörum frá Drífu Snædal, forseta ASÍ, hvers vegna hún telur þessa leið gagnast umbjóðendum sínum betur en vaxtahækkanir.

                                                         ***

Meira um vaxtahækkanir: Fjölmiðlar fjalla mest um áhrif vaxtabreytinga á afborganir af húsnæðislánum. Ekkert er við það að athuga en áhugavert væri að sjá umfjöllun um hvaða áhrif vaxtabreytingar Seðlabankans hafa á innlánskjör viðskiptavina. Fróðlegt gæti verið að sjá yfirlit þróunar vaxta á helstu innlánsreikningum viðskiptabankana í samanburði við vaxtabreytingar Seðlabankans á undanförnum árum.

                                                         ***

Vísir sagði frá átökum á Laugarvegi í síðustu viku. Sérsveit Ríkislögreglustjóra var kölluð til eftir að maður réðist að öðrum manni vopnaður samúræjasverði. Haft er eftir lögreglufulltrúa í fréttinni að sjaldgæft sé að samúræjasverð komi við sögu í störfum lögreglunnar. Miðað við þessi ummæli er það þá ekki óþekkt og það verður að teljast fréttnæmt.

Áhugavert væri að vita um tíðni árása með samúræjasverðum hér á landi. Fréttamaður hefur einnig eftir lögreglumanni að óheimilt sé að ganga með samúræjasverð hér á landi nema í vinnutengdum tilgangi. Það er ágætt að þeirri óvissu skuli hafa þar með verið eytt.

                                                         ***

Úrslitakeppni stendur nú yfir í körfuknattleik – móður allra íþrótta – og handkasti. Fréttir hafa verið sagðar af dólgslátum áhorfenda á sumum leikjum. Virðist þetta bundið við vesturbæ Reykjavíkur og kvartað hefur verið yfir stuðningsmönnum KR og Gróttu. Fjölmiðlarýnir er Keflvíkingur og mikill körfuknattleiksáhugamaður og hlýtur sem slíkur að fordæma slíkt framferði.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.