*

fimmtudagur, 28. maí 2020
Veena P. og Ása Kristín
8. apríl 2020 09:04

Milliverðlagning á tímum coronavírusins

„Því miður verða efnahagslegar og viðskiptalegar truflanir í dag að skattalegum vandamálum morgundagsins.“

„Það væru engar ýkjur að segja að á örfáum vikum hefur þessi veira raskað grundvelli daglegs lífs okkar og eðlisávísunin komið okkur í sjálfsvarnar ham.“
epa

Coronaveiran þarfnast engrar kynningar. Það væru engar ýkjur að segja að á örfáum vikum hefur þessi veira raskað grundvelli daglegs lífs okkar og eðlisávísunin komið okkur í sjálfsvarnar ham.

Milliverðlagning er ef til vill það síðasta sem nokkur er að hugsa um á meðan við reynum að halda í heilsu okkar, vernda fjölskyldur okkar sem og halda störfum og fyrirtækjum gangandi á þessum umróta tímum. Því miður verða efnahagslegar og viðskiptalegar truflanir í dag að skattalegum vandamálum morgundagsins. Ríkisstjórnir eru að verða fyrir gríðarlegum útgjöldum við að hefta útbreiðslu veirunnar, styðja almenning og örva hagkerfi sín. Á sama tíma munu skattatekjur ríkja, vegna ársins 2020 og jafnvel lengur, lækka í ljósi þeirrar niðursveiflu sem verður í hagkerfinu af völdum veirunnar. Þar af leiðandi er eðlilegt að gera ráð fyrir því að skattyfirvöld munu auka við eftirlitsaðgerðir sínar á næstkomandi árum til að auka skatttekjur ríkissjóðs. Milliverðlagning mun verða einn af aðal áherslupunktunum í þeim eftirlitsaðgerðum.

Hér eru nokkur skref til að draga úr milliverðlagningar áhættu sem til kemur vegna áhrifa coronaveirunnar. Það skal þó tekið fram að ráðleggingar hér að neðan geta tekið breytingum á grundvelli aðstæðna hvers og eins fyrirtækis.

1. Yfirfarðu samninga félagsins

Samningar við þriðju aðila, s.s. við birgja, innihalda almennt „force majeure" ákvæði sem tekur á samningsbrotum aðila vegna utanaðkomandi aðstæðna sem aðilar hafa enga stjórn á. Einhverjir kveða á um skyldu aðila til að veita gagnaðila skriflega tilkynningu um nýtingu ákvæðisins, og sumir samningar gætu veitt aðilum heimild til að breyta skilmálum samningsins. Það er því mjög mikilvægt að hafa samband við gagnaðila og skrá öll samskipti er varða þessi mál svo hægt sé að rökstyðja breytingar á tekjum eða gjöldum vegna þessa.

Að sama skapi skaltu athuga hvort samningar milli tengdra félaga heimila aðlögun á milliverðlagningarstefnu þeirra undir óvenjulegum kringumstæðum. Ef nýir samningar milli samstæðufélaga hafa verið undirritaðir á árinu 2020 sem nú er ómögulegt að efna er hugsanlega hægt að ógilda samninginn. Til dæmis er skv. milliverðlagningarreglum í Bandaríkjunum horft framhjá tilteknum viðskiptum aðila ef þeim er rift innan sama árs, að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Þú munt hins vegar þurfa að kanna hvort heimaríki gagnaðila myndi samþykkja slíka breytingu eða afturköllun.

2. Leggðu mat á hagnað/tap

Ef þitt félag veitir þjónustu og beitir kostnaðarálagsaðferðinni (e. cost-plus method) eða annarri sambærilegri aðferð, eða félagið á dótturfélög erlendis sem beita kostnaðarálagsaðferðinni, skaltu skoða hvaða áhrif coronavírusinn gæti haft á kostnað þjónustuveitandans. Verður þjónustuveitandinn fyrir auknum útgjöldum sem falla utan eðlilegra viðskiptaútgjalda, líkt og auknum starfsmannakostnaði vegna hærri tíðni veikindaleyfa, kaupum á búnaði til smitvarna, hærri kostnaði aðfanga o.s.frv.? Ætti þessi aukakostnaður að vera innifalinn í kostnaðinum sem álag reiknast ofaná? Ætti álagsprósentan að lækka í ljósi þess að þau sambærilegu félög sem litið var á til viðmiðunar (fyrir COVID-19) gætu nú sætt verulegri skerðingu á tekjum sínum (eftir COVID-19)? Ættu einstök félög að telja fram hagnað þegar samstæðan í heild sinni verður fyrir tapi vegna coronaveirunnar? Hvaða félög ættu að taka á sig stærri hluta tapsins? Svar við þessum spurningum krefst nákvæmrar skoðunar á

skattalegri uppbyggingu og tilhögun milliverðlagningar innan samstæðu þinnar, ásamt áhættumati á skattaumhverfi þeirra landa sem samstæðan nær til.

3. Greiningar og skráning

Flest skattyfirvöld eru tilbúin að samþykkja taprekstur eða lækkun hagnaðar af völdum óvæntra efnahags- eða viðskiptaástæðna, að því gefnu að sýnt sé fram á slíkt. Ef þú sérð fram á lækkun hagnaðar af völdum coronaveirunnar er mikilvægt að útbúa útreikninga og halda skrá utan um þau áhrif á tekjur og kostnað félagsins sem veiran hefur. Við álagningu 2020 (og til framtíðar) verður þú að geta sýnt fram á að tap eða lækkun á hagnaði félags hafi orsakast af coronaveirunni en ekki vegna ómálefnalegrar milliverðlagningar. Ef félag hefur notið stuðnings ríkisins í tengslum við COVID-19 þá skal einnig taka tillit til þess í greiningu á áhrifum veirunnar. Þessi greining gæti verið allt annað en einföld.

4. Fjármögnun innan samstæðu

Á meðan krísan varir gætu mörg félög glímt við lausafjárskort, eða átt dótturfélög erlendis sem skortir fjármagn til að halda áfram rekstri. Önnur gætu átt erfitt með að standa skil á vaxtagreiðslum lána. Félög gætu þá veitt lán milli samstæðufélaga eða nýtt samninga um stýringu lausafjár innan samstæðu (e. cash pooling) til að koma fjármunum til þeirra félaga sem mest þurfa á þeim að halda. Það er mikilvægt að þessi viðskipti séu skjöluð með réttum hætti og að þau samrýmist nýjum viðmiðunarreglum OECD um fjármögnun milli fyrirtækja sem gefnar voru út í febrúar 2020.

5. Yfirfarðu skipulag skattamála samstæðunnar

Skatta- og milliverðlagningar skipulag fjölþjóða samstæðna veltur á hvaða starfsemi og áhætta er til staðar á hverju svæði. Sem dæmi gæti framleiðsla átt sér stað í Kína, hugverkaréttindi þróuð í Bandaríkjunum, framkvæmdarstjórn á Íslandi o.s.frv. Á meðan krísa varir, þegar fyrirtæki í flýti reyna að verja starfsfólk sitt og halda starfsemi gangandi, gætu þau ómeðvitað breytt eðli áhættu eða starfsemi samstæðunnar, sem gæti mögulega verið andstætt gildandi fyrirkomulagi. Að auki gætu ferðabönn haft þau áhrif að viðvera lykilstarfsmanna í tilteknum ríkjum teljist mynda fasta starfsstöð eða valdið vandamálum tengdum skattalegri heimilisfesti. Það er því skynsamlegt í þessum aðstæðum að meta hvort skipulag skattamála þinnar samstæðu sé nógu sterkt til að standast núverandi aðstæður eða hvort tilefni sé til endurskipulagningar.

6. Vaktaðu nýjustu tíðindi á sviði skattamála

Flestar ríkisstjórnir eru að lengja framtalsfresti eða greiðslufresti í skattskilum. Þær hafa einnig verið að bjóða fram ýmis lán, styrki, niðurgreiðslur eða skattaafslætti til að aðstoða fyrirtæki við að standa af sér áhrif coronaveirunnar. Fyrirtækjum er ráðlagt að fylgjast með þróun slíkra mála í þeim ríkjum sem þau starfa til að geta nýtt sér slíkan stuðning á viðeigandi máta.

Höfundar eru Veena Parrikar, PhD (Economics) og Ása Kristín Óskarsdóttir, lögmaður hjá KPMG Lögmönnum.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.