*

þriðjudagur, 25. júní 2019
Ásdís Kristjánsdóttir
21. september 2018 15:00

Milljarður á viku

Alþingi líður ekki fyrir skort á talsmönnum aukinna útgjalda en talsmenn skattalækkana má telja á fingrum annarrar handar.

Haraldur Guðjónsson

Í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2019 er gert ráð fyrir því að ríkisútgjöld aukist um 57 milljarða króna milli ára. Jafngildir það rúmlega einum milljarði króna á viku, 160 milljónum króna á dag. 7% útgjaldaaukning milli ára er ekki nóg að mati margra þingmanna, auka þurfi útgjöld enn frekar.

Alþingi líður ekki fyrir skort á talsmönnum aukinna útgjalda en talsmenn skattalækkana má telja á fingrum annarrar handar. Það er undarlegt í ljósi þess að ríkisútgjöld á hvern Íslending hafa aldrei verið meiri og Ísland orðið háskattaríki í alþjóðlegum samanburði. Að undanförnu hefur samkeppnisstaða íslenskra útflutningsfyrirtækja farið hratt versnandi samfara miklum launahækkunum og sterku gengi krónunnar. Fréttir síðustu vikna um stöðu flugfélaga ættu jafnframt að vekja fólk til umhugsunar. Núverandi velgengni okkar stærstu útflutningsgreinar getur reynst hverful. Ein leið til að styðja við íslenskt atvinnulíf er að lækka skatta en miðað við kröfur ákveðinna þingmanna á frekar að sækja meiri fjármuni úr rekstri íslenskra fyrirtækja.

Umræðan um endurskoðun veiðigjalda snýst lítið um það hvort ný reikningsaðferð sé betri og nákvæmari heldur hvort hún leiði til aukinnar gjaldtöku eða ekki. Það er auðvitað fráleit nálgun.

Ef einhvern lærdóm má draga af núverandi hagvaxtarskeiði þá er það mikilvægi þess að útflutningsgreinar séu leiðandi í verðmætasköpun á Íslandi. Útflutningsgreinar skila nú í fyrsta skipti nægum gjaldeyristekjum til að hægt sé að standa undir innlendri neyslu. Útflutningsgreinar tryggja að íslenskt hagkerfi vaxi með sjálfbærum hætti, auka verðmætasköpun og bæta enn frekar lífskjör landsmanna. Einn milljarður á viku er himinhá fjárhæð. Þegar útgjöld hafa aukist um tugi milljarða á ári þá er skortur á fjármagni ekki vandinn heldur nýting þess. Það væri óskandi að talsmenn hagkvæmari nýtingar opinbers fjár og skattalækkana væru fleiri á Alþingi.

Höfundur er forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins. 

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is