*

miðvikudagur, 19. janúar 2022
Ásdís Auðunsdóttir
23. júlí 2021 09:03

Minninga­skógurinn

Átti atburður sér raunverulega stað ef hann var hvorki skrásettur né birtur á samfélagsmiðlum?

Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Tíminn er svo áberandi áþreifanlegur þessa dagana. Ekki bara vegna þess að maður skreið yfir þrítugt fyrir „stuttu" og einstaka hrukka gerir andlitið sífellt spekingslegra eða vegna þessa að börnin mín stækka á ógnarhraða fyrir augunum á mér (þrátt fyrir þrotlausar núvitundaræfingar).

Nei, ástæðan virðist helst vera einhvers konar myndræn tilveruhringrás sem hefur orðið til á samfélagsmiðlum undanfarinn áratug eða svo og minnir okkur allt að því árásargjarnt á gang tímans. 

Við hefjum hringferðina á hvers kyns útskriftarmyndum að vori. Færum okkur svo yfir í sumarmyndirnar þar sem við keppumst við að njóta á sem frumlegastan máta í sem bestu veðri. Markmiðið er auðvitað helst að vekja árlegan frammistöðukvíða hjá vinum og fjölskyldu, sem í laumi þrá ekkert frekar en að skammdegið hellist sem fyrst svo að hægt sé að halla sér aftur og slaka á. Dásamlegt aðgerðarleysið þrífst nefnilega svo miklu betur í rökkrinu.

Með haustinu taka við inspírerandi myndir af fólki og börnum að byrja í nýju námi eða líkamsrækt í bland við sæt börn í búningum og útskorin grasker. Í kjölfarið fylgja jólamyndirnar, áramótamyndirnar, skíðamyndirnar og svo fer að vora og búmm!, við erum mætt aftur í útilegumyndirnar. 

Ég er auðvitað ekki að segja að lífið sé einhvers konar óspennandi hringavitleysa, því fer fjarri. Hver dagur felur í sér ný tækifæri og áskoranir. Við virðumst hins vegar flest finna fyrir einhverri nýrri þrá til þess að skrásetja og deila tilveru okkar, þó að við vitum innst inni að flestum sé sama um útilegu í frábæru veðri í Húsafelli. 

Kannski er þetta eins og með trén í skóginum. Atburður sem hvorki er skrásettur né birtur á samfélagsmiðlum - átti hann sér raunverulega stað? 

Pistlahöfundur er verkefnastjóri hjá Deloitte.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.