Frá því í apríl 2007 og til aprílmánaðar 2011 hefur kaupmáttur Íslendinga dregist saman um tæplega 12%, samkvæmt Hagstofu Íslands. Íslendingar geta því keypt rúmlega tíund minna en þeir gerðu í apríl 2007, vegna hækkandi verðlags og ekki jafn hækkandi launa.

Það þarf reyndar enga Hagstofu til þess að segja landsmönnum að þeir hafa ekki jafn mikið milli handanna og þeir gerðu. Fjárhagslegt svigrúm eftir og utan vinnu er minna, hvort sem það er Hagstofan eða viðskiptabankinn sem upplýsir um það. Fyrrnefnda stofnunin getur þó varpað betra ljósi á hvers vegna sú síðarnefnda sendir gulan gluggapóst. Skýringa er, að minnsta kosti að hluta, að finna með samanburði á verðlagningu ýmissa vörutegunda og þjónustu. Samanburðartíminn hér er maí 2007 og maí 2011. Vörurnar voru valdar eftir hentugleika úr gagnasafni Hagstofunnar.

Cheerios
Cheerios
Hin klassíska blanda (kíló af) Cheerios og (lítri af) súrmjólk kostar í dag nærri 1200 krónur, í stað um 740 áður. Það er rúmlega 60% hærra verð. Eplið er 84% dýrara en það var í maí 2007 og appelsínan kostar um 75% meira. Kaffið hefur hækkað um 56%, innflutt kaffi reyndar meira en það „innlenda“. Tveggja lítra kókflaska kostar 260 krónur í dag, 100 kallinum dýrari en fyrir fjórum árum.

Viskí
Viskí
© None (None)
Sá sem leitar í sérstaka verslun ríkisins og ætlar að fá eitthvað sterkt út í kaffið eða kókið þarf að fórna mun meiru en árið 2007. Ferðin gæti leitt til guls gluggapósts – og öfugt. Flaska af alískensku brennivíni hefur hækkað um rúmlega 40%, rommið um nærri helming. Viskýið er 60% dýrara og Rosemount GTR hvítvínsflaskan sem eitt sinn kostaði 990 kostar nú 1899 krónur. Hálfur lítri af Víking bjór er 58% dýrari.

Áskrift að Morgunblaðinu hækkaði um 65% milli maímánaða 2007 og 2011. Helgarblað DV í lausasölu hefur hækkað um það sama. Sá sem lætur sig dreyma um afþreyingu, sem hann ætti raunar ekki að gera, þarf að greiða þúsundkalli meira fyrir leikhúsmiðann. Bíómiði og áskrift að stöð 2 hefur hvoru tveggja hækkað um þriðjung frá hinu goðsagnakennda ári 2007.

Þessi pistill er skrifaður í plássið Eftir vinnu á lífstílssíðu Viðskiptablaðsins. Niðurstaðan er sú að það er best að halda sig í vinnunni.

Pistillinn birtist í Viðskiptablaðinu 1. júní 2011.