Afkvæmum mínum þykir fráleitt að snjallsímar hafi ekki verið til í minni barnæsku. Töldu það raunar lygi af minni hálfu þegar ég reyndi að útskýra fyrir þeim hvernig tækninni hefur fleygt fram seinustu áratugina. Eins og tilvist iPhone væri einhvern veginn bara óumflýjanleg og sjálfsögð staðreynd lífsins.

Ég var sjálf næstum komin í menntaskóla þegar mér áskotnaðist tækniundrið Nokia 5110 til SMS sendinga og Snake spilunar og þykir því erfitt að skilja hvað börn, sem kunna varla margföldunartöfluna, hafa að gera með lófatölvur sem geta gert nánast hvað sem er. En ég ólst upp ,,í gamla daga” og er víst ómarktæk heimild um hugðarefni grunnskólabarna.

Dóttir mín benti mér síðar á, þegar ég kvartaði undan stærð þvottafjallsins á heimilinu, að ég þyrfti alls ekkert að þvo. Ég væri með vél sem sæi alveg um það fyrir mig og yfir hverju ég væri þá eiginlega að kvarta? Svona var þetta ekki í den, samkvæmt móður minni, því fólk átti einfaldlega ekki slíkt magn af fötum. Þar áður átti fólk auðvitað alls engar þvottavélar. En hún ólst upp ,,í eldgamla daga” og er því ómarktæk heimild um umkvörtunarefni nútímahúsmæðra.

Aðlögunarhæfni mannskepnunnar gerir það að verkum að hún er snögg að uppfæra væntingar sínar um það hvað teljist til sjálfsagðra þæginda. Það ætti því ekki að koma á óvart þó börn og húsmæður láti ábendingar um auðmýkt og þakklæti gagnvart fyrri kynslóðum sem vind um eyru þjóta. Okkur varðar lítið um líf fólks í fyrndinni. Það er hins vegar hollt að minna sig á, af og til, að öll nútímaþægindi eru auðvitað allt annað en sjálfsögð.