*

miðvikudagur, 12. maí 2021
Leiðari
9. janúar 2021 13:11

Misráðið samráð við ESB

Forgangsröðun vegna bólusetningar breytt vegna óvissu um það hvenær bóluefni berst hingað í nægilegu magni.

EPA

Þann 28. febrúar í fyrra greindist fyrsti einstaklingurinn með kórónuveiruna á Íslandi. Líklega gerðu fáir sér grein fyrir því á þeim tíma um hvurslags skaðvald var að ræða. Þegar fyrstu sóttvarnaaðgerðirnar urðu, með tilheyrandi fjöldatakmörkunum, grímuskyldu og tveggja metra reglu, stóðu landsmenn saman enda var viðhorfið almennt þannig að þetta gæti nú varla tekið lengri tíma en tvo til þrjá mánuði. Framhaldið þekkja allir. Nú, tíu mánuðum síðar, erum við í sömu stöðu, þ.e. sóttvarnaaðgerðir eru enn við lýði.

Veiran hefur haft gríðarleg áhrif. Hún hefur dregið hóp fólks til dauða og orðið þess valdandi að fjöldi hefur misst vinnuna og fyrirtæki orðið gjaldþrota. Skuldasöfnun ríkisins vegna aðgerða í tengslum við faraldurinn er gríðarleg. Gert er ráð fyrir 900 milljarða króna hallarekstri næstu fimm ár, þar af nam hallinn um 320 milljörðum króna í fyrra. Kreppan sem heimsfaraldurinn hefur valdið er sú dýpsta í áraraðir. Raunar erum við að upplifa mesta samdrátt í hagkerfinu í yfir 100 ár.

Um leið og fréttir bárust af útbreiðslu veirunnar hófu lyfjafyrirtæki að þróa bóluefni. Hefur mörgum þeirra tekist það nú þegar, sem er afrek útaf fyrir sig. Vakti þetta vonir í brjóstum margra enda er þessi faraldur dauðans alvara. Þrátt fyrir að fyrsti skammturinn hafi komið til landsins á milli jóla og nýárs þá hefur nú smám saman komið í ljós að ekki var nægilega vel staðið að samningum við lyfjafyrirtækin því nú ríkir óvissa um það hvenær næstu skammtar berast og í hversu miklum mæli. Þar með er fullkomlega óljóst í dag hvenær hér næst að byggja upp hjarðónæmi sem er forsenda þess að lífið færist í eðlilegar skorður.

Alls komu 10 þúsund skammtar til landsins 28. desember og fóru þeir í að bólusetja svokallaða framlínustarfsmenn í heilbrigðisþjónustunni, íbúa hjúkrunarheimila og þá sem dvelja á öldrunardeildum sjúkrahúsa. Á blaðamannfundi í gær sagði sóttvarnalæknir að næst í röðinni væri fólk sem er sjötíu ára og eldra. Þetta eru 34 þúsund manns en eins og staðan þá er von á 30 þúsund skömmtum á fyrsta ársfjórðungi. Þess ber að geta að samkvæmt reglugerð heilbrigðisráðherra um forgangsröðun bólusetninga þá eiga sjúkraflutningamenn og aðrir heilbrigðisstarfsmenn að vera á undan fólki sjötíu ára og eldra í röðinni. Þessu hefur sem sagt verið breytt og upplýsti sóttvarnalæknir að það væri vegna þess að ljóst væri að minna af bóluefni væri að berast til landsins en ráðgert hefði verið í upphafi. Þetta gengi hægar en menn hefðu haldið.

Það er sem sagt búið að breyta forgangsröðinni strax núna, einungis rúmri viku eftir að fyrsta sendingin barst. Í reglugerðinni er líka hvergi talað um fólk sem er sjötíu ára og eldra heldur er talað um hópinn sem er sextíu ára og eldri. Þessu hefur líka verið hnikað til. Þetta er áhyggjuefni og enn meira áhyggjuefni að fullkomin óvissa ríki um það hvenær hingað berast nægilega margir skammtar svo hægt sé að fara í almennar bólusetningar.

Ríkisstjórnin hefur lagt traust sitt á Evrópusambandið þegar kemur að kaupum á bóluefni. Eins og staðan blasir nú við virðist sem það hafi verið misráðið enda er mikil ólga víðsvegar í Evrópu vegna þess hvernig sambandið hefur haldið á sínum málum. Það er ágæt regla að leggja aldrei fullkomið traust á stofnanir. Svona almennt á frekar að líta þær gagnrýnum augum því þegar öllu er á botninn hvolft þá er kerfið oft ein manneskja sem situr á bak við tölvu og tekur misvitrar ákvarðanir. Í tilfelli Evrópusambandsins samanstendur kerfið greinilega af nokkrum misvitrum manneskjum sem á einhvern óskiljanlegan hátt hafa ekki gætt hagsmuna aðildarlandanna nægilega vel þegar kemur að bólusetningum vegna faraldursins skæða.

Eins og kemur fram í Viðskiptablaðinu í dag þá hafa Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir, Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, verið í sambandi við lyfjaframleiðandann Pfizer, í þeim tilgangi að kanna möguleikann á því að Ísland verði nýtt til svokallaðrar fjórða stigs rannsóknar á virkni bóluefnis félagsins. Heimildir Viðskiptablaðsins herma að tíðinda sé að vænta í þeim efnum, af eða á, á næstu dögum, þá mögulega strax á morgun. Vonandi tekst þessu ágæta fólki að bæta fyrir klúðrið hjá samningateymi ESB í Brussel.

Leiðarinn birtist í Viðskiptablaðinu fimmtudaginn 7. janúar.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.