*

laugardagur, 19. september 2020
Óðinn
3. apríl 2018 18:23

Misráðinn viðskiptahernaður Trumps

Bandaríkjaforseti er með viðskiptahalla á heilanum en raunverulegur viðskiptahalli við Kína er mun minni en tölurnar segja.

Donald Trump Bandaríkjaforseti.
epa

Donald Trump Bandaríkjaforseti tísti á dögunum þeirri skoðun sinni að verslunarstríð væru af hinu góða og að þau væri auðvelt að vinna. Trump sagði þetta í tilefni þess að hann hafði tilkynnt nýja tolla á stál og ál.

                              ***

Trump er ekki sanntrúaður hægrimaður og jafnvel ekki sanntrúaður Repúblikani. Hann reyndi vissulega að afnema heilbrigðistryggingakerfið sem kallað hefur verið Obamacare, en markmiðið virðist hafa verið að sverta ímynd forvera síns í embætti. Trump hafði lítinn áhuga á málefninu sjálfu. Það sama má segja um baráttu hans fyrir skattalækkunum, markmiðið þar var að ná fram „sigri” í þinginu, frekar en trú á ágæti skattalækkana.

                              ***

Raunverulegur eldmóður kemur aðeins fram í Trump þegar hann talar um landamæri Bandaríkjanna, hvort sem umræðan snýst um innflytjendur eða innflutning á vörum og þjónustu. Honum er fúlasta alvara þegar hann segist vilja reisa múr á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó og hann greip fyrsta mögulega tækifærið til að takmarka löglegan innflutning fólks.

                              ***

Reitti bandamenn til reiði

Það sama má segja um utanríkisverslun. Trump er með viðskiptahalla við útlönd á heilanum og vill ganga mjög langt til að draga úr honum. Maður hefði því haldið að hann hefði eitthvað kynnt sér hvernig utanríkisverslun gengur fyrir sig og hvaða lögmál gilda í þeim heimi. Svo virðist hins vegar ekki vera.

                              ***

Þegar hann kynnti ál- og stáltollana er líkt og hann hafi ekki gert sér grein fyrir því að stærstur hluti þess stáls, sem Bandaríkin flytja inn, kemur frá bandamönnum Bandaríkjanna. Tollayfirlýsingin fór mjög fyrir brjóstið á þessum sömu bandamönnum og þarf engan að undra. Trump-stjórnin þurfti því að setja í bakkgírinn og verður innflutningur frá Kanada, Mexíkó, Evrópusambandinu og fleiri bandamönnum undanþeginn tollunum.

                              ***

Afraksturinn fyrir Trump var því afar slakur. Honum tókst að reita bandamenn Bandaríkjanna til reiði og kom á tollagrindverki sem mun lítið gera til að verja iðnaðinn sem hann vildi vernda.

                              ***

Nú er komið að næsta kafla í tollasögu Trumps og skotmarkið annað. Nú á að skella tollum á innfluttar vörur frá Kína, en ekki er alveg ljóst ennþá hvaða innflutningsvörur verða fyrir barðinu á tollunum.

                              ***

Skilur ekki heimsverslunina

Með orfæri sínu hvað varðar Kína hefur Trump enn á ný afhjúpað það hversu illa hann er að sér um heimsverslun. Hann hefur ítrekað sagt að viðskiptahalli Bandaríkjanna við Kína sé um 500 milljarðar dala árlega. Hið rétta er að hallinn er um 375 milljarðar, en það er ekki stóra málið.

                              ***

Í fyrsta lagi er þessi háa tala að stórum hluta tölfræðileg tálsýn. Líta má á Kína sem stærstu samsetningarverksmiðju heims. Þangað koma íhlutir hvaðan æva að og eru settir saman í vörur sem svo eru fluttar út. Íhlutirnir eru margir framleiddir í Japan, Þýskalandi eða Suður-Kóreu og hönnun og hugvit kemur í mörgum tilvikum frá Bandaríkjunum sjálfum. Það sem Kínverjar gera í virðiskeðjunni er að setja hlutinn saman.

                              ***

Tökum iPhone síma sem dæmi. Árið 2013 kostaði það 178,96 dali að framleiða einn slíkan, en virðisaukinn frá Kína var aðeins 6,44 dalir, eða 3,6% af framleiðslukostnaðinum. Þrátt fyrir það segir á símanum að hann sé „framleiddur” í Kína. Það sem meira er um vert að þrátt fyrir að hlutur Kínverja sé aðeins 6,44 dalir þá leggjast allir 178,96 dalirnir Kínamegin í viðskiptahallajöfnunni. Raunverulegur viðskiptahalli við Kína er mun minni en tölurnar segja til um.

                              ***

Málið er nefnilega að um helmingur viðskiptahalla Bandaríkjanna við Kína er raunverulega viðskiptahalli við þau lönd sem framleiða íhluti í kínverskar framleiðsluvörur. Þetta þýðir að annars vegar hafa Bandaríkin ekki eins sterkt tak á Kínverjum og Trump virðist halda og hins vegar að verslunarstríð við Kína mun koma niður á ríkjum sem mörg eru nánir bandamenn Bandaríkjanna.

                              ***

Þá eru margar innflutningsvörur frá Kína aðeins hluti af lengri virðiskeðjum sem enda í Bandaríkjunum. Með því að hækka innflutningsverð á tölvum, tölvuíhlutum og öðrum tæknivörum mun framleiðslukostnaður margra bandarískra fyrirtækja hækka, svo ekki sé talað um áhrifin á bandaríska neytendur, sem munu þurfa að greiða hærra verð fyrir vörurnar.

                              ***
Betri leiðir færar

Að lokum þá er gefið að Kínverjar muni bregðast við með því að leggja tolla á bandarískar vörur. Fréttir herma að Kínverjar séu nú að undirbúa innflutningshömlur á bandarískar landbúnaðarvörur, til dæmis sojabaunir.

                              ***

Óðinn heldur því ekki fram að Kína sé eða hafi verið saklaus þátttakandi í heimsversluninni. Kína hefur arfaslakt orðspor þegar kemur að virðingu fyrir höfundarrétti svo dæmi sé tekið. Til að taka á því væri heppilegra fyrir Trump að reyna að fá önnur viðskiptaríki Kína með sér í lið til að þrýsta á Kínverja til að gera betur. Trump hefur hins vegar farið leið sem þvert á móti reitir þessa bandamenn Bandaríkjanna til reiði og gerir þá líklegri til að taka upp hanskann fyrir Kína.

                              ***

Frjáls viðskipti milli ríkja heimsins hafa skilað öllu mannkyninu ómældum ágóða. Hundruðum milljóna manna hefur verið lyft úr sárri fátækt og neytendur á Vesturlöndum hafa notið þess að sjá verð á algengum neysluvörum lækka mjög. Þá minnka líkur á vopnuðum átökum á milli ríkja eftir því sem þau bindast nánari efnahagslegum böndum.

                              ***

Trump hefur marga skyssuna gert á því rúma ári sem hann hefur vermt forsetasætið vestra, en þetta tollaævintýri hans gæti reynst sú hættulegasta af þeim öllum.

                              ***

Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks afrekaði það að afnema nær alla tolla og vörugjöld á nokkrum árum. Slík einhliða niðurfelling tolla er algert einsdæmi og gæti, þegar til lengri tíma er litið, reynst mikilvægasta afrek þeirrar ríkisstjórnar. Samanburðurinn við ævintýramennsku Trumps er Íslendingum mjög hagfelldur.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.