Fjármála- og efnahagsráðherra kynnti nýlega þrjá valkosti sína vegna stöðu ÍL-sjóðs. Sjóðurinn, sem er arftaki Íbúðalánasjóðs, er tæknilega gjaldþrota en bókfært eigið fé hans var neikvætt um 213 milljarða króna um mitt ár.

Óþarfi er að rekja þá sorgarsögu sem leiddi til þessarar stöðu.

Íslenska ríkið er í ábyrgð fyrir skuldum sjóðsins, eins og skuldum annarra ríkisstofnana, en þær voru bókfærðar á 876 milljarða króna um mitt ár og eru nánast eingöngu íbúðabréf, eða 853 milljarðar króna. Af máli ráðherra mátti skilja að fyrsti valkosturinn, sá að aðhafast ekkert, væri ekki valkostur í raun. Eftir standa tveir kostir, annars vegar að slíta sjóðnum með lagasetningu og hins vegar að semja við eigendur íbúðabréfa um uppgjör þeirra.

Hugmyndir um slit sjóðsins ganga út á að sett verði lög um að skuldir hans gjaldfalli við slitin og þar með takmarkist ábyrgð ríkisins á íbúðabréfum við greiðslu höfuðstóls og áfallinna verðbóta og vaxta, sem námu um mitt ár 709 milljörðum króna. Með því kæmi ríkið sér undan ábyrgð á frekari vaxtagreiðslum af bréfunum sem nema 144 milljörðum króna að bókfærðu virði hjá sjóðnum.

Tímasetning ráðherra

Vangaveltur hafa verið uppi um tímasetningu tillagna ráðherra og áherslu hans á að ljúka hugsanlegum samningum fyrir lok árs, í ljósi þess að slæm staða sjóðsins hefur verið þekkt um árabil. Ekki er útilokað að tímasetninguna og asann megi að hluta til skýra með því að ÍL-sjóður mun teljast til A-hluta ríkissjóðs í ríkisreikningi ársins 2022.

Sjóðurinn og forveri hans Íbúðalánasjóður hafa allt frá árinu 1999 talist til B-hluta. Álit Eurostat frá árinu 2020 er hins vegar að þeir hefðu ávallt átt að teljast ríkisstofnanir í A-hluta. Í ríkisreikningi 2022 verða skuldir ÍL-sjóðs því færðar sem skuldir ríkisins. Að frádreginni kröfu sjóðsins á ríkissjóð geta skuldir ríkisins að óbreyttu aukist um allt að 668 milljarða króna eða um 25% vegna þessa.

En aftur að hugmyndum um slit sjóðsins. Með þeim yrði miklum meirihluta af uppsöfnuðu tapi sjóðsins velt yfir á eigendur íbúðabréfa. Langstærstur hluti bréfanna, eða 80-90%, er í eigu íslenskra lífeyrissjóða. Fyrir lífeyrissjóði án bakábyrgðar opinberra aðila yrði afleiðingin sú að lífeyrisgreiðslur til sjóðfélaga yrðu lægri. Gróft áætlað yrði lækkunin í heild um 2% en mismikil eftir bæði sjóðum og aldri sjóðfélaga.

Vegna aðferða við tryggingafræðilega athugun yrði lækkunin meiri hjá yngri sjóðfélögum en eldri. Engin áhrif væru hins vegar á sjóðfélaga í lífeyrissjóðum með bakábyrgð opinberra aðila. Hugmyndin felur því í sér að færa byrðar vegna taps Íbúðalánasjóðs af ríkissjóði eða skattborgurum yfir á sjóðfélaga í almenna lífeyriskerfinu.


Vanefndir þjóðríkja

Slit ÍL-sjóðs með þeim hætti sem ráðherra kynnti gæti einnig talist vanefnd (e. default) íslenska ríkisins á skuldbindingum sínum, t.d. samkvæmt skilgreiningu BoC-BoE Sovereign Default Database. Vanefndir þjóðríkja á skuldbindingum í eigin mynt eru ekki eins fátíðar og ætla mætti og í gagnagrunninn eru skráð a.m.k. 32 tilvik frá árinu 1960. Algengt er að lagasetningu sé beitt í slíkum tilvikum eins og ráðherra hefur boðað.

Slíkar vanefndir eru hins vegar fátíðar meðal vestrænna velmegunarríkja og oftast neyðarráðstöfun vegna fjárhagserfiðleika eða annarrar slæmrar stöðu þjóðríkisins. Þótt staða ÍL-sjóðs sé alvarleg er engin augljós neyð uppi. Vanefnd þjóðríkis á skuldbindingum sínum getur haft ýmsar neikvæðar afleiðingar sem ekki verða raktar hér.

Við ráðherra erum sammála um að af valkostunum þremur er sá þriðji, samkomulag við eigendur íbúðabréfa, bestur. Við erum hins vegar ósammála um það hvort slit ÍL-sjóðs með gjaldfalli skulda sé raunverulegur valkostur. Samt kannski ekki.

Hugsanlega hefur ráðherra eingöngu sett þann valkost fram sem neikvæðan hvata til að draga eigendur íbúðabréfa að samningaborðinu. Hugsanlegir samningar verða þó að vera á þá leið að eigendur íbúðabréfa fái jafnverðmætar eignir í hendur. Að öðrum kosti á framansagt um skerðingu lífeyrisgreiðslna og vanefnd ríkissjóðs jafnt við um þennan valkost.

Hagsmunatengsl: Stjórnarmaður í Tryggingarsjóði vegna fjármálafyrirtækja sem á íbúðabréf.