*

miðvikudagur, 8. desember 2021
Leiðari
20. desember 2015 10:48

Misrétti leiðrétt

Útlit er fyrir að sá mikli munur sem er á lífeyrisréttindum í almenna og opinbera lífeyriskerfinu verði leiðréttur.

Haraldur Guðjónsson

Loksins virðist að því komið að leiðrétta það mikla óréttlæti sem viðgengist hefur í áratugi varðandi lífeyrisréttindi launafólks á Íslandi. Réttindi launafólks á almenna vinnumarkaðnum hafa lengi verið mun lakari en þeirra sem starfa hjá hinu opinbera, bæði hvað varðar fjárhæð útgreidds lífeyris og einnig hvað varðar vissuna um að lífeyrir verði ekki skertur.

Þegar fjárkreppan skall á landinu haustið 2008 þurftu allir stærstu lífeyrissjóðir landsins í almenna kerfinu að skerða lífeyrisréttindi sinna sjóðfélaga, enda ber þeim lagaskylda til að hafa jöfnuð milli eigna og lífeyrisskuldbindinga sinna. Lífeyrissjóðir opinberra starfsmanna skertu hins vegar ekki réttindi sinna sjóðfélaga um eina krónu, enda hafa þeir ekki heimild til slíks.

Þá hefur greiddur lífeyrir til launþega á almenna markaðnum verið um 56% af meðalmánaðartekjum þeirra yfir starfsævina á meðan þetta hlutfall er 76% hjá opinberum starfsmönnum. Ágætt er að hafa þetta óréttlæti í huga þegar launakrafna opinberra starfsmanna fyrr á árinu er minnst. Í Viðskiptablaðinu í dag er greint frá því að samtök launþega og atvinnurekenda hafa í raun náð samkomulagi um að rétta þennan mun. Hækka á iðgjöld sem greidd eru í almennu lífeyrissjóðina úr 12% í 15,5% og munu atvinnurekendur taka þessa hækkun á sig að langstærstum hluta. Taka mun langan tíma þar til þessi hækkun leiðir til raunverulegs lífeyrisjafnréttis, en þetta er stórt skref í rétta átt.

Eins hefur náðst samkomulag um að hækka lífeyrisaldurinn úr 67 árum í 70 ár, en sú breyting mun taka vel á þriðja áratuginn að taka fullt gildi. Þetta eru nauðsynlegar og réttlátar breytingar á lífeyrissjóðakerfinu og segir það afar margt um stöðu stjórnmálanna að þessum árangri hafa samtök á almenna vinnumarkaðnum náð sjálf, án aðkomu ríkisins – í raun þrátt fyrir afskipti ríkis og opinberra starfsmanna.

Algert grundvallaratriði í þessu öllu er svo að opinberir starfsmenn geri ekki þá kröfu að iðgjöld ríkis og sveitarfélaga verði hækkuð enn frekar svo þeir haldi forskoti sínu í lífeyrismálum. Gerist þeir svo frekir að fara fram með slíka kröfu er ótækt annað en að stjórnvöld standi í lappirnar og komi í veg fyrir að sú tilraun takist. Almennir lífeyrissjóðir sem byggja á sjóðsöfnun og ávöxtun hafa gert Ísland öfundsvert í alþjóðlegum samanburði, en nær hvergi annars staðar meðal þróaðra hagkerfa er lífeyrisbyrði hins opinbera minni en hér, vegna þess að launþegar og atvinnurekendur á almenna vinnumarkaðnum hafa sjálfir axlað þá ábyrgð að sjá fólki fyrir lífeyri í ellinni. Með því samkomulagi sem nánast virðist í höfn komið hafa þeir sýnt að þeir standa undir þessari ábyrgð.

Leiðari Viðskiptablaðsins birtist í blaðinu fimmtudaginn 17. desember.

Stikkorð: Leiðari Lífeyrismál
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.