Flest íslensk fyrirtæki í dag eru með vefsíðu. Á hefðbundinni íslenskri vefsíðu er hægt að nálgast helstu upplýsingar um staðsetningu, opnunartíma, símanúmer og í sumum tilfellum yfirlit yfir vöruframboð. Vefsíðan er með öðrum orðum stoðtæki við hina hefðbundnu steinsteyptu verslun þar sem fagfólk starfar og veitir allar upplýsingar um þær vörur sem fyrirtækið selur. Verð, lagerstöðu, kosti og galla. Vefsíðan er hugsuð sem enn eitt markaðstólið til að auka sýnileika verslunarinnar með það að markmiði að draga fólk á staðinn.

Það er að mörgu leyti ekkert skrítið að þetta sé staðan. Hegðun kaupenda undanfarna áratugi hefur verið sú að mæta á staðinn, sækja sér ráðgjöf og ganga síðan frá upplýstum kaupum á staðnum. Flestum þessara verslana er ennþá stýrt af kynslóðum sem ólust ekki upp með internetið beint í æð. Kynslóðum sem kjósa mannleg samskipti, augliti til auglitis , og eru helst með nafnspjöld verslunarstjórans í bólgnu veskinu.

Næsta kynslóð kaupenda er kennd við bókstafinn Z . Fólk fætt á árunum 1995 til 2005. Zeturnar taka við af aldamótakynslóðinni, fólki fæddu á árunum 1984 til 1994. Aldamótakynslóðin hefur á undanförnum árum ýtt fyrirtækjum út í að hugsa betur um hina stafrænu hlið viðskipta. Hún vildi, og vill enn, geta nálgast upplýsingar um vörur og fyrirtæki á vefsíðum þeirra en eru síðan líkleg til að mæta á staðinn og klára kaupin. Eða öfugt – byrja á að skoða vörur í verslunum og fara síðan á netið og finna hagstæðasta tilboðið. En hin nýja kynslóð Zetunnar er töluvert kröfuharðari og stærstur hluti íslenskra fyrirtækja fellur á prófinu þegar kemur að þjónustu við hana.

Þetta unga fólk elst upp við sítengda veröld og þekkir ekki heiminn fyrir öld internets og snjalltækja. Það eignast fyrsta snjallsímann sinn um tólf ára aldur og er nánast tvöfalt líklegra til að nota snjallsímann sinn til að kaupa vörur á netinu samanborið við aldamótakynslóðina á undan, sem þó þótti framsækin. Zeturnar treysta frekar á ráðleggingar frá vinum og áhrifavöldum en beinum auglýsingum fyrirtækja.

Íslensk fyrirtæki eru mörg hver að reyna að ná til þessara nýju markhópa. Á dögunum nýtti íslenskt fyrirtæki sér áhrifavald á samfélagsmiðlinum Instagram til að kynna ákveðna tegund parkets. Söluaðilinn var kirfilega merktur og auðvelt var að flytjast frá kynningunni á Instagram yfir á vefsíðu söluaðilans. En þar tók því miður bara við blindgata. Áhorfendum kynningarinnar var ekki vísað beint á nánari upplýsingar um þá vöru sem var verið að kynna – oft nefnt lendingarsíða – og leitarvél vefsíðunnar gaf engar niðurstöður þó heiti vörunnar væri slegið inn. Eftir að hafa fínkembt vöruflokka fyrirtækisins fannst þó varan að lokum en ekki reyndist mögulegt að kaupa hana, fá senda heim prufur eða afla sér nokkurra nánari upplýsinga umfram tveggja ljósmynda sem fylgdu vörusíðunni.

Ef þitt fyrirtæki ætlar að ná til næstu kynslóðar kaupenda þá er ekki nóg að stunda markaðsstarf sem kemur vörunni á framfæri heldur verður vefur fyrirtækisins að taka á móti viðskiptavininum á sama máta og söluráðgjafinn í versluninni tekur á móti eldri kynslóðum. Zeturnar vilja vita hvað er gott við þessa tegund af parketi, hvað annað er í boði og hvaða kosti þær vörur hafa umfram þá sem þær voru að skoða. Þær vilja aðstoð við að áætla það magn sem þarf til að parketleggja íbúðina og ráðgjöf um tengdar vörur s.s undirlag og parketlista . Síðan vilja Zeturnar leiðbeiningar á YouTube um hvernig á að leggja parketið eða tilvísanir á verktaka sem geta gert það fyrir þær. Allt þetta þarf hin nýja kynslóð að geta gert í gegnum snjallsímann sinn.

Vefsíður fyrirtækja mega ekki lengur vera ein stoð í markaðssetningunni heldur þurfa þær að vera sjálfstæð eining sem er fjárfest í af alvöru. Að öðrum kosti eiga fyrirtæki það á hættu að dragast aftur úr og tapa í samkeppninni við nýja kynslóð fyrirtækja sem skilur þarfir og væntingar nýrra kynslóða.

Höfundur er formaður Samtaka vefiðnaðarins ( SVEF ).