*

laugardagur, 15. maí 2021
Leiðari
30. apríl 2021 11:09

Misskipt kreppa

Kreppan er hjá einkageiranum, ekki hinu opinbera. Erlendir ferðamenn munu leika lykilhlutverk í viðspyrnu og endurheimt glataðra starfa.

Haraldur Guðjónsson

Kórónukreppan hefur sett mark sitt víða í íslensku efnahagslífi. Engum hefur dulist þær hremmingar sem ferðaþjónustan hefur gengið í gegnum og það högg sem íslenskt atvinnulíf hefur orðið fyrir. Atvinnuleysi er enn gríðarlega hátt - og þar leika um 14 þúsund glötuð störf á sviði ferðaþjónustunnar stórt hlutverk.

Efnahagslegar afleiðingar veirufaraldursins hafa þó verið æði misjafnar eftir því hvert er litið. Kreppu er til dæmis ekki að merkja á opinberum vinnumarkaði. Samkvæmt gögnum Hagstofunnar jókst meðalfjöldi starfandi hjá hinu opinbera um 5,1% á milli áranna 2019 og 2020 en á sama tíma dróst meðalfjöldi starfandi utan hins opinbera saman um 17,6%. Þessu til viðbótar leiddi hið opinbera launahækkanir á síðasta ári, en laun opinberra starfsmanna hækkuðu að meðaltali um 16,1% á milli janúarmánaða 2020 og 2021, eða um tvöfalt á við launahækkanir á almenna markaðnum á sama tímabili.

Ýmsir stjórnmálamenn hafa lagt það til að fjölga opinberum störfum til að mæta hinu mikla atvinnuleysi. Þrátt fyrir að slíkt myndi til skamms tíma bæta tölfræði um atvinnuleysi, leysir það ekki rót vandans. Launagreiðslur viðkomandi starfsmanna kæmu enn úr opinberum sjóðum líkt og atvinnuleysisbætur gera. Almenni markaðurinn, sem stendur undir þeirri verðmætasköpun sem fjármagnar þessa sömu opinberu sjóði, berst jafn mikið í bökkum þrátt fyrir slíka tilfærslu innan hins opinbera.

Stjórnvöld hafa staðið sig vel við að lágmarka skaða vegna faraldursins í íslensku efnahagslífi. Efnahagsaðgerðir hafa stutt við þá rekstraraðila sem sannarlega eru í kreppu, aðgerðir á borð við hærri atvinnuleysisbætur og lengra tekjutengingartímabil hafa hjálpað heimilum að þreyja þorrann í skugga atvinnumissis og örvunaraðgerðir og fjárfestingar munu blása byr í segl viðspyrnuskútunnar sem nú býr sig undir að leysa landfestar.

Þegar ein stærsta atvinnugrein landsins er í lamasessi er hátt atvinnuleysisstig óumflýjanlegt. Stjórnmálamenn og aðrir sem halda því fram að hátt atvinnuleysisstig nú sé vísbending um lélegan árangur stjórnvalda, líkt og þingmaður Pírata gerði til dæmis í grein fyrr í mánuðinum, annaðhvort skilja ekki vandamálið eða eru vísvitandi að afvegaleiða umræðuna í pólitískum tilgangi.

Sá mikli samdráttur í verðmætasköpun og fjölda starfa sem orðið hefur vegna þess að ein mikilvægasta atvinnugrein landsins liggur niðri verður ekki leiðréttur með fjölgun opinberra starfa. Hann verður ekki einu sinni leiðréttur með algerum tilslökunum innanlands. Jafnvel þótt hér hefði tekist að skapa „veirufrítt samfélag" án nokkurra takmarkana innanlands með því að skella landamærum í lás í upphafi faraldurs, hefði það litlu breytt í stóra samhenginu. Ferðaþjónustan væri enn í molum, atvinnuleysi væri enn gríðarlega hátt og mikill samdráttur í verðmætasköpun.

Það má vera morgunljóst að það mun varla sjá högg á vatni í þessum stærðum fyrr en hjól ferðaþjónustunnar taka að snúast af krafti á ný. Í því sambandi hefur uppfært hættumat á landamærum - sem nú tekur mið af framvindu bólusetningar og stjórnvöld kynntu í síðustu viku - ekki fengið verðskuldað hrós og raunar verið lítið rætt efnislega.

Í uppfærðu hættumati felast mikilvæg skref í tilslökunum á landamærum í takt við framvindu bólusetningar. Skref sem munu gera fjölda ferðamanna kleift að heimsækja Ísland á sama tíma og sú ógn sem stafar af veirunni heyrir sögunni til, enda mun þá stærstur hluti landsmanna hafa fengið að minnsta kosti fyrri skammt bóluefnis. Fyrirsjáanleikinn sem matið felur í sér er gríðarlega mikilvægur fyrir ferðaþjónustuna og þar með viðspyrnu efnahagslífsins.

Allt tal um tilslakanir á landamærum virðist aftur á móti vekja upp mikla úlfúð og neikvæðni í samfélaginu, að því er virðist óháð framvindu bólusetningar landsmanna. Samfélagið virðist vera fast í einhvers konar heljargreipum óttans gagnvart erlendum ferðamönnum. Miðað við framvindu bólusetningar er hræðslan hér um bil að verða ástæðulaus, en hún virðist ekki minnka.

Við skulum ekki gleyma því að það eru erlendu ferðamennirnir, hinir sömu og fólk bölsótast svo mjög yfir, sem munu glæða ferðaþjónustuna lífi á nýjan leik. Það eru þeir sem munu leika lykilhlutverk í því að endurheimta glötuð störf og vinna bug á atvinnuvandanum. Það eru þeir sem munu leika lykilhlutverk í því að rífa verðmætasköpun landsins upp á ný. Verðmætin sem þeir skapa munu að stórum hluta til renna í ríkiskassann, þann sama og greiðir laun opinberra starfsmanna.

Viðspyrna ferðaþjónustunnar og örvun atvinnulífsins eru lausnin á rót vandans og munu marka leiðina út úr kreppunni, ólíkt skapandi hugmyndum um tilfærslur bótaþega Vinnumálastofnunar yfir í kreppuathvarfið á launaskrá hins opinbera.

 

Hættumat á landamærum


Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.