*

þriðjudagur, 22. júní 2021
Huginn og muninn
10. júlí 2020 07:01

Misvísandi skilaboð formanns FFÍ

Formaður FFÍ var bjartsýnn á að kjarasamningur við Icelandair yrði samþykktur en félagsmenn kolfelldu samninginn. Hvað veldur?

Haraldur Guðjónsson

Félagsmenn Flugfreyjufélags Íslands felldu með afgerandi hætti nýjan kjarasamning við Icelandair og kusu tæplega 73% félagsmanna gegn honum. Þær fréttir komu hröfnunum þó ekki verulega á óvart, enda hafði verið hvíslað að þeim úr nokkrum áttum að óánægju gætti meðal flugfreyja með samninginn og ku óánægjan helst fólgin í ákvæðum um hvíldartíma.

Svona eftir á að hyggja vekur það þó athygli hrafnanna hve bjartsýn Guðlaug Líney Jóhannsdóttir, formaður FFÍ, var fyrir tæpum tveimur vikum á að félagsmenn myndu samþykkja samninginn. En eftir að greint var frá því í gær að samningurinn hefði verið kolfelldur hafði hún orð á því að „félagsmenn hafi með þessu sýnt að það sé kannski heldur of langt gengið í hagræðingarkröfum sem reynt hafi verið að ná fram í nýja samningnum".

Skjótt skipast veður í lofti og hrafnarnir velta því fyrir sér hvort samninganefnd FFÍ hafi þrátt fyrir langar samningaviðræður ekki verið nógu meðvituð um vilja félagsmanna sinna, eða hvort félagsmenn hafi, seint og síðar meir, fengið þá flugu í hausinn að staða flugfélagsins gefi tilefni til frekari krafna af þeirra hálfu.

Huginn og Muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Stikkorð: Icelandair kjarasamningur FFÍ
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.