*

sunnudagur, 20. júní 2021
Huginn og muninn
5. júní 2021 10:05

Móðgunargjörn stjórn

Miðstjórn ASÍ tók sér það hlutverk að móðgast fyrir hönd atvinnuleitenda í stað þess að taka umræðuna.

Haraldur Guðjónsson

Það hefur verið nóg að gera undanfarnar vikur hjá miðstjórn stærstu hagsmunasamtaka landsins, Alþýðusambands Íslands.

Fyrir rúmum tveimur vikum sendi miðstjórnin frá sér ályktun, þar sem flugfélagið Play var sakað um að fljúga á undirboðum launa og landsmenn hvattir til að sniðganga flugfélagið. Eins og Viðskiptablaðið hefur bent á standast útreikningar ASÍ á samanburði launa hjá Play og Icelandair ekki skoðun. Þegar atvinnuleysi er í hæstu hæðum hefðu hagsmunasamtökin frekar átt að fagna því að einhverjir væru til í að stofna fyrirtæki í ferðaþjónustu á þessum tímapunkti.

Í vikunni sendi miðstjórn ASÍ síðan frá sér aðra ályktun, þar sem hún tekur sér það hlutverk að móðgast fyrir hönd annarra. Ályktunin snýr að því sem sambandið kallar „meiðandi umræðu um atvinnuleitendur“ og er vísað í nýlegar fréttir þess efnis að fyrirtæki eigi erfitt með að ráða fólk í vinnu. Steingrímur Birgisson, forstjóri Bílaleigu Akureyrar, tjáði sig um þessi mál á Bylgjunni í vikunni og sagði ástandið algjörlega galið. „Það eru greinilega of margir þarna úti sem hafa ekki áhuga á vinnu og eru að mínu mati að misnota þau úrræði sem íslensk stjórnvöld bjóða upp á og í rauninni atvinnuleysistryggingasjóð,“ sagði Steingrímur.

Í ljósi atvinnuástandsins þá eiga fréttir af þessu fullkomlega rétt á sér og eru í raun mikilvægt innlegg í umræðuna. Það má líka benda miðstjórn ASÍ að þetta er ekki bara hugarburður hjá Steingrími. Í vikunni greindi nefnilega Vinnumálastofnun frá því að frá mars til loka maí hefðu 350 manns misst rétt til atvinnuleysisbóta fyrir að hafna vinnu.

Huginn og muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.   

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.