*

laugardagur, 29. janúar 2022
Örn Arnarson
3. maí 2021 07:34

Moðreykur og viðvarandi fjaðrafok

Transparancy International, veiran, myndskreytingar og laun hins opinbera eru fjölmiðlarýni ofarlega í huga þessa vikuna.

Áhugamenn um aukasetningar og greinarmerki gengu fram á hvalreka á dögunum. Þá birti Íslandsdeild Transparency International ályktun þar sem stjórnvöld eru hvött til þess að grípa inn í starfsemi útgerðarfélagsins Samherja. Í tilkynningunni segir:

„Fyrirtæki sem byggja starfsemi sína og fjárhag á nýtingu auðlindar sem þjóðin á og ríkið úthlutar þeim rétti til að nýta en neitar langflestum öðrum um þann nýtingarrétt, hljóta eðli máls samkvæmt að bera sérstaka samfélagslega ábyrgð. Axli þau ekki þá ábyrgð verða stjórnvöld, sem fara með vald fyrir hönd almennings, að grípa til ráðstafana sem duga til að koma í veg fyrir að arður sem verður til á grundvelli nýtingarréttar á auðlind, sem fólkið í landinu á, sé nýttur til að vega að og grafa undan tjáningarfrelsinu, fólki, fjölmiðlum og stofnunum sem gegna mikilvægu hlutverki við að verja hagsmuni almennings. Það er gert með því að veita þeim aðhald sem hafa mikil og margvísleg áhrif í samfélaginu í krafti auðs, áhrifa og aðgengis að takmörkuðum auðlindum í almannaeign.“ 

Fjölmiðlar greindu frá þessari ályktun en hún var send út í kjölfar viðtals við Ásgeir Jónsson seðlabankastjóra þar sem hann ræddi um kærur útgerðarfélagsins á hendur starfsmönnum bankans á sínum tíma. Það sem vekur athygli við ályktun þessara baráttusamtaka gegn spillingu er að þar eru þau að hvetja ríkisvaldið til þess að beita sér gegn ákveðnu fyrirtæki hvers framferði er stjórnarmönnum samtakanna ekki þóknanlegt. Nú ríkja lög og reglur í landinu og því er undarlegt að fjölmiðlar hafi ekki spurt þá sem stóðu að ályktuninni hvers vegna íslenska réttarríkinu sé ekki treystandi til þess að skera úr um vafamál – ef einhver eru – hvort viðkomandi fyrirtæki starfi eftir þeim? Er það baráttunni gegn spillingu til framdráttar að framkvæmdarvaldið taki fram fyrir hendur ákæruvalds og dómstóla í þessum efnum?

                                                              ***

Eitt af því sem Íslandsdeild samtakanna gagnrýnir Samherja fyrir er að halda áfram sjónarmiðum sínum í tengslum við fréttaflutning af deilum fyrirtækisins við Seðlabankann annars vegar og Ríkissjónvarpsins hins vegar. Í ályktuninni segir:

„Fyrirtækið hefur fjármagnað áróðursþætti til birtingar, fjármagnað bókaskrif í áróðurstilgangi og haldið úti fordæmalausu túlkunarstríði á sögunni.“

Eins og fyrr segir þá er ákaflega undarlegt að fjölmiðlamenn hafi ekki óskað eftir frekari útskýringum hjá stjórnarmönnum þessara baráttusamtaka gegn spillingu á þessari skoðun sinni: Er það virkilega afstaða Transparency International að forsvarsmenn fyrirtækja megi ekki nýta sér fjölmiðla- og tjáningarfrelsi sitt ef samtökunum þykir málstaðurinn vondur?

                                                              ***

Útspil Transparency International er vitaskuld tengt þessu viðvarandi fjaðrafoki sem samfélagsmiðlaarmur útgerðarfyrirtækisins Samherja stendur fyrir á Youtube. Í kjölfar birtingar nýjasta myndbands Samherja hafa fjölmargir stigið fram og fordæmt þann málatilbúnað. Þeim fordæmingum hefur verið gerð skil í fjölmiðlum. Að sama skapi hafa fjölmiðlar ekki sinnt því að útskýra hvað nákvæmlega Samherji hefur til sakar unnið í þessum efnum annað en það að framleiða og birta misheppnuð myndbönd.

Þarna fer ekki hljóð og mynd saman í bókstaflegri merkingu. Fjölmiðlar hafa flutt fréttir af heilagri vandlætingu dægurtónlistarmanna og þingmanna á meintri herferð Samherja gegn helstu frelsisblysum fjölmiðlafrelsis og lýsingum á meintu ægivaldi fyrirtækisins á samfélaginu í krafti auðs síns en geta hins vegar ekki um hvað kemur fram í sjálfu myndbandinu sem hefur vakið svo mikla hneykslun. Í stuttu máli er klögumál Samherja fyrir siðanefnd Ríkisútvarpsins rakið í myndbandinu ásamt því sjónarmiði stjórnenda félagsins að þeir beri ekki traust til fréttastofu RÚV til að fjalla um málefni Samherja með sanngjörnum hætti. Þöggunin er ekki meiri en sú að nánast allir hafa tjáð sig um málið og er það til marks um hversu lítið áhrifavald Samherja er á umræðuna. Fullyrðing um að myndbandabirtingar grafi með einhverjum hætti undan tjáningarfrelsinu standast enga skoðun og eru í besta falli kjánalegar.

Nú geta menn svo sem haft sína skoðun á málflutningi Samherjamanna og hversu líklegur hann sé til að skila tilætluðum árangri. Flestum má nú þegar vera ljóst að hann skilar litlum árangri. En það breytir ekki þeirri staðreynd að eigendur félagsins hafa fullan rétt á að koma sjónarmiðum sínum áleiðis og vera ósammála framsetningu og efnistökum einstakra fjölmiðla án þess að allt um koll keyri. Í þessu samhengi ættu þeir sem unna málfrelsi og skoðanafrelsi að hafa meiri áhyggjur af þeim stjórnmálamönnum og lýðskrumurum sem reyna að nýta sér þetta mál til að tortryggja andstæðinga sína en öðrum.

                                                              ***

Ríkisstjórnin boðaði til blaðamannafundar á þriðjudaginn í síðustu viku. Kastljós fjölmiðlanna beindist að breytingum á sóttvarnaaðgerðum á landamærum og þar af leiðandi voru þeir lengi að kveikja á stærstu frétt fundarins; að stefnt væri að afnámi sóttvarnaaðgerða vegna faraldursins þegar búið verður að bólusetja stóran hluta landsmanna í sumar.

Ljóst er að þetta markmið ríkisstjórnarinnar er raunhæft og því olli það töluverðum vonbrigðum að fjölmiðlar skuli ekki hafa gengið harðar að ráðamönnum eftir fundinn og leitað svara við spurningum um með hvaða hætti verður staðið að afnámi aðgerðanna. Eins og flestir vita þá kynnti sóttvarnalæknir litakóðunarkerfi vegna Covid í fyrra. Litakóðunarkerfið sækir innblástur sinn í lagið Krókinn með Sálinni hans Jóns míns og er því lægsta stig sóttvarnaaðgerða kennt við „nýja normið“ í stað þess gamla. Það felur meðal annars í sér að fjöldatakmarkanir miðast við hundrað manns og þar af leiðandi hefði verið gagnlegt að fá svör við spurningunni hvort miðað verði við „hið nýja norm“ þegar meirihluti landsmanna hefur verið bólusettur eða hvort frjálsræði fái að ríkja þegar kemur að mannamótum og hópamyndunum.

Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir fékk Þórólf Guðnason sóttvarnalækni til sín í Kastljósið kvöldið eftir blaðamannafundinn. Henni lék ekki forvitni á að fá svör við ofangreindum spurningum en þráspurði sóttvarnalækni með hálfgerðum hneykslistón um hvort að það væri ekki „djarft“ að stefna að afnámi sóttvarnaaðgerða. Má í þessu samhengi rifja upp möntruna sem þulin hefur verið á samfélagsmiðlum í hvert sinn sem einhver deilir frétt þar sem lýst er þeirri skoðun að stefna eigi að vægari sóttvarnaraðgerðum: Hagsmuni hverra er verið að ganga.

                                                              ***

Úr einu í annað: Fréttablaðið sagði frá því að launamunur yxi hröðum skrefum á Íslandi. Samkvæmt hagdeild Landsbankans hækkuðu laun opinberra starfsmanna um 16,1 prósent frá ársbyrjun 2020 og fram til loka mars á þessu ári. Laun ríkisstarfsmanna hækkuðu um 13,7 prósent á tímabilinu og hækkun launa starfsmanna sveitarfélaga hækkuðu um 18,7 prósent. Á meðan hækkuðu laun á almenna markaðnum um 8,5 prósent á sama tímabili. Það er því ljóst að hagur starfsmanna hjá ríki og sveitarfélögum hefur vænkast mikið frá því að faraldurinn braust út á meðan niðursveiflan bitnar að stærstum hluta á einkageiranum. Furðu sætir að fjölmiðlar hafi ekki leitað eftir viðbrögðum hjá verkalýðsforystunni, stjórnmálamönnum og atvinnulífinu vegna þessarar þróunar.

                                                              ***

Evrópusambandið stefnir að því að heimila ferðalög bólusettra bandarískra ferðamanna til aðildarríkjanna í sumar. Þetta staðfesti Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, í viðtali við New York Times sem birtist um síðustu helgi. Athygli vekur að íslenskir fjölmiðlar hafa ekki leitað viðbragða hjá þingmönnum á borð við Ingu Sæland og Helgu Völu Helgadóttir. Þær vöruðu við víðtækum fölsunum á bólusetningarvottorðum í Bandaríkjunum þegar stjórnvöld boðuðu að bólusettum ferðamönnum utan Schengen-svæðisins yrði heimilt að ferðast til landsins í sumar.

                                                              ***

Það styttist í kosningar og því fjölgar fréttum þar sem stjórnmálafræðingar deila djúpu innsæi sínu á þróun mála með hlustendum og lesendum. Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins á laugardaginn var sagt frá því að prófessor í stjórnmálafræði telji sterka stöðu Katrínar Jakobsdóttir forsætisráðherra í ánægjumælingum endurspegla sterka stöðu ríkisstjórnar hennar.

                                                              ***

Blaðamenn sem fjalla um efnahags- og viðskiptamál gerast oft sekir um hugmyndaskort þegar kemur að vali á myndefni með fréttum. Myndefnin sem verða fyrir valinu eru oftar en ekki einsleit – fólk í jakkafötum eða drögtum eða þá steinsteypukubbar. Umfjöllunarefnin standa ekki í vegi fyrir meiri hugmyndaauðgi í þessum efnum eins og fjölmörg dæmi úr erlendum fjölmiðlum sýna. Sú tilhneiging að birta andlitsmynd af Magnúsi Harðarsyni, forstjóra Kauphallar Íslands, með fréttum af þróun úrvalsvísitölunnar er sérstaklega kjánaleg. Er það myndval sambærilegt við að ef íþróttamenn myndu alla jafna birta andlitsmynd af Birki Sveinssyni, mótsstjóra Knattspyrnusambands Íslands, með fréttum af úrslitum knattspyrnuleikja hér á landi.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.