*

mánudagur, 13. júlí 2020
Leiðari
8. júní 2017 13:34

Mörk og mótvægi

Við blasir að enginn friður verður um dómaraskipan og það er óþolandi. Þess vegna þarf að taka upp aðra aðferð.

Haraldur Guðjónsson

Dómaraskipan í hinn nýja Landsrétt hefur verið ákaflega mikið til umræðu að undanförnu, eins og rétt og sjálfsagt er, þegar komið er á nýju dómstigi í landi og fjöldi dómara skipaður í einu. Hér er um að ræða meiri háttar stjórnskipunarmál, sem þarf að hljóta rækilega umfjöllun á vettvangi þjóðmálaumræðu. Það ætti ávallt við, en enn frekar nú í kjölfar bankahrunsins, þar sem vanmáttur dómskerfisins kom ekki síður við sögu en aðrar helstu stofnanir þjóðfélagsins.

Það verður þó seint sagt að umræðan hafi reynst vönduð eða gagnleg. Þar bar meira á hávaða og hugaræsingu, þar sem hinn undirliggjandi þráður var fremur hverjum hlotnuðust hnossin en hvað réttarríkinu og réttlætinu kæmi best. Frænka þessa og skjólstæðingur hins, skólabróðir og skoðanasystkin. Eins og stundum gerist á Íslandi. Gæti eitthvað slíkt hafa hent ráðherrann? Jú, það er auðvitað ekki ómögulegt, ekki frekar en hjá hæfisnefndinni eða stjórnarandstöðunni. En stjórnarandstaðan gat þá, átti raunar, að taka það upp í þinginu um hvern og einn, sem hún vildi gera athugasemdir við. Sem henni láðist af einhverjum ástæðum.

Engin leið er að fullyrða hver hefur réttast fyrir sér um ágæti dómaraefnanna, en burtséð frá því hafði ráðherrann samt sem áður fyllstu ástæðu til þess að fara ekki að fyrirmælum hæfnisnefndarinnar. Ekki af því að hún hafi gert tillögu um ómögulegt fólk, heldur af því að hún reyndi að taka skipunarvaldið til sjálfrar sín.

Í þessum efnum er ekki hægt að horfa hjá forsögunni, að á landinu hefur verið mikil togstreita um dómaraskipan í um tvo áratugi, þar sem dómsvaldið eða ráðandi öfl innan þess, vilja ráða því hverjir veljist til dómstarfa, en framkvæmdarvaldinu hefur af ýmsum ástæðum borið gæfa til þess að þybbast við.

Fyrir því er þó ein framúrskarandi ástæða, sem á að trompa allt annað: Það er ótækt að dómarar dæmi í eigin sök og það er fráleitt að þeir velji sér samstarfsmenn. Í lýðræðisríki er nauðsynlegt að greinar ríkisvaldsins veiti hver annarri aðhald, þar þurfa að vera mörk og mótvægi.

Þar fyrir utan er sjálf aðferðin röng. Dómaraembætti eru einstök í eðli sínu og þar skiptir fleira máli í fari einstaklinga, sem til þeirra starfa veljast, en slá má máli á. Það er sjálfsagt að horfa til menntunar, starfsreynslu og þar fram eftir götum, en það er fjarstæðukennt að finna megi altæka reiknireglu til finna út hver sé hæfastur til þess að verða dómari. Jafnvel þó svo að menn horfðu til þeirra þátta einna. En það kemur fleira og ómælanlegra til svo sem dugnaður, siðferði, viðskiptasaga og ótal annað af því tagi, sem er fullkomlega matskennt en skiptir samt miklu, jafnvel öllu máli. Það er vonlaust að reikna slíkt út, en samt eiga menn auðvelt með að átta sig á slíku, hver hjá öðrum.

Við blasir að enginn friður verður um dómaraskipan við svo búið, hvorki þessa né aðra og það er óþolandi. Nógur er ófriðurinn samt. Þess vegna þarf að taka upp aðra og betri aðferð. Þar skiptir máli að þessi embætti eru ekki eins og hvert annað starf, sem menn sækja bara um með haganlega fóðruðu CV og meðmælendur úr klíkunni. Nei, það er mun nær að ráðherra geri tillögu um dómara á sína ábyrgð og án umsókna, en að viðhöfðu samráði við hæfnisnefnd, sem vinsar úr þessa óhæfu. Tillöguna yrði ráðherrann svo að bera undir Alþingi og fá hana samþykkta með auknum meirihluta. Þannig væru mörk greina ríkisvaldsins skýr og þær væru hver annarri mótvægi, eins og vera ber.

Þessi leiðari birtist í Viðskiptablaðinu 8. júní 2017. 

Stikkorð: dómarar Landsréttur leiðari skipan dómaraval
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.