*

fimmtudagur, 6. ágúst 2020
Andrés Magnússon
18. nóvember 2017 13:43

Moskvuagentar

Spyrja má hver tilgangur Ríkisútvarpsins sé ef það er ekki hlutlaust þegar það er beinlínis forsenda stofnunarinnar.

Bandaríska mannréttindastofan Freedom House birti á þriðjudag nýja rannsókn á netfrelsi og þar kom margt einkar athugavert fram. Talsvert er þar fjallað um hvernig Kremlarbændur hafi reynt að hafa áhrif á fjölmiðla, þjóðmálaumræðu og jafnvel lýðræðið sjálft í ýmsum löndum. Um það hefur auðvitað þegar ýmislegt komið fram og töluvert verið fjallað.

Meiri tíðindum sætti þó sennilegast að Rússar eru alls ekki einir um hituna að þessu leyti. Samkvæmt skýrslu Freedom House stunda a.m.k. 30 ríkisstjórnir hér og þar um heiminn þá iðju að koma röngum og villandi upplýsingum á framfæri á netinu, með ýmsum hætti og í ýmsu skyni. Þar á meðal eru lönd á borð við Tyrkland, Venezúela og Filippseyjar, sem starfrækja sérstakar upplýsingafabrikkur, beinlínis til þess að villa um fyrir fólki, fegra eigin málstað, fela sannleikann og búa í haginn með margs konar hætti.

Samkvæmt Freedom House hafa aðgerðir af þessu tagi haft áhrif á og jafnvel spillt kosningum í 18 öðrum löndum. Um það voru nefnd ýmis dæmi, en þar horfa menn sérstaklega til forsetakosninganna í Bandaríkjunum, þar sem alls konar nettröll létu til sín taka um deiluefni á borð við innflytjendamál, hinseginmál, byssueign og ámóta. Óhætt er að segja að þau afskipti hafi ekki verið til þess fallin að lægja öldur í opinberri umræðu vestra. Eða leiða sannleikann í ljós.

Í þessu skyni var notast bæði við mennskar málpípur og hugbúnað, bæði til þess að dreifa áróðri, eyða gagnrýni og sá fræjum efasemda um bæði menn og málefni. Freedom House tiltekur Rússland og Kína sem sérstaka frumkvöðla á þessu sviði, sem beri höfuð og herðar yfir önnur ríki, en þeim fjölgi því miður sífellt. Jafnframt nefnir Freedom House bæði dæmi og tölfræði um það hvernig starfsumhverfi blaðamanna verði sífellt erfiðara vegna forvirkra áróðursaðgerða stjórnvalda, sem í sumum tilvikum feli í sér ofbeldi og jafnvel morð.

                                ***

Þessi sorgarsaga snýr þó ekki aðeins að fjandsamlegum ríkisstjórnum. Freedom House varar við því að sumar velmeinandi aðgerðir ríkisstjórnar gagnvart fölskum fréttum á Facebook og öðrum félagsmiðlum geti heft tjáningarfrelsið og eigið það flestar sameiginlegt að ekki sé unnt að áfrýja slíkum ákvörðunum til dómsstóla, sem bjóði hættunni heim.

Freedom House játar að það hafi engar töfralausnir á takteinum, hér ræði um afar erfitt vandamál, sem erfitt sé að uppræta og ekki síður erfitt að fást við með hefðbundnum leikreglum lýð- ræðisins. Þeim þurfi þó ávallt að beita. Það er umhugsunarefni hér á landi sem annars staðar.

                                ***

Þetta með leikreglur lýðræðisins rifjar upp málefni fréttastofu Ríkisútvarpsins hvað varðar fréttaflutning í aðdraganda kosninga.

Um það var lítillega fjallað hér um daginn, en skýrsla fjölmiðlanefndar þar að lútandi er afskaplega gefandi gagn um þau efni. Eiginlega alveg hrollvekjandi.

Þannig er t.d. mjög fróðlegt að líta til samanburðar á fréttaflutningi Ríkisútvarpsins fyrir kosningarnar 2013 og 2016. Creditinfo, sem annaðist rannsóknina fyrir fjölmiðlanefnd taldi þannig fréttir og greindi þær eftir flokkum og fleiru. Eins og hér var nefnt um daginn var þannig mjög misjafnlega jákvætt sagt frá einstökum flokkum. Mikið af fréttunum voru vissulega hvorki né, en þegar greint var eftir því hvort fréttirnar töldust jákvæðar eða neikvæðar kom á daginn að flokkarnir nutu mjög misjafnrar forgjafar hjá fréttamönnum RÚV í kosningunum í fyrra.

Það er þó frekar þegar maður ber það saman við fréttaflutninginn 2013 sem hneykslið kemur í ljós. Lesendum er sjálfsagt í fersku minni hvernig ástandið var í pólitíkinni þá daga, ríkisstjórnin mjög þorrin kröftum og stuðningi, jafnt innan þings sem utan og stjórnmálaflokkarnir sem að henni stóðu guldu afhroð.

Þess sá hins vegar ekki stað í fréttaflutningi Ríkisútvarpsins, sem var bara alveg sérstaklega jákvæður um þessa sömu flokka! Og bara ástandið allt.

23% frétta úr pólitíkinni þá töldust vera jákvæðar, en aðeins 9% í fyrra. Þess ber að geta að það voru ekki einvörðungu ríkisstjórnarflokkarnir, sem fengu um sig jákvæðar fréttir, en þrátt fyrir að glíma við stjórnarkreppu, erfitt efnahagsástand og alls kyns vandræði önnur, þá fengu þeir alveg fjórðung frétta um sig jákvæðan en aðeins 7,5% neikvæðan. Það er nú bara nokkuð vel af sér vikið.

Nú geta menn rifist fyrir hönd síns flokks eða hins, reynt að metast um það hver sé bestur og eigi skilið bestar fréttir. Góða skemmtun við það. En það á ekki við um Ríkisútvarpið, sem hefur ekki aðeins ríkar hlutleysisskyldur að lögum, heldur er það beinlínis forsenda Ríkisútvarpsins að það sé hlutlaust. Ekki bara soldið hlutlaust, eða tiltölulega hlutlaust. Bara hlutlaust. Og þetta er ekki hlutleysi.

Til hvers er það þá?

                                ***

Hér var í liðinni viku minnst á óforvitni fjölmiðlamanna um það hvaða 12 kollegar þeirra hefðu verið boðaðir í viðtal hjá héraðssaksóknara, vegna brota á bankaleynd hjá hinum lifandi dauða Glitnisbanka.

Sú óforvitni er auðvitað ekkert hjá því ótrúlega framtaksleysi fjölmiðla vegna frétta af Wikileaks, að leita ekki viðtals við Kristinn Hrafnsson eða Birgittu Jónsdóttur. Þau hafa bæði tjáð sig um eitt og annað af minna tilefni, en núna kom ekki einu sinni að þau hefðu beðist undan viðtali.

Það snýst ekki aðeins um Kristinn og Birgittu sem slík, heldur einnig ýmsa íslenska miðla, sem hafa verið í samstarfi við Wikileaks, birt frá þeim fréttir í góðri trú o.s.frv.

Hafa þeir hugsanlega treyst Wikileaks um of? Mögulega birt frá þeim einhvern áróður eða ótraustar upplýsingar í góðri trú? Vafalaust á meira eftir að koma á daginn um Wikileaks og Julian Assange í því samhengi og geta þá fleiri reynst smurðir Moskvuagentar en maður hugði!

                                ***

Fyrrgreind óforvitni er nánast eins slöpp eins og hjá Vísi í vikunni, sem sagði fréttina „Hneyksli skekur skraflheiminn“ án þess að leita viðbragða hjá Vilhjálmi Þorsteinssyni, Íslandsmeistara í skrafli.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.