*

miðvikudagur, 20. október 2021
Huginn og muninn
9. febrúar 2020 08:02

Á móti straumnum

Stofnandi Sósíalistaflokks Íslands virðist telja að verðbólga sé alls ekki svo slæm.

Gunnar Smári Egilsson.
Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Á dögunum minntust menn þess að 30 ár eru liðin síðan Þjóðarsáttarsamningarnir voru undirritaðir. Fyrir utan örfáa eru flestir þeirrar skoðunar að þessir samningar hafi verið mikið gæfuspor fyrir þjóðina og markað ákveðin þáttaskil.

Með samningunum tókust menn í hendur um að róa öllum árum að því að auka hér kaupmátt eftir verðbólgubálið á níunda og raunar líka áttunda áratugnum. Óðaverðbólgan náði hámarki árið 1983 þegar verðbólga mældist 84% á milli ára. Á þessum tíma voru allir í kapphlaupi við verðbólguna, bæði fólk og fyrirtæki. Verðtryggð lán hækkuðu upp úr öllu valdi og greiðslubyrðin auðvitað líka. Í stuttu máli hafa Þjóðarsáttarsamningarnir skilað okkur meiri stöðugleika og auknum kaupmætti. Eins og fyrr sagði þá eru til menn sem finna þessum samningum allt til foráttu, einn þeirra er Gunnar Smári Egilsson.

Gunnar Smári er fyrrverandi forstjóri fjölmiðlasamsteypu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og eigandi Fréttatímans, sem eins og margir muna varð gjaldþrota vorið 2017. Á þessum tíma þurfti starfsfólk blaðsins að leita á náðir Ábyrgðarsjóðs launa til að eiga fyrir salti í grautinn og nú, skömmu fyrir áramót, var greint frá því að tæpar 3 milljónir hefðu fengist upp í tæplega 300 milljóna króna kröfur í búið. En þetta er útúrdúr.

Á Fréttatímaárunum tók Gunnar Smári upp sósíalistatrú og fyrir ekki svo löngu stofnaði hann Sósíalistaflokkinn. Hrafnarnir hafa lúmskt gaman af Gunnari Smára, sem í tilefni af 30 ára afmæli Þjóðarsáttarsamninganna skrifaði: „Þjóðarsáttarsamningarnir eiga afmæli. Þar samdi verkalýðshreyfingin um að launafólk greiddi niður verðbólgu með umtalsverðri kjaraskerðingu mörg ár næstu árin. Grunnur samninganna var nýfrjálshyggjukenningar um jafnvægi í hagkerfinu og að verðbólga væri slíkur ógnvaldur verkafólks að það ætti að gefa frá sér kauphækkanir til að kveða hana niður. “ Hrafnarnir benda Gunnari Smára á að frá 1990 hefur kaupmáttur launa almennt aukist um 85% og kaupmáttaraukning lágmarkslauna um 150%. 

Huginn og muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.   

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.