Nú er vor í lofti og margir eflaust fegnir eftir langan og dimman vetur, að minnsta kosti í höfuðborginni. Sumarfríið er komið á dagskrá með tilheyrandi ferðalögum, útskriftarveislum, fótboltamótum og brúðkaupum.

Það er hægt að gera meira en að búa um stund í tjaldi, fellihýsi eða sumarbústað á íslensku sumri á meðan veður leyfir. Íslendingar nýta hið stutta sumar til margra gleðilegra hátíðarhalda, svo sem 17. júní, Hinsegin daga og bæjarhátíðir.

Hugmyndaflug Íslendinga lætur þar ekki staðar numið. Hvað er líka hægt að gera á meðan þingmenn eru í sumarleyfum, atvinnulífið í hægagangi og gúrkutíð hjá fjölmiðlum, blaðamenn sársvangir eftir einhverju til að skrifa og fjalla um? Jú, boða til mótmæla! En það hefur einn verkalýðsforinginn gert og hvatt öll til að mæta „sem hafa fengið nóg af einhverju sem betur má fara í okkar samfélagi”. Það er auðvitað hin prýðilegasta hugmynd. Mótmæli sameina alla þræði sumarvertíðarinnar: Útivist, hópefli, gönguferðir og auðvitað það að fá útrás af einhverju tagi.

Ég ætla að mótmæla því hversu hátt fuglarnir syngja klukkan 5 á morgnanna ...

Tímasetning mótmælanna er auðvitað ekki tilviljun, á sama tíma fer hér fram leiðtogafundur Evrópuráðsins og tilgangurinn að reyna að komast í heimspressuna og mála þá mynd að hér sé ekki gott að vera. Það er áhugavert í ljósi þess að það skaðar fyrst og fremst hagsmuni félagsmanna þess sem stendur fyrir mótmælunum að sverta ímynd Íslands á sviði viðskipta og ferðaþjónustu.

Staðreyndin er sú við búum á einum besta stað í heiminum samkvæmt öllum mælikvörðum um hagsæld og velferð. Hér er jöfnuður, jafnrétti, hátt menntunarstig og atvinnuþátttaka. Ég ætla að mótmæla því hversu hátt fuglarnir syngja klukkan 5 á morgnanna, vaxandi bákni, að Þróttur sé ekki í Bestu deild karla í fótbolta og að Ragnar Þór sé enn formaður VR.

Pistillinn birtist í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins sem kom út á fimmtudaginn, 11. maí.