*

laugardagur, 6. júní 2020
Huginn og muninn
10. maí 2020 17:02

Mótmæli gegn kórónuveirunni?

Formaður VR er í baráttuhug og hótar nýrri búsáhaldabyltingu.

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR.
Haraldur Guðjónsson

„Ef stjórnvöld vilja aðra búsáhaldarbyltingu þá verður hún með þátttöku verkalýðshreyfingarinnar sem baklands. Það mun ekki standa á okkur,“ skrifar Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, í bréfi sem sent var til félagsmanna á baráttudegi verkalýðsins, 1. maí. Hrafnarnir eru því miður ekki sérlega undrandi á þessari yfirlýsingu.

Munurinn á kreppunni 2008 og efnahagshamförunum sem nú ganga yfir vegna heimsfaraldursins er æpandi. Í mjög stuttu og einföldu máli þá voru ástæður bankahrunsins lausafjárskortur íslensku bankanna, sem olli því að þeir hrundu en hægt að færa sterk rök fyrir því að kreppan hafi verið innflutt, því fall Lehman Brothers hafði gríðarleg áhrif á heimshagkerfið. Aftur, og í mjög grófum dráttum, þá lýsti þetta sér þannig á Íslandi að þjóðin skuldaði fé í erlendri mynt en vann sér inn krónur. Almenningur horfði á erlendu lánin hækka og verðbólguna fara úr böndunum. Þá upphófust einnig milliríkjadeilur við Breta og Hollendinga vegna Icesave. Það var ekki við neitt ráðið. Fólk mætti niður á Austurvöll að mótmæla því það taldi sig geta bent á ákveðna sökudólga. Það var ósátt við fjármálakerfið og hagstjórnina.

Sem betur fer er staðan allt önnur í dag. Verðbólgunni hefur verið haldið í skefjum og nánast engin erlend lán, nema jú hjá sumum fyrirtækjum. Hverju ætla Ragnar Þór og félagar hans þá að mótmæla núna? Kórónuveirunni?

Ragnar Þór leggur til að farið verði í ákveðnar aðgerðir. Því miður þá urðu Hrafnarnir mjög undrandi við að lesa sumar þeirra. Fyrst skal nefna að hann vill að „öllum markmiðum Lífskjarasamningsins verði náð fyrir haustið“. Þá væri ágætt ef verkalýðshreyfingin myndi semja á þeim nótum en nú stendur einmitt yfir verkfall Eflingar, þar sem Lífskjarasamningnum hefur verið hafnað.

Ragnar Þór vill að Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri og félagar hans í bankanum, reyni að halda genginu stöðugu „með gjaldeyrisforða eða höftum“. Það tók þjóðina nánast áratug að losna úr höftum og nú vill verkalýðsforystan ný höft.

Þá vill Ragnar Þór að vísitala neysluverðs verði fryst. Afhverju í ósköpunum á að frysta vísitölu neysluverðs þegar verðbólgan er innan verðbólgumarkmiðs Seðlabankans og ekkert sem bendir sérstaklega til þess að hún muni fara af stað? Inngrip af þessu tagi eru engan veginn tímabær núna.

Áfram um tillögur Ragnars Þórs. Hann vill að „allur stuðningur hins opinbera við fyrirtæki verði þeim kvöðum háð að þau vinni ekki gegn samfélagslegum gildum og hagsmunum almennings“. Hvaða samfélagslegu gildum og hver ætlar að skilgreina þau og hagsmuni almennings og velja síðan fyrirtækin sem fá fyrirgreiðslu? Ætli þetta gæti mögulega skapað ósætti og jafnvel ratað fyrir dómstóla landsins? Að lokum þá vill formaðurinn að starfsmönnum fyrirtækja verði boðið að taka þau yfir fari þau í þrot. Hrafnarnir benda á að þetta stendur starfsmönnum, eins og fjárfestum, reyndar oft til boða.

Huginn og muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.   

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.