*

fimmtudagur, 24. september 2020
Týr
4. janúar 2020 10:02

Múgræðið

Markmið pópúlistanna er ávallt hið sama: Að æsa múginn til þess að snúast á sveif með sér en múgræði er ekki lýðræði.

Aðsend mynd

Liðið ár var um fæst verulega sögulegt, sem í ljósi hátinda Íslandssögunnar er kannski þakkarvert. En það stóðu nokkrir atburðir eða uppákomur upp úr í þjóðmálaumræðunni, sem vert er að gefa gaum, þó kannski sé hitt ekki síður athyglisvert hvernig alls konar smámál áttu greiða leið upp á pallborð landsmanna með tilheyrandi æsingi og óðagoti, hneykslan og heift. Nánast svo að tala má um uppnám vikunnar.

Hið merkilega er að dágóður hluti þjóðarinnar virðist fíkinn í uppnám af þessu tagi. Því verra, því betra, eins og skáldið Dagur heitinn Sigurðarsson orðaði það svo vel. Og helst þannig að finna megi skúrk vikunnar, sem var þá hrakyrtur og fordæmdur í nafni alls þess sem gott er, helst brennimerktur og útskúfaður.

Mögulega má rekja þetta til fámennis og fásinnis, að fólk þyrsti í fréttir sem tilfinningaklám og geri sér hvaðeina að góðu til þess að fá sitt vikulega fix. Hafi á því stórar skoðanir og stærri orð, líkt og hamingja og heill þess og þjóðarinnar sé í húfi. Umfram allt gefur það því þó tækifæri til þess að móralisera yfir hinum bersyndugu og leyfa öðrum að draga ályktanir um dyggð og göfgi umvandarans.

                                                             ***

Ekki leikur vafi á því að samfélagsmiðlarnir eiga þar stóran hlut að máli. Þar getur hver sem er haft sig í frammi og uppskorið læk og frekari deilingu sér til upphafningar. Þar hljóta gífuryrðin jafnan meiri athygli en fínlegar hugleiðingar. Það er áberandi á Íslandi, bæði vegna fámennisins og návígisins, ótrúlegrar útbreiðslu Facebook meðal eyjarskeggja og síðan eru fjölmiðlar í litla landinu, þar sem lítið gerist, nánast háðir Facebook um fréttir eða fréttalíki.

Svo breytti Hrunið auðvitað öllu, sérstaklega í opinberri umræðu, en haustið 2008 losnaði um allar hömlur á því sem fólk sagði upphátt um annað, birti á félagsmiðlum eða hrópaði úr ræðustól á Austurvelli. Þó að það hafi skjótt bráð af flestu fólki, þá breyttist umræðuhefðin varanlega. Ekki svo að skilja að annar hver maður hafi uppi svívirðu í opinberri umræðu - þorri fólks gerir það ekki - en í örvilnan Hrunsins urðu menn umburðarlyndir gagnvart ofstopa í orðum, fannst hann skiljanlegur undir þeim kringumstæðum.

Vandinn er sá að það öfugsnúna umburðarlyndi er enn til staðar, þau nýju viðmið eru enn í gildi. Fólk hefur hugsanlega skömm á slíkju orðbragði og ofsa, en það andæfir ekki. Að hluta til af rökstuddum ótta við að vera stillt upp með þeim, sem ókvæðisorðin beindust að, og mega þá þola sömu fordæmingu.

Enn eina skýringu má til nefna, sem er hreint ekki bundin við Ísland eitt, en það er uppgangur pópúlismans. Búsáhaldabyltingin var vitaskuld eins pópúlísk hreyf­ing og hugsast getur, líkt og flestöll ræðuhöld á Austurvelli báru með sér, en nú sitja á Alþingi 3-4 pópúlísk framboð: Píratar, Miðflokkurinn, Flokkur fólksins og stundum Samfylkingin. Ekki er að efa að hin pópúlíska tilhneiging hefur breytt umræðunni á félagsmiðlum, þar sem geðshræring trompar rök, liðsskipting manngildið og skefjaleysi alla hófsemd. Svo er auðvitað mikið vafamál að pópúlisminn hefði náð þessu flugi án tilkomu samfélagsmiðlanna.

                                                             ***

Namibíumál Samherja kölluðu skiljanlega fram mikla hneykslun, enda varð af gögnum málsins ekki annað skilið en að þar hefðu skipuleg lögbrot átt sér stað um langa hríð. Um það hafa að vísu vaknað ýmsar spurningar og kannski þá helst sú hver hafi fyrirskipað þær og borið ábyrgð á. Ekki verður séð að æðstu stjórnendur hafi átt þar beinan þátt að. Á móti kemur að við blasir hverjir nutu góðgerðanna og ekki síður þó hitt, að jafnvel þó svo að æðstu stjórnendum hafi verið ókunnugt um mútugreiðslur á vegum fyrirtækisins, þá bar þeim að grennslast fyrir um þessi miklu útgjöld og ganga úr skugga um að ekkert misjafnt væri á ferðinni. Þeir bera þá ábyrgð bæði gagnvart fyrirtækinu og að lögum.

Það var hins vegar merkilegt að fylgjast með því hvað umræðan snerist hratt frá kjarna málsins, grafalvarlegum ásökunum um skipuleg lögbrot í nafni eins helsta stórfyrirtækis landsins, og yfir í einhver allt önnur mál. Aðallega þá fyrirkomulags um stjórn fiskveiða á Íslandi. Ekki þó fyrr en að innantómustu tunnur stjórnmálanna höfðu hvatt til tafarlausrar kyrrsetningar eigna Samherja og rekstrarstöðvunar, án þess að fyrir svo alvarlegri aðgerð væru færð minnstu rök. Raunar ótrúlegt að horfa upp á sjálfskipaða fulltrúa alþýðunnar tala af svo fullkomnu skeytingarleysi um lífsviðurværi þúsunda launþega.

Verra er þó að fylgjast með þeim stjórnmálamönnum, sem notuðu málið til þess að hjóla í kvótakerfið - best heppnaða fiskveiðistjórnarkerfi heims -  eða tengja það umræðu um veiðileyfagjöld. Við blasir að meint lögbrot í Namibíu tengjast því ekki á nokkurn hátt. Fyrir nú utan hitt, að þá eru hinir sömu að leggja til einhverskonar sameiginlega refsingu fyrir gervallan sjávarútveginn vegna meintra brota einnar útgerðar (og það í annarri lögsögu).

Að möguleg brot eins valdi upphafningu á eignarrétti allra. Slíkar hugmyndir samrýmast ekki góðri lýðræðisvenju eða góðu réttarríki. Eins og sást kannski vel á því að sama liði þótti sjálfgefið að breyta þyrfti stjórnarskránni. Í Namibíu taka hvorki stjórnvöld né almenningur á þessum málum af minni alvöru en á Íslandi; samt hefur enginn fært stjórnarskrárbreytingar í tal þar.

                                                             ***

Áhrif pópúlismans komu þó kannski skýrast fram í ræðuhöldum, þar sem tilgangurinn var bersýnilega sá að valda múgæsingum. Hallgrímur Helgason rithöfundur, sem er þekktur fyrir að láta sér ekkert meinlegt óviðkomandi, flutti þannig eldræðu á fundi Pírata í Iðnó hinn 5. desember, sem svo var birt á vef Fréttablaðsins. Þar var nú ekki töluð tæpitungan.

Hallgrímur fullyrti að spillingin væri meiri á Íslandi en í Namibíu og hvatti til þess að íslensk stjórnvöld legðust í fjöldahandtökur, hvað sem liði öllum rannsóknum, eðlilegri málsmeðferð og réttaröryggi. Talaði svo um SWAPÓ-flokk okkar Íslendinga, eins og hann áttaði sig ekki á að Samfylkingin er systurflokkur SWAPO í Namibíu. Og áfram hélt Hallgrímur, sem þó er alls ekki illa við alla auðjöfra, eins og dæmin sanna:

Spillingin er í eðli Samherja. [...] Við gáfum þeim kvótann. [...] Kvótakerfið er kapítalismi andskotans. Spilavíti þar sem enginn gat tapað. Eina spilavíti heimsins þar sem allir spilararnir græddu. [...] Við höfum ræktað þessa skúrka og leyft þeim að ráða hér öllu. [...] Við þurfum að taka völdin í eigin landi. Við þurfum að ná þýfinu aftur heim. Við þurfum að gefa upp á nýtt. Við þurfum nýja ríkisstjórn. Við þurfum að gefa kvótaflokkunum frí. Við þurfum nýja stjórnarskrá.

Þarna er óspilltur málflutningur pópúlista allra tíma, þar sem fundinn er óvinur, bent á illvirki hans, sönn eða ósönn, og dregnar af ályktanir um eitthvað allt annað, sem fyrir málshefjanda vakir. Þó kemur á óvart að Hallgrímur vill ekki skila „þýfinu"  til Namibíu heldur flytja það til Íslands.

Málflutningur Hallgríms var þó ekkert hjá ræðu Braga Páls Sigurðarsonar ljóðskálds og blaðamanns Stundarinnar, sem hann flutti á Austurvelli 7. desember, og var umsvifalaust birt sem skoðanagrein á vef Vísis að fundinum loknum.

Þar var meginstefið það að Sjálfstæðisflokkurinn væri krabbamein, formaður flokksins vændur um óheiðarleika, fullyrt að hann hefði tálmað skattrannsóknir og farið út í persónulegar svívirðingar um hann. Þrír nafngreindir, fyrrverandi ráðherrar flokksins sakaðir um afbrot án þess að nefnt væri í hverju þau ættu að felast. Svo bitið úr nálinni með að flokkurinn væri nánast barnaníðingahringur!

[Ö]ll hneykslismál, allir skandalar, öll spilling á Íslandi tengist Sjálfstæðisflokknum. [...] Og þá er ótalin barnaníðingshátíðin sem flokkurinn hélt, þar sem allir barnaníðingar sem skráðu sig í flokkinn fengu uppreista æru og sleikjó, sumir hverjir í boði Benedikts, föður Bjarna.[...] Bjarni Benediktsson er nefnilega svo óheiðarlegur að ég er viss um að hroturnar hans eru líka lygar. [...] þrútnasti trúðurinn af þeim öllum, Eyþór Arnalds, vel flæktur í net Samherjamanna. Hugsjónalausasti ljósastauramorðingi allra tíma [...] eignaðist hlut sinn í Mogganum í gegnum mjög vafasama kúlulánafléttu Samherja [...] Það er alveg sama hversu ungur dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins er, hún er jafn mikill fasisti fyrir því.

Svo ógeðslegur málflutningur dæmir sig auðvitað sjálfur og opinberar aðeins innræti málflytjandans. En í okkar skautaða samfélagi, þar sem óþverraleg gífuryrði sem þessi eru umborin, þar er nóg af fólki sem tekur undir og endurtekur. Ef gallinu er spúið á „rétta" menn eða hópa. Vel má vera að þarna sé um jaðarfólk að ræða, sem sést ekkert fyrir í orðræðunni. En það er sérstakt áhyggjuefni að almennir og útbreiddir fjölmiðlar taki þvílíkt upp og birti sem hvert annað innlegg í þjóðmálaumræðuna. Við því verður að sporna, því við höfum sæg ömurlegra dæma úr nútíð og fortíð hvert það getur leitt samfélög og þjóðir.

Markmið pópúlistanna er ávallt hið sama, eins og kom skýrt fram í máli þeirra tveggja, sem nefndir voru að ofan: Að æsa múginn til þess að snúast á sveif með sér og taka til sinna ráða. En múgræði er ekki lýðræði, heldur er það til þess eins fallið að láta ofsann og uppnámið ráða för, en allar skefjar ríkisvaldsins, öryggi réttarríkisins, mannréttindi og mannhelgi látin lönd og leið. Við þekkjum næg dæmi um hvernig það getur endað. Aldrei vel.

Týr er pistill sem birtist í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hérHægt er að kaupa eintak af tímaritinu hér.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.