En ekki er víst að Bankasýslan hverfi af sjónarsviðinu í bráð þrátt fyrir yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar. Hugsanlegt er að hún hverfi alls ekki þrátt fyrir allt. Eins og flestir vita átti Bankasýslan að starfa í fimm ár eftir að hún var sett á laggirnar á sínum tíma. Hrafnarnir minnast orða Miltons gamla Friedman sem sagði að ekkert væri varanlegra en tímabundin verkefni ríkisins.

Hrafnarnir minna á að í febrúar 2018 var tilkynnt um samkomulag Lindarhvols og fjármála- og efnahagsráðuneytisins um að verkefnum þess fyrrnefnda væri lokið og félaginu yrði slitið. Félagið hafði sem kunnugt er það hlutverk að annast umsýslu og sölu þeirra eigna sem fóru í hendur ríkisins í kjölfar samninga við kröfuhafa. Þeirri eignasölu er auðvitað löngu lokið og þrátt fyrir að ríflega fjögur ár séu liðin frá því tilkynnt var um samkomulagið þá bólar ekkert á slitunum þrátt fyrir að verkefnum þess sé fyrir löngu lokið.

Huginn og Muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .