*

fimmtudagur, 22. ágúst 2019
Óðinn
28. mars 2017 10:07

Mun Frexit fylgja í kjölfar Brexit?

Takist Le Pen að gera forsetakosningarnar að nokkurs konar þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB – eða atkvæðagreiðslu um þjóðaratkvæðagreiðslu – gæti allt eins farið svo að hún myndi bera sigur úr býtum.

epa

Ef marka má skoðanakannanir er ekki líklegt að Marine Le Pen, leiðtogi frönsku Þjóðfylkingarinnar, beri sigur af hólmi í forsetakosningum þar í landi, en þær fara fram þann 23. apríl næstkomandi. Fái enginn frambjóðandi meirihluta atkvæða í fyrstu umferð verður kosið á milli tveggja efstu frambjóðandanna þann 7. maí.

***

Ef saga síðustu mánaða og missera hefur kennt okkur eitthvað þá er það að nú er minna mark takandi á skoðanakönnunum en áður og sérstaklega þegar umdeildir stjórnmálamenn eða álitaefni eru til skoðunar. Skoðanakannanir spáðu ekki fyrir um stórsigur breska Íhaldsflokksins í kosningunum 2015, ekki fyrir um niðurstöðu Brexit-kosninganna í Bretlandi og enn síður um sigur Donalds Trump í forsetakosningunum í Bandaríkjunum í nóvember síðastliðnum.

***

Það er því ekki úr vegi að velta fyrir sér hugsanlegum afleiðingum þess ef Le Pen verður kjörin næsti forseti Frakklands.

***

Með forskot… og þó

Áður en lengra er haldið er samt rétt að benda á að þótt Le Pen mælist nú með mest fylgi hinna ellefu frambjóðenda til forsetaembættisins – samkvæmt nýjustu könnunum er hún með um 26% fylgi – þá er ekki sömu sögu að segja þegar þátttakendur í könnunum eru beðnir að gera upp á milli hennar og annars vegar jafnaðarmannsins Emmanuels Macron eða íhaldsmannsins Francois Fillon. Macron er með 64% fylgi á móti 36% hjá Le Pen og Fillon leiðir hana með 54% á móti 46%.

***

Eins og áður segir þá hafa skoðanakannanir reynst skeikular undanfarið og því er alls ekki útilokað að franskir kjósendur komi sérfræðingunum á óvart, líkt og Bretar og Bandaríkjamenn hafa gert.

***

Það sem eykur líkurnar á slíkum óvæntum úrslitum er ofuráhersla Le Pen á að umbreyta sambandi Frakklands við Evrópusambandið. Hún vill auka vald Frakka í málefnum eins og peningamálum, ríkisfjármálum, öryggismálum og innflytjendamálum og hefur lýst því yfir að hún vilji halda þjóðaratkvæðagreiðslu um niðurstöður viðræðna við ESB um þessa þætti. Ekki er ofsögum sagt að hún vilji halda þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíð Frakklands innan ESB, líkt og gert var í Bretlandi í fyrra.

***

Vandinn sem ESB og ESB-sinnar í Frakklandi standa frammi fyrir er að fleiri Frakkar hafa neikvæða skoðun á ESB en jákvæða. Er Frakkland þar í hópi með Grikklandi, Kýpur og Austurríki, en í öllum öðrum Evrópusambandsríkjum eru fleiri með jákvæða skoðun á sambandinu en neikvæða.

***

Takist Le Pen að gera forsetakosningarnar að nokkurs konar þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB – eða atkvæðagreiðslu um þjóðaratkvæðagreiðslu – gæti allt eins farið svo að hún myndi bera sigur úr býtum.

***

Ekki heiglum hent að boða til kosninga

Greiningardeild Commerzbank birti á dögunum áhugaverða greiningu á óvissunni sem forsetakosningunum fylgir. Í fyrsta lagi er þar bent á að það gæti orðið erfitt fyrir forsetann Le Pen að boða til slíkrar þjóðaratkvæðagreiðslu – alltént erfiðara en það reyndist í Bretlandi. Vera Frakklands í Evrópusambandinu er beinlínis bundin í stjórnarskrá franska lýðveldisins og til að boða til þjóðaratkvæðagreiðslunnar gæti Le Pen þurft að fá stuðning í báðum deildum þingsins, eða 20% þingmanna beggja deilda og 10% atkvæðabærra Frakka. Eins gæti þurft að breyta stjórnarskránni á sama tíma og þjóðaratkvæðagreiðslan fer fram. Um þetta eru þó deildar meiningar, eins og svo oft gerist þegar flókin lagatæknileg atriði ber á góma.

***

Greiningardeild Commerzbank telur að þrátt fyrir þessar flækjur og hindranir myndi Le Pen takast að fá sína þjóðaratkvæðagreiðslu. Líta þyrfti á sigur Le Pen sem lýðræðislegt umboð til að halda slíkar kosningar og því væri erfitt að standa í veginum fyrir því. Þá er áhugavert að sjá í skýrslunni að kjósi franskur almenningur að segja skilið við ESB og evruna þá væri það endapunkturinn – ekki þyrfti frekari kosningar um slíkt í þinginu.

***

Óreiða á markaði

Skýrsluhöfundar telja hins vegar að markaðir myndu bregðast öðruvísi við við kjöri Le Pen í forsetaembættið en þeir gerðu eftir stórsigur breska Íhaldsflokksins, sem lofað hafði þjóðaratkvæðagreiðslu um veru Bretlands í ESB. Eins sé ólíklegt að þeir myndu bíða rólegir eftir niðurstöðu slíkrar atkvæðagreiðslu.

***

Ólíkt þeirri stöðu sem uppi var í Bretlandi þá væri Frakkland ekki bara að yfirgefa Evrópusambandið – en þar er hægt að minnka neikvæð áhrif skilnaðarins með viðskiptasamningum – heldur einnig myntbandalag evrunnar. Útganga Frakklands myndi þýða upptöku franska frankans upp á nýtt, en ólíklegt er að slík myntbreyting færi fram án nokkurs efnahagslegs óróa.

***

Hafa ber í huga að um 60% franskra ríkisskuldabréfa eru í eigu annarra en franskra fjárfesta og þessir aðilar munu eflaust líta til neyðarútganganna fyrr en síðar. Taki þeir að selja franskan pappír í stórum stíl mun það ýta ávöxtunarkröfu á frönskum skuldabréfum upp, ekki síst þegar haft er í huga að bréfin eru gefin út í evrum, en franska ríkið mun eiga mjög erfitt með að standa við greiðslur í þeirri mynt eftir útgöngu úr evrusamstarfinu.

***

Hrun á frönskum eignamörkuðum mun væntanlega setja mikinn þrýsting á franska bankakerfið – sem enn hefur ekki að fullu jafnað sig eftir fjárkreppuna 2008. Búast mætti við áhlaupi á bankana, fyrst frá erlendum viðskiptavinum þeirra og svo frá frönskum almenningi.

***

Málað yfir sprungurnar

Áhrifin myndu ná langt út fyrir landamæri Frakklands og má búast við því að hrikta muni í bankakerfum ríkja eins og Ítalíu og að evrópski seðlabankinn myndi þurfa að grípa inn í á skuldabréfamörkuðum með uppkaupum á bréfum á markaði. En jafnvel þótt seðlabankanum tækist að lægja tímabundið þessar öldur mun traust fjárfesta og almennings á evrunni minnka til mikilla muna. Útganga Frakka gæti einnig leitt til þess að flokkar andsnúnir Evrópusambandinu næðu völdum í fleiri ríkjum.

***

Af þessum ástæðum öllum telja starfsmenn greiningar Commerzbank ólíklegt að Le Pen verði kjörin forseti Frakklands. Það mun þó ekki breyta því að enn eru stór óleyst vandamál tengd evrusamstarfinu. Evrópski seðlabankinn mun halda áfram að mála yfir sprungurnar með mjög aðhaldslítilli peningastefnu, en myntsamstarfið er óðum að breytast í kerfi fjármagnsflutnings frá einum hópi aðildarríkja til annars. Það mun til lengri tíma bitna á framleiðni og valda hærri verðbólgu en ella.

 

 

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.