Í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun fjallar Óðinn um frambjóðendurna tvo til formanns Sjálfstæðisflokksins, Bjarna Benediktsson og Guðlaug Þór Þórðarson.

Óðinn fjallar sérstaklega þá gagnrýni sem hann hefur ítrekað sett fram á störf Bjarna en ekki síður um ástæður þess að Guðlaugur Þór býður sig fram, að eigin sögn, og þau málefni sem hann hefur nefnt í aðdraganda formannskosningarinnar.

Hér á eftir fer mjög stutt brot úr skrifum Óðins en áskrifendur Viðskiptablaðsins geta lesið pistillinn í fullri lengd hér.

Lægri skattar og minni ríkisútgjöld

Guðlaugur Þór ræddi það sérstaklega, þegar hann tilkynnti framboð sitt á sunnudag, að skattar væru of háir og ríkisútgjöld sömuleiðis. Þetta hefur hann einnig gert í viðtölum í vikunni. Allt rétt.

Það er ekkert nýtt hjá honum. Guðlaugi Þór til hróss þá lét hann Jóhönnu-stjórnina oft heyra það og barðist þá af alefli gegn hærri sköttum og ríkisútgjöldum. Var raunar með allra duglegustu stjórnarandstöðuþingmönnum í ræðustól, dró hvergi af sér svo undan sveið. Það kom engum á óvart sem fylgst hefur með ferli Guðlaugs Þórs. Þegar hann var að feta fyrstu sporin á stjórnmálabrautinni, í borgarstjórn 1998–2006, sást vel hvers hann var megnugur í minnihluta. Það var frekar að honum væru mislagðar hendur í meirihluta eins og REI-málið var ógæfulegt dæmi um. Eftir sem áður var honum tíðrætt um ráðdeild í opinberum rekstri og hófsemi í skattheimtu.

En frá því hann settist í ríkisstjórn man Óðinn ekki til þess að Guðlaugur Þór hafi minnst á þetta mikilvægasta stefnumál Sjálfstæðisflokksins. Fyrr en á sunnudag.

***

Orð og borð

Sanngjarnara er þó að skoða efndirnar en orðin. Guðlaugur Þór gegndi embætti utanríkisráðherra frá 11. janúar 2017 til 28. nóvember 2021 og rétt að líta á hvernig hann fór með fjármuni skattgreiðenda þar.

Útgjöld utanríkisráðuneytisins vegna árið 2017 voru ekki á ábyrgð núverandi ríkisstjórnar og Guðlaugs Þórs en það voru hins vegar fjárlögin 2022. Útgjöld til utanríkisþjónustu og stjórnsýslu utanríkismála, sem er sérstakur liður í ríkisreikningi en þar fellur undir rekstur utanríkisráðuneytisins og sendiráða, jukust úr 4.942 m.kr. árið 2017 í 6.599 m.kr. árið 2022. Útgjaldaaukningin nemur 34%, eða 16% á föstu verðlagi.

Að mati Óðins er peningum hvergi verið eins illa varið í ríkiskerfinu eins og í utanríkisþjónustunni eftir að faxtækið var fundið upp. Óðinn hefur ekkert á móti því að menn drekki brennivín erlendis en finnst menn eigi að gera það á eigin kostnað, ekki skattgreiðenda í veislusölum sendiráða og sendiherrabústaða.

Það stenst því enga skoðun að Guðlaugur Þór sé á einhvern hátt betri talsmaður skattgreiðenda en Bjarni Benediktsson. Ríkisreikningurinn lýgur ekki um það.

Óðinn er einn af reglulegum skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þennan pistil má lesa í heild í Viðskiptablaði morgundagsins. Blaðið kemur á vefinn kl. 21 en verður dreift í fyrramálið.