*

laugardagur, 27. nóvember 2021
Elvar Bjarki Helgason
23. mars 2020 08:15

Mun Covid-19 hafa áhrif á netverslun?

„Á meðan óvissan um kórónavírusin (Covid-19) stendur, munu neytendur sýna varfærni við að versla á opinberum stöðum“

Aðsend mynd

Það hefur ekki farið framhjá neinum að Kórónaveiran hefur haft talsverð áhrif á þjóðfélagið undanfarnar vikur. Samkomum hefur verið frestað, viðbragðsáætlanir settar í ferli og fólk farið að halda sig frá almenningsstöðum. Áhrifin eru jafnvel mun meiri erlendis þar sem sum fyrirtæki hafa óskað eftir að starfsfólk vinni heima, skólahald verið lagt niður tímabundið og heilu löndunum verið lokað, á sama tíma forðast almenningur staði þar sem fólk safnast saman.

Samkvæmt nýrri rannsókn frá Coresight Research’s sögðust t.d. 27% aðspurðra í Bandaríkjunum hafa forðast verslunarmiðstöðvar og aðra staði þar sem fólk safnast saman síðustu tvær vikur, og ástandið á eftir að versna en 58% sögðust ætla að forðast staði þar sem mikið fólk safnast saman. Verslunarmiðstöðvar voru þar ofarlega á blaði, en einnig verslanir almennt.

Verslunarmiðstöðvar þurfa því að bregaðst við með einhverjum hætti. Kringlan setti upp stafrænar lausnir á síðasta ári með nýrri vöruleit á Kringlan.is, og er það hluti af stafrænni framtíð þar sem markmiðið er að mæta kröfum neytenda um aukið stafrænt aðgengi. Það verður fróðlegt að fylgjast með hverju þessi stefna „offline to online“ (O2O) mun skila.

Aukin netverslun og breytt hegðun
Netverslun er spáð umtalsverði aukningu vegna veirunnar og sér í lagi þegar kemur að mat- og dagvörum. Neytendur, sem hafa hingað til ekki verið að panta mikið á netinu, eru líklegir til að breyta kauphegðun sinni og byrja að panta matvæli og/eða dagvörur í auknum mæli.

Við erum þegar byrjuð að sjá fréttir um talsverða aukningu í netverslun hjá löndum þar sem veiran er mjög dreifð, t.d. Singapúr þar sem netverslun með lyf og fæðubótefni þrefaldaðist í febrúar frá fyrri mánuði og matvöruverslanir eru að nálgast hámarksafkastagetu. Netverslun í Bretlandi er þegar byrjuð að sjá áhrif og er því spáð að hún eigi eftir að aukast verulega eftir því sem vírusinn heldur áfram að dreifast. Mesta aukningin er í matvælum þar sem almenningur forðast að fara í matvöruverslanir og vill frekar heimsendingu. Þetta er ekki ólíkt því sem við sjáum hér, heimsending á matvælum hefur stóraukist síðustu vikurnar enda yfir 1.700 manns í sóttkví þegar þetta er skrifað.

Verslanir þurfa að vera undirbúnar
Covid-19 mun að öllum líkindum ýta undir og hraða stafrænni umbreytingu þegar kemur að verslun og þjónustu. Ef við horfum til baka, þá er gott dæmi um stafræna umbreytingu vegna fyrri faralda þegar JD.com fór að selja vörur á netinu 2004 þegar SARS faraldurinn stóð sem hæst, í dag er JD.com ein stærsta netverslun Kína. Það er mikilvægt að netverslanir séu sérstaklega vel undirbúnar undir það álag sem á eftir að skapast, bæði stórar og smáar. Það snýr ekki eingöngu að birgðarhaldi heldur einnig að tryggja að allir samstarfsaðilar, eins og dreifingaraðilar, ráði við aukin fjölda sendinga og ekki bara tímabundið heldur til lengri tíma litið og bjóði upp á lausnir þar sem neytendur þurfa ekki að fara á fjölmenna staði til að sækja pakka eða sendingar. Samstarfsaðilar geta verið mikilvægur hlekkur í að bjóða upp á stafrænar lausnir er snúa að afhendingu sem kallar á sem minnst samskipti eða gefa viðskiptavinum kost á að forðast fjölmenna staði.

Langtíma eða skammtíma áhrif
Á meðan óvissan um kórónavírusin (Covid-19) stendur, munu neytendur sýna varfærni við að versla á opinberum stöðum og því snúa sér að netverslun sem leið til að fá nauðsynjar og aðrar vörur. Hvort aukningin sé öll komin til að vera er eitthvað sem tíminn mun leiða í ljós. Það munu alltaf einhverjir snúa til baka í gamlar venjur en hluti af aukningunni mun tvímælalaust halda sér, enda netverslun komin til vera.

Höfundur er forstöðumaður söludeildar Póstsins.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.