*

föstudagur, 22. janúar 2021
Óðinn
11. maí 2015 13:00

Mun rigna gulli?

Spurningarnar sem Ragnheiður Elín Árnadóttir þarf að spyrja breska ráðamenn munu svara stórri spurningu.

Aðalfundur Samáls, samtaka álframleiðendanna þriggja, var haldinn í síðustu viku. Ragnar Guðmundssonar forstjóri Norðuráls og formaður félagins, bar saman í ræðu sinni verðmæti íslenskra orkufyrirtækja og sjávarútvegsfyrirtækja til marks um mikilvægi áliðnaðarins í íslensku samfélagi. Samkvæmt útreikningum hans eru orkufyrirtækin 500 til 800 milljarða virði en sjávarútvegsfyrirtækin 600 milljarða virði, og byggir Ragnar þar virðisreikninginn á markaðsvirði Granda hf., eina sjávarútvegsfyrirtækinu sem er skráð í kauphöll. Þetta er nokkuð einfölduð mynd, eins og Ragnar tók skýrt fram, en gefur einhverja vísbendingu.

***

Orkuveitan hækkaði gjaldskrá

Orkufyrirtækin þrjú eru misjöfn eins og þau eru mörg. Tvö þeirra eru opinber og það þriðja er einkafyrirtæki, að hluta til í eigu lífeyrissjóða. Orkuveita Reykjavíkur, annað opinbera fyrirtækið, bætti mjög slæma fjárhagsstöðu sína á árinu 2010 með því að hækka gjaldskrár sínar verulega. Rafmagn hækkaði um 11%, heitt vatn um 30% og gjald fyrir dreifingu rafmagns um 40%. Þetta geta aðeins opinber fyrirtæki og einokunarfyrirtæki gert. Hækkunin skilaði OR 2,2 milljörðum í tekjur árið 2013 en það ár nam hagnaður sameignarfélagsins 3,3 milljörðum króna eftir skatta.

***

Verðmæti Landsvirkjunar 500 milljarðar?

Verðmætast orkufyrirtækjanna er Landsvirkjun. Til marks um það spurði Ragnar á fundi Samáls hvort einhver í salnum myndi selja Landsvirkjun fyrir minna en 500 milljarða. En hvers vegna er formaður samtaka álfyrirtækja að velta fyrir sér virði orkufyrirtækjanna? Ragnar er þarna að svara þeim sem hafa lengi haldið því fram að orkuverð til íslensku álfyrirtækjanna hafi verið of lágt allt frá því að álverið í Straumsvík var sett á stofn árið 1969. Ragnar sagði að samningar orkufyrirtækjanna við álverin hefðu verið þjóðinni hagstæðir, skilað gríðarlega góðri afkomu og þúsundum traustra og vel launaðra starfa. Til að meta þessa staðhæfingu þarf að skoða arðsemi orkufyrirtækjanna frá upphafi.

En Óðinn getur tekið undir það með Samáls-mönnum að orkan hafi ekki verið óeðlilega lágt verðlögð. Verðið tók einfaldlega mið af stöðunni á orkumarkaðnum í heiminum á hverjum tíma auk aðstæðna á Íslandi og legu landsins. Það er því ómaklegt að saka fyrrverandi stjórnendur og núverandi stjórnendur Landsvirkjunar um að hafa samið af sér um orkuverðið.

***

Slök arðsemi en fer batnandi

Það er hins vegar áhyggjuefni frá sjónarhóli eigandans hve slök arðsemi eigin fjár Landsvirkjunar hefur verið á síðustu árum. Á árunum 2008-2014 var arðsemi eiginfjár aðeins 0,6% að meðaltali. Arðsemin fór hins vegar batnandi á síðasta ári og var hún 4,7%. Bókfært eigið fé Landsvirkjunar um áramótin var 1,7 milljarðar Bandaríkjadala, eða um 220 milljarðar króna á núverandi gengi. Raunvirði eigin fjár kann að vera eitthvað hærra, en virkjanir fyrirtækisins eru bókfærðar á 490 milljarða króna, eða 3 milljarða dala. Stofnverð þeirra er hins vegar 5 milljarðar dala og hafa verið afskrifaðar um 2 milljarða dala. Þær kunna að vera vanmetnar í bókunum. Þarna er þó frekar verið að horfa til upplausnarverðs á fyrirtækinu. Markaðsverð fyrirtækisins er án efa mun hærra en bókfært verð og er Ragnar Guðmundsson, forstjóri Norðuráls, líklega ekki fjarri lagi þegar hann nefnir 500 milljarða.

Ávöxtun ríkissjóðs af eigninni er óásættanleg miðað við þá áhættu sem felst í rekstrinum. Sitt sýnist hverjum um hver ávöxtunarkrafan skuli vera en Óðinn telur hana ekki vera undir 8%. Það þýðir að ríkissjóður þyrfti að fá 40 milljarða í arð á ári til að standa undir verðmiðanum sem Ragnar nefnir.

Ríkissjóður hættir ekki aðeins eigin fé í starfseminni heldur ber hann ábyrgð á rúmum 200 milljörðum króna (1,6 milljörðum Bandaríkjadala) í formi ábyrgða. Fyrir það greiðir Landsvirkjun sérstakt ábyrgðargjald sem nemur 0,48% af skuldunum á hverju ári. Mikilvægt er að afnema ríkisábyrgðina, eins og stjórnendur Landsvirkjunar hafa ítrekað sagt sjálfir.

***

Gríðarlegar skuldir ríkisins

Fjárlög 2015 gera ráð fyrir að ríkissjóður muni skulda 1.484 milljarða króna í lok ársins 2015. Skuldbindingar vegna Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og lífeyrissjóðs hjúkrunarfræðinga eru um 407 milljarðar (tölur frá 2013). Að auki er ríkissjóður í ábyrgðum fyrir skuldbindingum Íbúðalánasjóðs, um 905 milljörðum, en þar er líklegt að minnsta kosti 150 milljarðar falli á ríkissjóð að öllu óbreyttu. Samtals skuldar ríkissjóður því um 2.050 milljarða króna.

Stærstur hluti vaxtagjalda ríkissjóðs er vegna ríkisbréfa en sú útgáfa hefur fjármagnað rekstrarhalla á ríkissjóði undanfarin ár. Alls nemur útistandandi staða ríkisbréfa 678 milljörðum króna um mitt ár 2015 og bera þau að meðaltali 5,5% vexti. Vaxtagjöld vegna þeirra verða 37,3 milljarðar króna á árinu eða 48% af heildarvaxtagjöldum ríkissjóðs. Ef við gefum okkur að bókfært eigið fé fengist við sölu Landsvirkjunar myndi ríkisjóður hagnast um 1,8 milljarða á ári í formi lægri vaxtagjalda ef söluandvirðið væri notað til að greiða upp skuldir. Ef 500 milljarðar fengjust fyrir fyrirtækið næmi hagnaðurinn á hverju ári 4 milljörðum á ári.

***

Ríkið og áhætturekstur

Óðinn er mótfallinn því að ríkissjóður standi í áhætturekstri eins og Landsvirkjun. Hins vegar kann að vera ástæða til að hinkra með að selja fyrirtækið í hluta eða heild af tveimur ástæðum. Sú fyrri er sú ef spár stjórnenda Landsvirkjunar eru trúverðugar um að raforkuverð hækki, og þar með arðsemin, er ef til vill rétt að bíða. Samkvæmt ársreikningi fyrir árið 2014 er meðalverð til iðnaðar 25,9 Bandaríkjadalir/ MWst en var 25,8 Bandaríkjadalir/ MWst árið áður. Um 95% af orkunni eru seld til stærri notenda. Hækkun að meðaltali um 1 dal skilar Landsvirkjun 1,7 milljörðum í hagnað fyrir tekjuskatt. Óðinn er trúaður á spár stjórnenda Landsvirkjunar. Aukin eftirspurn gæti hækkað tekjur félagsins verulega og í sjálfu sér þarf ekki mikla verðbreytingu til að fyrirtækið skili góðri arðsemi eins og sést á dæminu hér á undan.

***

Sæstrengur

Seinna atriðið vegur þó mun þyngra. Landsvirkjun hefur um nokkurn tíma skoðað hugmyndir að lagningu sæstrengs milli Íslands og Bretlands. Enn liggja ekki fyrir ákveðnar forsendur svo hægt sé að meta arðsemi slíks strengs. Landsvirkjunarmenn eru eðlilega varfærnir þegar kemur að yfirlýsingum um arðsemi. Sjóðastýringafélagið Gamma mat arðsemi sæstrengs 40 milljarða á ári. Í fyrra hélt Ketill Sigurjónsson, lögfræðingur og sérfræðingur um orkumál, því fram að hægt væri að fá 150- 200 Bandaríkjadali fyrir megavattstundina, eða 6-8falt meira en núverandi verð til iðnaðar. Óðinn getur ekki nú frekar en fyrr tekið afstöðu til sæstrengsins fyrr en forsendur liggja fyrir, en áðurnefndar tölur gera það að verkum að hann metur það sem svo að það sé skylda stjórnvalda að kanna málið.

***

Rignir gulli?

Sæstrengsmálið strandaði hins vegar fyrir margt löngu og liggur þar enn. Strandstaðurinn er skrifborð Ragnheiðar Elínar Árnadóttur iðnaðarráðherra. Skipun nefnda um ekki neitt skilar engu. Hvaða máli skiptir hvaða áhrif lagning sæstrengs muni hafa á vinnumarkað og atvinnugreinar, hvaða áhrif hann myndi hafa á dreifi- og veitukerfi rafmagns, raforkuverð til innlendra rafmagnsnotenda ef frumforsendur hafa ekki verið skoðaðar? Frumforsendurnar eru fjórar: a) hvaða verð Bretar eru tilbúnir að ábyrgjast, b) hversu mikið magn þeir vilja kaupa, c) til hversu langs tíma og d) hvenær. Í heimildarmynd sem sýnd var á afmælisársfundi Landsvirkjunar um Búrfellsvirkjun komst einn starfsmanna Landsvirkjunar vel að orði. Hann sagði að þegar rignir, þá rigni gulli. Spurningarnar sem Ragnheiður Elín Árnadóttir þarf að spyrja breska ráðamenn munu svara stórri spurningu. Mun rigna gulli?

Óðinn birtist í Viðskiptablaðinu 7.maí 2015.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.