Elon Musk er ríkasti maður í heimi samkvæmt bandaríska tímaritinu Forbes. Þessu ágæta tímariti hefur reyndar orðið á í messunni stundum, eins og til dæmis þegar Christy Walton, ekkja stofnanda Walmart keðjunnar reyndist ekki vera ríkasta kona í heimi eins og Forbes hélt fram í mörg ár og átti „aðeins" einn sjötta af því sem tímaritið taldi hana eiga.

Þó ríkidæmi Musk sé líklega rétt reiknað hjá Forbes þá telur Musk sjálfur að gengi hlutabréfa Tesla sé of hátt. Það gerði hann til dæmis á Twitter í maí. Óðinn tekur undir með Musk því þó Tesla hafi enn nokkra yfirburði yfir aðra rafbílaframleiðendur, og mikla yfirburði yfir suma þeirra, þá eru blikur á lofti.

* * *

Kínverskur draumur

Það er opinbert leyndarmál að Xi Jinping forseti Kína vill að Kínverjar verði leiðandi í framleiðslu og hönnun á iðnvarningi í heiminum. Sumir myndu telja að Kína væri það nú þegar. Iphone símar Apple og símar og sjónvörp Samsung eru til dæmis að mestu framleidd í Kína og þetta er varningur sem allir á Fróni þekkja.

En Xi forseti vill ganga lengra. Stefna kínverskra stjórnvalda er sú að Kínverjar framleiði ekki aðeins heldur hanni og þrói einnig undir eigin merkjum.

* * *

Fyrirgreiðsla til Tesla

Kínverskur bílaiðnaður hefur ekki verið upp á marka fiska síðustu áratugi. Erlendir bílaframleiðendur máttu ekki setja upp verksmiðjur í Kína nema eiga samstarf við heimamenn og deila eignarhaldi. Slík samvinna hófst árið 1984 eftir að kínversk stjórnvöld heimiluðu komu erlendra bílaframleiðenda til Kína undir ströngu eftirliti. Má segja að þá hafi þeir bandarísku, þýsku og evrópsku komið með mestan hluta þekkingar og hugvits.

Reglunni um lágmarkseignarhald Kínverja var breytt árið 2008 fyrir Elon Musk og Tesla. Ekki nóg með það heldur lánuðu kínversk stjórnvöld, í gegnum kínverska banka, Teslu fé til uppbyggingar á verksmiðju í Sjanghæ á lágum vöxtum en stýrivextir í Kína eru tæp 4% - mun hærri en í Bandaríkjunum og Evrópu. Samkvæmt Reuters nemur lánið 1,4 milljörðum Bandaríkjadala, eða jafnvirði um 182 milljarða króna. Vextirnir á láninu eru 90% af 12 mánaða vöxtum Seðlabanka Kína.

Að auki létu kínversk stjórnvöld Teslu hafa landsvæði á góðum kjörum og bandaríski bílaframleiðandinn fékk veruleg skattfríðindi í Kína.

* * *

Helmingur Tesla framleiddur í Kína

Wall Street Journal hélt því fram í byrjun mánaðarins í fréttaskýringu, að bygging verksmiðjunnar í Kína hafi haft mikil áhrif á að Tesla skilaði hagnaði í fyrsta sinn árið 2020. Í dag er um helmingur allra Tesla bíla framleiddur í Kína og þaðan kemur mikill hluti þeirra bíla sem seldir eru á Íslandi. Ekki má gleyma því að um 24% allrar sölu Tesla er í Kína. Það þýðir þó að um helmingur allra Tesla sem framleiddir eru í Kína er fluttur út og því er Kína framleiðsluland í bókum Tesla.

* * *

Hvers vegna?

En hvers vegna í ósköpunum styrktu kínversk stjórnvöld svo hressilega við bakið á Tesla?

Að sögn Wall Street Journal var það meðal annars til þess að auka trú og traust íbúa í Kína á rafbílum. Og um leið jafnframt að styrkja stöðu kínverskra rafbílaframleiðenda, sem fara nú sístækkandi með meiri framleiðslugetu. Kínverjar hafa nú lært margt sem þeir kunnu ekki í bílaframleiðslu á þeim tæpu 40 árum sem erlendir bílaframleiðendur hafa mátt starfa í landinu. Ekki síst á síðustu árum í smíði rafbíla.

Aðfangakeðjan er einnig orðin mun betri í Kína með komu Tesla og það gagnast nýju ungu kínversku rafbílaframleiðendunum vel og mun nýtast stóru gömlu risaeðlunum sem eru að leggja drög að því að færa framleiðslugetuna í rafbíla. Stóru kínversku bílaframleiðendurnir eru flestir að hluta eða að fullu í eigu ríkisins.

* * *

Rísandi stjörnur

Ungu framleiðendurnir virðast vera að ná miklum árangri, en þeir eru helstir Nio, Xpeng og Li-Auto. Þeir njóta stuðnings og velvilja stjórnvalda í Peking. Þetta eru þeir rafbílaframleiðendur sem eru komnir lengst í smíði rafbíla en talið er að 300-400 fyrirtæki hafi verið stofnuð um smíði rafbíla í Kína. Flest þeirra munu auðvitað aldrei framleiða bíla.

Nio og Xpeng eru eingöngu í hreinum rafbílum og þangað stefnir Li-Auto. Framleiðslugeta Nio fer í 240 þúsund bíla á ári um mitt næsta ár. Framleiðslugeta Xpeng nær um 300 þúsund bílum eftir rúmt ár, úr 200 þúsund í dag. Þessir framleiðendur eru komnir mjög nærri gæðum og drægni Tesla og eru í mun betri stöðu en flestir evrópskir og bandarískir framleiðendur. Svo ekki sé talað um japanska Toyota sem veðjaði á vetni en hefur horfið frá því og ætlar að fara í rafbílaslaginn.

Í ár mun Tesla smíða um 800 þúsund bíla en framleiðslugeta er um ein milljón í dag á ársgrundvelli. Musk ætlar sér að auka framleiðslugetuna mikið, meðal annars með verksmiðju í Berlín í Þýskalandi.

* * *

Litlir en gætu orðið stórir

Þótt um 27 milljónir bifreiða séu framleiddar í Kína, en alls eru um 78 milljónir framleiddar í heiminum, þá eru fæstir þeirra undir merkjum kínverskra framleiðenda. Til að átta sig á stærð bílaframleiðenda þá framleiðir Toyota árlega um 10 milljónir bíla, Volkswagen samsteypan svipað og Hyundai 7 milljónir bíla. Þýsku Mercedes og BMW framleiða í kringum 2,5 milljónir bíla á ári en stærstu kínversku bílaframleiðendurnir eru svipaðir að stærð.

Kínversku bílaframleiðendurnir eru því enn litlir í alþjóðlegum samanburði og það verður fróðlegt að skoða framleiðslutölur eftir nokkur ár, jafnvel nokkur misseri.

Kínversk stjórnvöld voru ekki að gera Teslu neinn greiða. Þeir sáu tækifæri til að vera með viðmið og samkeppni fyrir kínversku bílaframleiðendurna.

Kínverskir bílaframleiðendurhafa aðallega selt framleiðslu sína innanlands en horfa í auknum mæli á útflutning. Þeir hafa notað innanlandsmarkaðinn sem prufumarkað til að laga það sem laga þarf. Það tók Teslu langan tíma en framleiðsla þeirra virðist vera orðin góð og bilanatíðni lág.

Kínverjar óttast leynt, og jafnvel ljóst, að þeir verði talaðir niður þegar þeir muni flytja bíla sína út í verulegu magni. En mun það hafa áhrif? Það er óvíst því að einn fylgifiskur þess er að kínversk stjórnvöld voru svo rausnarleg við Teslu, eins og nefnt var hér á undan, að Kínverjar geta bent á að stór hluti Tesla bíla sé framleiddur í Kína. Með nákvæmlega sömu tækninni og róbótunum og kínversku bílaframleiðendurnir nota.

Það verður spennandi að fylgjast bílaiðnaðinum á næstu árum. Rafbílarnir eru að bylta þessum bransa og óvíst er að allir lifi þá samkeppni af.

Óðinn er pistill sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .