*

sunnudagur, 1. ágúst 2021
Kári Finnsson
5. maí 2013 16:13

Myndlist sem fjárfesting

Myndlist er ekki endilega jafn arðbær fjárfestingarkostur og hún virðist í fyrstu.

None

Margir hugsa sér eflaust gott til glóðarinnar þegar fregnir berast af metsölum málverka á uppboði og sjá fyrir sér mikið sóknarfæri í því að fjárfesta í myndlist. Til vitnis um þetta er fjölgun fjárfestingarsjóða sem sérhæfa sig í að kaupa myndlist og aukin áhersla fjármálastofnana við að auka við listaverkaeign sína. Þegar betur er að gáð kemur hins vegar í ljós að myndlist er ekki endilega jafn arðbær fjárfestingarkostur og hún virðist í fyrstu.

Hægt er að rekja sterka stöðu listmarkaðarins í dag í skugga efnahagskreppu að einhverju leyti til þess að þeir sem hafa átt umtalsverðar eignir á síðustu misserum hafa efnast vel og leita fjölbreyttra leiða til að fjárfesta ávinningi sínum. Margir hafa því fjárfest í myndlist til að eiga dreifðara eignasafn. Þannig má segja að vísitalan sem einna helst tengist listmarkaðnum sé ekki endilega aukinn hagvöxtur heldur aukinn ójöfnuður tekna.

Það er rétt skilið að þeir sem hafa fjárfest í stórum nöfnum á borð við Warhol, Picasso, Rothko o.s.frv. hafa auðgast tiltölulega vel á safni sínu, sérstaklega ef þeir hafa keypt snemma og selt seint. Hitt er þó annað mál hvort sá sem fjárfestir í þessum toppnöfnum í dag muni njóta sömu ávöxtunar í framtíðinni. Markaðurinn fyrir Warhol verk er t.d. verulega sterkur í dag en var aftur á móti í mikilli lægð undir lok níunda áratugarins og það er mjög óvíst hvort vinsælir listamenn í dag munu halda vinsældum sínum og verðgildi í framtíðinni.

Sá sem ákveður að fjárfesta í myndlist til að græða á henni verður einnig að athuga hversu kostnaðarsamt það getur verið að halda uppi listaverkasafni. Trygginga- og flutningskostnaður á verðmætum listaverkum getur hæglega étið upp hagnaðinn sem fengist getur við endursölu verkanna. Hitt er þó annað mál að fólk safnar alla jafna myndlist ekki einungis vegna endursöluvirði hennar heldur vegna hennar sjálfrar. Það eru þeir sem safna myndlist af ástríðu sem raunverulega græða á henni á endanum.

Stikkorð: Myndlist Striginn
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.