*

miðvikudagur, 19. janúar 2022
Ásdís Auðunsdóttir
15. október 2021 15:20

Myrkraverk hinnar ósýnilegu handar

Spurningin er hvort spilin verði endurhugsuð og samkeppni framtíðarinnar muni raunverulega fyrst markast af sjálfbærni.

epa

Heimsbyggðin stendur á tímamótum sem eru allt í senn raunveruleg og óskiljanleg. Hlýnun jarðar er staðreynd og líkt og í fjarstæðukenndri bíómynd er okkar eina verkefni að bjarga mannkyninu, bara svona samhliða öðrum daglegum störfum.

Sjálfbærni hefur verið mér hugleikin undanfarið, bæði í tengslum við störf mín og auðvitað vegna þess að ég er manneskja sem bjó til aðrar manneskjur á þessum helfararhnetti sem við köllum Jörð. Markmiðin hafa verið sett og til þess að ná þeim þurfa þjóðir heims, fyrirtæki og stofnanir að breyta og endurhugsa nær alla okkar tilveru. Í vangaveltum mínum varð mér hugsað til Adams Smith og kenningar hans um ósýnilegu höndina. Hinn hagfræðilega hornstein sem felur í sér að kapp manna (fyrirtækja) að eigin hagsmunum feli í sér almannaheill og að öll samkeppni sé til bóta fyrir samfélagið. Ekki galin pæling það, arðbært fyrirtæki gefur vissulega meira af sér en hið óarðbæra.

Hugmyndafræðin endurspeglar viðskiptahætti og viðskiptarekstur nútíma og fortíðar, en hún felur einnig í sér lögmál sem ýtti okkur út á þá bjargbrún sem við dinglum nú af. Samkeppni fyrirtækja við að bregðast við eftirspurn mannanna hefur leitt af sér mengun, ágang á náttúruauðlindir og misnotkun manna og dýra. Fyrirtækin fyrst, auðlindir heimsins síðar.

Smith verður þó vart kennt um ófarir mannanna. Sennilega hefðum við fundið út úr kostum þess að græða án hans aðkomu, auk þess sem staða mannkyns var vissulega önnur þegar hann skrifaði Auðlegð þjóðanna árið 1776. Spurningin er hins vegar hvort tilveru okkar verði í raun svo kollvarpað og spilin endurhugsuð á þann hátt að eftirspurn og samkeppni framtíðarinnar muni raunverulega fyrst markast af sjálfbærni. Samband eiginhagsmuna og almannaheilla er allavegana mun flóknara en áður. 

Höfundur er lögfræðingur og verkefnastjóri.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.