Sigurvegari fjölmiðlaverðlauna ríkisins var kynntur með pompi og prakt í bandormi fjárlaga 2023, nánar tiltekið með breytingartillögu fjárlaganefndar.

Landsbyggðarmiðillinn N4 hreppti hnossið þar sem 100 milljónir króna voru eyrnamerktar landsbyggðarmiðli sem framleiðir eigin efni fyrir sjónvarpsstöð.

Til samanburðar hlaut N4 tæpa 21 milljón króna á síðasta ári og stærstu miðlar landsins – Árvakur, Sýn og Torg – tæpar 67 milljónir hver. N4 er einstaklega vel að verðlaununum kominn, enda ótvíræður burðarstólpi innlendrar fjölmiðlunar sem ber höfuð og herðar yfir aðra fjölmiðla á landinu.

Allar ákúrur um að vegtyllan hafi nokkuð með það að gera að Stefán Vagn Stefánsson, þingmaður Framsóknar og mágur Maríu Bjarkar Ingvadóttur, framkvæmdastjóra N4, sitji í fjárlaganefnd eru fjarstæðukenndar. Framsóknarflokkurinn myndi aldrei láta grípa sig í bólinu við frændhygli.

***

Að öllu gamni slepptu, þá er staðan sem upp er komin í senn átakanlega vandræðaleg og sprenghlægileg. Týr lamaðist fyrir neðan mitti við að lesa viðtal mbl.is við Björn Leví Gunnarsson, þingmann Pírata og nefndarmann í fjárlaganefnd, þar sem hann reyndi að afsaka breytingartillögu nefndarinnar.

„Þau útskýrðu fyrir mér að það væru fleiri [miðlar] sem styrkurinn myndi dreifast til,“ sagði hann og vildi meina að styrkurinn væri ekki eyrnamerktur N4, enda væri fjölmiðillinn ekki tilgreindur sérstaklega í breytingartillögunni og að „ef“ það væru fleiri miðlar hefði ráðherra, það er Lilja Dögg Alfreðsdóttir, heimild til að útdeila styrknum öðruvísi.

Þess má geta að fjárlaganefnd mun ekki hafa borist beiðnir frá öðrum miðlum sem uppfylla skilyrðin. „Björn segir að nefndin hafi ekki rætt þá staðreynd að allir þingmenn í meirihluta nefndarinnar séu þingmenn landsbyggðarkjördæma, nema einn. Þar af eru fjórir úr Norðvestur- og Norðausturkjördæmi, þar sem N4 starfar,“ segir aukinheldur í grein mbl.is.

***

Þetta er alveg galið og rennir frekari stoðum undir hið augljósa: ríkið þarf að hætta þessu styrkjarugli og einfaldlega búa fjölmiðlum umhverfi þar sem hver getur verið sinnar eigin gæfu smiður. Fíllinn í herberginu er Ríkisútvarpið.

Það er óþolandi að í stað þess að taka á rót vandans sé ríkið að greiða einhvers konar skaðabætur til fjölmiðla, sem lúta fyrir vikið ekki lögmálum eðlilegrar samkeppni og eftirspurnar.

Týr er einn af reglulegum skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins sem kom út 15. desember 2022.