*

fimmtudagur, 2. desember 2021
Björn Brynjúlfur
23. október 2020 15:50

Ná demókratar þrennunni?

Flest bendir til þess að Joe Biden verði næsti forseti Bandaríkjanna. En munu demókratar einnig vera með meirihluta í fulltrúadeild og öldungadeild Bandaríkjaþings?

epa

Nú þegar ellefu dagar eru til kosninga bendir flest til að Biden verði næsti forseti Bandaríkjanna. Hann nýtur 52% fylgis í könnunum samanborið við 42% hjá Trump.

Obama var með svipað forskot á McCain á sama tímapunkti árið 2008 og endaði með að vinna stóran kosningasigur.

En forsetinn er ekki kjörinn í beinni atkvæðagreiðslu, heldur af kjörmönnum. Það kom skýrt fram í síðustu kosningum, þegar Hillary Clinton fékk 48% atkvæða samanborið við 46% hjá Trump, sem fékk samt á endanum fleiri kjörmenn. Þá, líkt og nú, höfðu flestir spáð mótframbjóðanda Trump sigri.

Vegna COVID verður erfitt fyrir Trump að endurtaka leikinn í ár. Kjósendur eru óánægðir með viðbrögð hans við faraldrinum og þá sérstaklega eldra fólk, sem er í mestri hættu. Það dregur úr sigurmöguleikum Trump þar sem eldri einstaklingar mæta frekar á kjörstað og eru jafnframt fjölmennir í mikilvægum baráttufylkjum. Mesta spennan þann 3. nóvember er um það hvort demókratar nái þrennunni; forseta, fulltrúa- og öldungadeild.

Spásíðan FiveThirtyEight metur sigurlíkur þeirra um 90% fyrir forsetann, 96% fyrir fulltrúadeildina og 73% fyrir öldungadeildina. Það eru því meiri líkur en minni á að demókrötum takist það, en óvissan er mikil og sérstaklega þegar kemur að öldungadeildinni.

Í öldungadeildinni sitja 100 þingmenn auk varaforsetans ef atkvæði falla jöfn. Demókratar þurfa því 50 þingmenn auk varaforsetans til að geta komið lagabreytingum þar í gegn.

Það er þó brothættur meirihluti; praktískara væri að ná að minnsta kosti 52 þingmönnum til að ná stefnumálum í gegn. Líkurnar á að það gangi eru metnar um 50%, svo þar er spennan mikil.

Ég mun poppa annan þriðjudag og fylgjast með, enda fátt betra sjónvarpsefni en forsetakosningar í Bandaríkjunum.

Höfundur er hagfræðingur.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.