*

mánudagur, 17. júní 2019
Heiðar Guðjónsson
17. janúar 2018 12:57

Næstu ár verða góð

Eftirtektarvert er að sjá að þeir sem hafa notið mest uppgangs síðustu ára eru starfsmenn hins opinbera.

Haraldur Guðjónsson

Það er gaman að sjá hvernig íslenska hagkerfið heldur áfram að eflast. Skuldsetning heimila, fyrirtækja og hins opinbera heldur áfram að lækka og uppgangur hagkerfisins er sterkur. Vindar alþjóðavæðingar leika um okkur og við njótum góðs af því.

Fjórða iðnbyltingin er mikið rædd þessi misserin. Hún mun gagnast Íslandi ekki síður en öðrum. Sá þráláti vandi sem hefur verið einsleitt og einangrað atvinnulíf, með vonlausri peningamálastjórn sem hefur komið fram reglulega í verðbólguskotum, lætur núna ekki á sér kræla. Ástæða þess er fyrst og fremst sú að fjórða iðnbyltingin gerir allt ódýrara, betra og dregur úr átthagafjötrum sem áður þrengdu að hagkerfinu. Alþjóðlega mun lítil sem engin verðbólga mælast um langt skeið, líkt og þegar fyrsta iðnbyltingin átti sér stað og breska pundið sýndi verðhjöðnun allt fram að fyrri heimsstyrjöld. Bætt fjarskipti og tæknivæðing eykur verkaskiptingu á milli landa og gerir hagkerfin sveigjanlegri. Þetta blasir við Íslendingum sem geta núna úthýst æ fleiri verkefnum út fyrir landsteinana og ná samstundis í tímabundið vinnuafl til að vinna verkin auk þess sem við flytjum inn fólk í nær allar atvinnugreinar.

Þær gríðarlegu launahækkanir sem samið var um í síðustu kjarasamningum hafa ekki komið fram sem verðbólga. Það þýðir þó ekki að hægt sé að ganga lengra fram í þeim efnum. Síðustu þrjú ár hafa sannanlega verið ár launamannsins sem hefur notið mun meira af verð- mætasköpun síðustu ára, langt umfram aðra haghafa. Ef ætlunin er að knýja fram frekari almennar launahækkanir er ljóst að margar atvinnugreinar munu leggjast af. Þær þola ekki meira. Þar með er komið að vandanum við miðstýrða kjarasamninga. Prentsmiðjur, sem keppa við Kína og Austur Evrópu, geta ekki verið sett undir sama hatt og ferðaþjónustan þegar kemur að kjarasamningum. Það þarf að hætta miðstýrðum kjarasamningum því líkt og miðstýring almennt mun hún leiða til einhæfs atvinnulífs og þar með frekari kollsteypa í framtíðinni.

Eftirtektarvert er að sjá að þeir sem hafa notið mest uppgangs síðustu ára eru starfsmenn hins opinbera. Þeir hafa alltaf haft starfsöryggið umfram aðrar stéttir en eins og frægt var lagðist til dæmis verktakabransinn nánast af eftir síðustu kollsteypu og þrjú af hverjum fjórum fyrirtækjum fóru í gegnum gríðarlega endurskipulagningu eða á hausinn, með tilheyrandi uppsögnum. Því var ekki að skipta hjá hinu opinbera en nú kemur í ljós að hæstu meðallaunin eru hjá opinberum starfsmönnum, ekki nóg með að þeir hafi hækkað mest heldur eru þeir líka orðnir hæst launaðir og það án þess að starfsöryggi þeirra hafi nokkuð minnkað. Það er ekki með nokkru móti hægt að líta á það sem eðlilega eða sanngjarna þróun.

Umsvif hins opinbera eru orðin allt of mikil á Íslandi. Til að auka framleiðni hagkerfisins þarf að draga úr þeim. Það er gjarnan horft til hugmynda hagfræðingsins John Maynard Keynes í niðursveiflum um að ríkið eigi að bæta upp fyrir slakann sem er í hagkerfinu, en aldrei er vitnað í hann þegar kerfið er á fullum afköstum og nauðsynlegt er að draga saman hjá hinu opinbera. Keynes sagði einmitt að ef hið opinbera væri orðið stærra en 25% af landsframleiðslu mætti alls ekki auka við umsvif þess, heldur þyrfti að minnka ríkið. Útgjöld hins opinbera á Íslandi eru núna langt yfir þessum mörkum, eða 45%.

Það eru ólíkir einstaklingar sem búa á Íslandi, þeir hafa mismunandi skoðanir og bakgrunn. Til þess að allir þrífist sem best þarf að fagna fjölbreytileika og hverfa frá einsleitni. Við þurfum að sýna tillitsemi og átta okkur á því hvað bindur okkur saman frekar en einblína á hvað gerir okkur ólík. En það á enginn tilkall til annars frá öðrum annað en að viðkomandi reyni sitt besta og reyni að standa sig vel á sínu sviði. Ég vona að Íslendingar leyfi sem flestum að einbeita sér að því sem þeir eru bestir í og skapa þannig aukin verðmæti fyrir samfélagið.

Ef við höfum þessi einföldu sannindi sem ég nefni hér að ofan að leiðarljósi er alveg ljóst að bjart er framundan hjá okkur. Við munum njóta góðs af alþjóðavæðingu, framþróun tækni og aukins áhuga á landinu okkar og menningu.

Skoðunargreinin birtist í Áramótum, sérriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is