Líklega hefur orðið breyting á íslenskum fjármálamarkaði til frambúðar vegna kórónuveirunnar. Vaxtastig í landinu lækkaði skarpt snemma á síðasta ári sem leiddi brátt til þess að fjármagn tók að streyma inn í áhættusamari eignaflokka og umpólun varð á húsnæðislánamarkaði. Innlendur hlutabréfamarkaður er sá eignaflokkur sem hefur orðið fyrir mestum áhrifum á þessari breytingu. Mörg fyrirtæki í kauphöll hér á landi sem og víðast hvar annars staðar hafa með einum eða öðrum hætti komið ágætlega út úr heimsfaraldrinum og meira að segja rótgróin félög hafa stóraukið veltu og hagnað við núverandi aðstæður.

Gráglettni örlaganna er að Icelandair Group, það fyrirtæki sem varð fyrir einna mestum skakkaföllum vegna covid, hefur sennilega átt mestan þátt í stóraukinni þátttöku almennra fjárfesta á hlutabréfamarkaði. Þegar ríkissjóður ákvað svo að selja 35% hlut í Íslandsbanka á vordögum þá myndaðist slík útboðsstemmning að annað eins hefur ekki sést síðan gömlu ríkisbankarnir og Kaupþing fóru á hlutabréfamarkað í kringum aldamótin.

En innlendur hlutabréfamarkaður hefur ekki einungis tekið stakkaskiptum vegna þátttöku nýrra fjárfesta. Hann hefur vaxið gríðarlega á síðustu mánuðum vegna verðhækkana á hlutabréfaverði og nýskráninga stórra fyrirtækja á borð við Íslandsbanka og Síldarvinnsluna. Nýstofnuð fyrirtæki hafa svo skráð sig á First North vaxtarmarkaðinn. Hlutabréfavísitala Kviku eignastýringar (KVIKAEQI) hefur hækkað um 55% á undanförum tólf mánuðum og samanlagt markaðsvirði skráðra hlutabréfa á Íslandi hefur tvöfaldast frá árslokum 2019 - rétt áður en veiran tók heiminn yfir. Markaðsvirði skráðra hlutabréfa hafa því farið úr því að vera um 40% af vergri landsframleiðslu (VLF) liðsins árs yfir í að vera um 80% af VLF.

Tækifærin í týndu atvinnugreininni

Það kann að koma spánskt fyrir sjónir að þrátt fyrir að miklar verðhækkanir hafi orðið á fasteigna- og hlutabréfamarkaði frá því að Seðlabankinn hóf fyrst að lækka vexti og raunvaxtastig hafi verið neikvætt, halda innlán áfram að aukast jafnt og þétt í bankakerfinu. Til viðbótar er lífeyrissjóðakerfið enn í miklum vaxtarham og mun þurfa að sækja í auknum mæli inn í áhættumeiri fjárfestingar á borð við framtakssjóði, vísisjóði og óskráð hlutabréf.

Vel fjármagnaðir lífeyrissjóðir, bankar og uppsafnaður sparnaður í innlánskerfinu geta því stutt við fjármögnun öflugra og fjölbreyttara atvinnulífs og hafa aðstæður sjaldan verið betri en nú til að efla og stækka innlendan hlutabréfamarkað. Á fjárfestadegi sem Arion banki stóð fyrir í síðustu viku kom fram að hin oft og tíðum „týnda" 4. undirstöðugrein atvinnulífsins muni skapa þriðjung af útflutningstekjum þjóðarinnar á næstu árum og búa til tekjur sem jafnast á við samanlagt framlag sjávarútvegs og áliðnaðar. Þarna er um að ræða fyrirtæki sem framleiða hugbúnað, vélbúnað, tölvuleiki, lyf, læknavörur og eldisfisk. Þetta eru starfsgreinar sem byggjast að miklu leyti á þekkingu, sköpun og hugarafli. Mörg fyrirtækja í þeim geira gætu átt fullt erindi inn á innlendan hlutabréfamarkað en önnur munu vafalaust vaxa umfram getu íslenska hagkerfisins til að fóstra þau til langframa. Það er að mörgu leyti hinn eðlilegi farvegur sem fyrirtæki í stórum alþjóðlegum rekstri þurfa að fara.

Mestu skiptir þó að Íslandi takist að þroskast áfram sem ákjósanlegur staður fyrir ný og alþjóðlega samkeppnishæf fyrirtæki sem byggjast á hugviti.

Miklum fjármunum er varið af hálfu skattgreiðenda í menntakerfi og stuðning í gegnum rannsóknir og þróunarstarf. Því ætti að vera markmið að geta boðið íslenskum fyrirtækjum upp á fjármögnun sem er samkeppnishæf við útlönd og skapa þannig fleiri hálaunastörf og meiri skatttekjur. Þar er innlendur hlutabréfamarkaður í frábærri stöðu til að styðja við framgang þessara mörgu vaxtar- og tæknifyrirtækja sem spretta nú fram. Aðstæður hérlendis nú eru ekkert ólíkar því umhverfi sem var um aldamótin þegar Marel og Össur, sem eru tvö af verðmætustu fyrirtækjum landsins, hófu mikinn vöxt sem enn sér ekki fyrir endann á. Það var gert með fulltingi fjárfesta á hlutabréfamarkaði.

Höfundur er sérfræðingur hjá Kviku eignastýringu hf