Um þessar mundir eru íbúar og ráðamenn á Kýpur að glíma við bankakerfi á barmi gjaldþrots. Á sama tíma sitja Íslendingar og draga ályktanir af ákvörðunum Kýpverja og hvernig þeir hljóta að hafa lært af okkur Íslendingum. Um síðustu helgi heyrði ég til að mynda Lilju Mósesdóttur halda því fram í Sprengisandi, þætti Sigurjóns M. Egilssonar, að kýpversk stjórnvöld vilji eingöngu tryggja 100 þúsund evra lágmarkstrygginguna þar sem full innstæðutrygging hefði ekki gefist nægilega vel hér á landi. Þetta er áhugaverð niðurstaða.

En hvernig eru aðstæður raunverulega í þessu bankakerfi á Kýpur? Ef við lítum á skuldahlið stærsta banka eyjunnar þá kemur eftirfarandi í ljós. Hjá Bank of Cyprus voru um 82% skulda bankans við innstæðueigendur í lok september 2012.

En hvernig var þessu háttað á Íslandi skömmu fyrir hrun? Í áhugaverðri glærukynningu hjá fyrrverandi forstjóra Fjármálaeftirlitsins í janúar 2008 kom fram að innlánshlutfall Glitnis í lok september 2007 var 37,6%, 42,7% í tilviki Kaupþings og 75,5% í tilviki Landsbankans. Með setningu neyðarlaganna voru svo öll innlend innlán hér á landi tryggð, s.s. ekki einu sinni öll innlán.

Ráðamenn á Kýpur standa frammi fyrir því vandamáli að þeir geta ekki tryggt innstæður. Þeir eru ekki að bjarga bankakerfinu eða öllum innstæðum af því að þeir vilja það ekki, heldur vegna þess að þeir geta það ekki. S.s. ef ríkið getur eða vill ekki ábyrgjast innstæður þá verður að finna leið til að klippa af þessari upphæð. Í íslenska tilvikinu brenndum við alla aðra kröfuhafa en innlenda innstæðueigendur. Á Kýpur er nánast engum öðrum kröfuhöfum til að dreifa en innstæðueigendum á eyjunni, þó að þeir komi víða að.

Er hugsanlegt að íslenska hrunið komi þessari ráðstöfun á Kýpur engu við? Gæti jafnvel verið að það sé bara pattstaða kýpverskra stjórnvalda sem valdi því að rætt sé um skattlagningu á innstæður og lágmarkstryggingu? Það virðist nefnilega yfirleitt vera svo að þegar bankar eru við það að hrynja þá vilja menn bjarga því sem bjargað verður. Það er aftur á móti misjafnt hversu miklu og hverju er hægt að bjarga.