*

föstudagur, 3. júlí 2020
Týr
14. nóvember 2019 08:32

Namherjamálið

Allt þetta óðagot er því miður nánast viðtekin viðbrögð við þeim vikulegu hneykslum sem á þjóðinni dynja.

Fréttir af viðskiptum Samherja í Namibíu hafa komið flatt upp á þjóðina og skyldi engan undra. Séu þær réttar, eins og flest bendir til, er þar einfaldlega um alvarlegt lögbrot að ræða, bæði að namibískum lögum og íslenskum. Týr treystir því að á málinu verði tekið af fullri alvöru og þunga af viðeigandi yfirvöldum. 

Það gegnir hins vegar mikilli furðu hvernig helstu pópúlistar íslenskra stjórnmála hafa brugðist við, telja að nú sé lag og ganga á það til þess að ná alls konar markmiðum sínum með Samherjamálið að yfirskini. Gott betur raunar, eins og þegar Helga Vala Helgadóttir, fyrrverandi formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, hefur það helst til málanna að leggja að gervallar eignir Samherja verði kyrrsettar þegar í stað, sem gæti haft hrikalegar afleiðingar bæði fyrir atvinnulíf og verðmætasköpun í landinu. Að ekki sé minnst á þá miklu meistara, sem telja að þingið eigi einhvern veginn að hafa afskipti af málinu. 

Verra er þó að fylgjast með þeim stjórnmálamönnum, sem vilja nota þetta mál þess að leggja til atlögu við kvótakerfið — best heppnaða fiskveiðistjórnarkerfi heims — eða tengja það umræðu um veiðileyfagjöld. Við blasir að meint lögbrot í Namibíu tengjast því ekki á nokkurn hátt. Margir hafa áhyggjur af falsfréttum en hvað má þá segja um slíka falspólitík? Fyrir nú utan hitt, að þá eru hinir sömu að leggja til einhverskonar sameiginlega refsingu fyrir gervallan sjávarútveginn vegna meintra brota einnar útgerðar og það í annarri lögsögu. Að brot eins valdi upphafningu á eignarrétti allra. Slíkar hugmyndir samrýmast ekki í nokkru góðri lýðræðisvenju eða góðu réttarríki.

Fráleitastur er þó söngurinn um að nú þurfi barasta nýja stjórnarskrá eða a.m.k. auðlindaákvæði rugludallanna í stjórnlagaráði Jóhönnu, svona í samræmi við hið forna ákvæði Jónsbókar: Nú brýtur Íslendingur lög í útlöndum og skal þá stjórnarskrá fjúka. 

Allt þetta óðagot er því miður nánast viðtekin viðbrögð við þeim vikulegu hneykslum sem á þjóðinni dynja. Hér lítur hins vegar út fyrir að framið hafi verið lögbrot og er þá ekki rétt að eftirláta lögreglu, saksóknara og dómskerfi að leiða það til lykta?

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér 

Stikkorð: Samherji
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.