Sigríður Á. Andersen, fv. dómsmálaráðherra og þingmaður á þeim árum sem faraldurinn stóð yfir, var einn örfárra þingmanna sem þorðu að gagnrýna viðbrögð stjórnvalda við heimsfaraldri kórónuveirunnar og skýr lögbrot sem þá áttu sér stað.

Næstum allir aðrir stjórnmálamenn þögðu í meðvirkni eða, sem verra er, tóku þátt í að þagga gagnrýna umræðu. Fyrir skemmstu birtist ritrýnd grein Sigríðar í norrænu fræðiriti á sviði stjórnsýsluréttar, hvar Sigríður rakti meðal annars (ó)lögmæti nokkurra aðgerða stjórnvalda í faraldrinum og er greinin í meira lagi fróðleg. Fjallar hún þar sérstaklega um notkun kreditkortaupplýsinga við smitrakningu, þá frelsissviptingu fólks sem kom frá ákveðnum löndum og var skikkað á farsóttahús og loks PCR-prófsskyldu Íslendinga á heimleið að utan, sem var forsenda fyrir innritun í flug.

Sigríður hefur enn fremur kallað eftir uppgjöri á viðbrögðum stjórnvalda í faraldrinum, sem hlýtur að vera sjálfsögð og eðlileg krafa í ljósi þeirra miklu fórna sem almenningur færði, nauðugur viljugur. Vísir að slíku uppgjöri er til dæmis hafinn í Bretlandi, en undirtektir við slíkum hugmyndum hér á landi hafa verið æði fátæklegar. Fólk hefur snúið sér að öðrum málum og svo eru eflaust þónokkrir ráðamenn og embættismenn sem hafa lítinn áhuga á slíku uppgjöri, þar sem slíkt uppgjör gæti komið sér ansi illa fyrir marga þeirra.

Týr er einn af reglulegum skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þennan má lesa í heild í Viðskiptablaðinu sem kom út 15. september 2022.