*

miðvikudagur, 8. desember 2021
Rakel Sveinsdóttir
8. mars 2019 09:30

Náum jafnvægi í Kauphöllinni

Markmiðið er að vekja athygli á því að jafnrétti kynjanna er nauðsynlegt til að drífa áfram alþjóðlegt efnahagslíf.

Haraldur Guðjónsson

Staðan í Kauphallarfyrrtækjum landsins er hreinlega ,,kostuleg” þegar kemur að kynjahlutfalli lykilstjórnenda. Ekki aðeins vegna þess að þar er engin kona forstjóri, þrátt fyrir töluverða starfsmannaveltu, heldur sýna tölur Jafnvægisvogar FKA að 78% framkvæmdastjóra fyrirtækjanna eru karlmenn.

Innan Kauphallarfyrirtækjanna eru samt fyrirtæki sem eru til fyrirmyndar. Sjóvá trónir þar efst á toppnum því það er fyrirtæki sem tók ákvörðun um að jafna kynjahlutfallið í öllum lögum fyrirtækisins. Þetta þýðir að til viðbótar við jöfnun kynjahlutfalls í stjórn og í stjórnendastöðum, réðst fyrirtækið í að jafna hlutfall á öðrum sviðum þar sem þess þurfti. Meðal áskorana var að fjölga karlmönnum í framlínunni, þar sem til áratuga höfðu fyrst og fremst starfað konur. Auðvitað tókst þetta og fyrir vikið hefur bæði ánægja starfsmanna og viðskiptavina aukist ef eitthvað er. Enda hefur það verið margrannsakað að þegar konur og karlar vinna saman í teymum, aukast líkurnar á hámarksárangri.

Önnur fyrirtæki skráð á hlutabréfamarkað mætti líka nefna. Til dæmis hlaut fyrirtækið Vodafone, nú Sýn, Hvatningarverðlaun Jafnréttismála árið 2017. Ég get þó ekki hrósað því fyrirtæki á sama hátt og Sjóvá því munurinn þarna á milli er mikill þegar betur er að gáð. Þannig sýnir skipurit Sýnar að í framkvæmdastjórn sitja fjórir karlmenn og ein kona. Einhverjum mun eflaust detta í hug að með innkomu fjölmiðlahlutans hafi skipuritið orðið karllægara. Um það mun ég ekki fullyrða en bendi þó á að þegar ég starfaði hjá Norðurljósum (síðar 365 miðlar, síðar Sýn) sátum við tvær konur í framkvæmdastjórn og því þætti mér sú skýring hæpin.

Helsta fyrirstaðan felst í viðhorfi

Á mínum tíma voru karlmennirnir reyndar fleiri líka og hlutfallslegir útreikningar því eflaust svipaðir. En þetta var um aldamótin þegar umræðan var langt frá því að vera sú sama og hún er nú. Ekki var búið að leggja til rannsóknir og gögn sem sýna hversu mikilvægt það er í viðskiptum að bæði kynin komi að borði. Frá því að þau gögn hafa verið lögð fram höfum við hins vegar lært að helsta fyrirstaðan felst í viðhorfi og vilja þeirra sem mestu ræður. Þess vegna verður svo spennandi að sjá hvernig fer með ráðningu nýs forstjóra Sýnar. Verður karlmaður ráðinn þar eins og gerðist hjá bæði Icelandair og Eimskip í vetur?

Það er reyndar til svo mikils að vinna að ná auknu jafnvægi í Kauphöllinni. Þar ber hæst að nefna ásýnd og trúverðugleika fyrirtækjanna. Eitt af því jákvæða sem Kauphöllin sjálf stendur fyrir er að taka þátt í Alþjóðadegi kvenna þann 8. mars ár hvert. Þá hefst dagurinn á því að kona hringir Kauphallarbjöllunni. Viðburðurinn er samstarfsverkefni Sustainable Stock Exchanges Initiative, UN Global Compact, UN Women, IFC, Women in ETFs og World Federation of Exchanges.

Markmið viðburðarins er að vekja athygli á því að jafnrétti kynjanna er nauðsynlegt til að drífa áfram alþjóðlegt efnahagslíf og að einkageirinn hefur mikilvægu hlutverki að gegna í þeirri þróun. Í mínum huga snýst jafnvægi í atvinnulífinu og stjórnun reyndar bara um góðan ,,business“.

Til hvaða aðgerða verður gripið nú?

Sjálf var ég svo heppin að hringja Kauphallarbjöllunni á þessum degi fyrir tveimur árum síðan. Það gerði ég með þáverandi jafnréttisráðherra, Þorsteini Víglundssyni. Í fréttatilkynningu Kauphallarinnar það árið var haft eftir Páli Harðarsyni, forstjóra Kauphallarinnar ,,Alþjóðadagur kvenna snýst m.a. um að kalla til aðgerða fyrir jafnrétti kynjanna.” Sem er einmitt kjarni málsins. Spurningin er bara: Til hvaða aðgerða ætla Kauphallarfyrirtækin að grípa til nú? Að gera ekkert, er varla valkostur. Ég hlakka því til viðburðarins í Kauphöllinni 8. mars og vonandi heyri ég og fleiri af aðgerðum sem Kauphallarfyrirtækin ætla að grípa til nú og næstu vikurnar. Til mikils er að vinna og vonandi að jafnvægi náist í Kauphöllinni sem fyrst.

Höfundur er formaður Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA).

Stikkorð: FKA Rakel Sveinsdóttir
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.