Hrafnarnir sáu í Samráðsgátt stjórnvalda að Auður Anna Magnúsdóttir, formaður Landverndar, og félagar hennar vilja að lögð verði rafmagnslest sem gengur frá Reykjavík til Keflavíkur til að minnka losun vegna bifreiðaumferðar þeirra sem um alþjóðaflugvöllinn fara. Þetta er að finna í umsögn samtakanna um drög að stefnu stjórnvalda í orkuskipti í flugi. Hrafnarnir gera þá fastlega ráð fyrir að Landvernd krefjist að slík rafmagnslest verði lögð í jörðu í takt við aðrar áherslur samtakanna um framkvæmdir á Reykjanesskaga.

Reyndar má gera ráð fyrir að flugvallarlest Landverndar þurfi ekki að anna mikilli notkun enda hafa samtökin talað fyrir að fólk þurfi að sætta sig við færri utanlandsferðir og reiða sig á strandsiglingar þegar kemur að vöruflutningum. Þetta ásamt því að fólk haldi sig fyrst og fremst heima hjá sér getur að mati samtakanna gert orkuskipti möguleg án þess að til frekari virkjana komi.

Huginn og Muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .