*

föstudagur, 24. september 2021
Huginn og muninn
25. júlí 2021 08:03

„Nei, hér eigum við engan fisk“

Því miður býr yfir milljarður við skert frelsi til athafna og tjáningar í kommúnistaríkjum nútímans eins og hörmungarnar á Kúbu sýna vel.

Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Haraldur Guðjónsson

Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, rifjaði upp gamla brandara úr Sovétríkjunum og fleiri sældarríkjum sósíalismans í Morgunblaðinu í vikunni. Háðið var leið íbúa til að mótmæla ríkjandi valdhöfum.

Flestir brandaranna hljóma sakleysislega þó að undirtónninn sé alvarlegur: „Maður kemur inn í búð í Moskvu og spyr hvort ekki sé til nautakjöt. Afgreiðslumaðurinn hristir hausinn. „Nei, hér eigum við engan fisk. Búðin sem á ekkert kjöt er hins vegar hér beint á móti.“

Aðrir lýsa hörmungum: „Hver er munurinn á Indlandi og Sovétríkjunum? Á Indlandi sveltur einn maður fyrir þjóðina. Í Sovétríkjunum sveltur þjóðin fyrir einn mann,“ og er þar vísað til þess þegar Gandhi fór í hungurverkfall á Indlandi á meðan hungursneyð ríkti í Sovétríkjum Stalíns.

Þetta er sjálfsögð áminning hjá Óla Birni um hörmungar sósíalismans. Því miður býr yfir milljarður manna í kommúnistaríkjum nútímans við skert frelsi til athafna og tjáningar eins og hið skelfilega ástand á Kúbu síðustu daga sýnir vel.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra hefur boðað að Íslandi beiti sér í máli Kúbu, og er það vel. Íslensk stjórnvöld eiga ætíð að berjast gegn mannréttindabrotum og níðingsskap hvar sem hann er fyrir að finna.

Huginn og Muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér


Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.