*

þriðjudagur, 25. febrúar 2020
Magnús Halldórsson
10. júní 2011 09:37

Neyðarlögin eru ekki fyrir alla

Neyðarlögin björguðu Íslandi. Inntakið í þeim er tæpast valkostur fyrir aðrar þjóðir. Hér voru alþjóðleg og "séríslensk" vandamál.

Kristrún Heimisdóttir á fundi í Hörpu.
Birgir Ísl. Gunnarsson

 

Kristrún Heimisdóttir, aðstoðarkona Árna Páls Árnasonar efnahags- og viðskiptaráðherra, flutti ræðu í Hörpu á þriðjudaginn. Þar var samankomið velvildarfólk Geirs H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra. Það sýndi Geir stuðning í verki, með lófaklappi og áheyrn er hann ávarpaði fundinn. Ákæra Alþingis á hendur Geir var þingfest fyrir Landsdómi í Þjóðmenningarhúsinu fyrr um daginn og af því tilefni var kallað til fundar. Til þess að styðja Geir og safna fé fyrir málskostnaði.

Kristrún flutti ræðu sína vel, að því er mér fannst. Var skýr og kjarnyrt. Sérstaklega átti hún ágæta spretti þegar hún fjallaði um réttarheimspekilegar hliðar málsins. Í Landsdómsmálinu eru þær í brennidepli. Sitt sýnist hverjum um þau álitamál en hennar meiningar komust í það minnsta skýrlega til skila.

Kristrún vék að aðstæðunum einstæðu haustið 2008. Hún sagði neyðarlögin hafa skipt sköpum við að bjarga því sem bjargað varð. Því er ég sammála.

Svo hélt hún áfram og sagði að margt fólk í útlöndum, ekki síst í Portúgal, Írlandi og Grikklandi, horfði nú öfundaraugum til Íslands og þeirra ákvarðana sem teknar voru haustið 2008.

Þarna finnst mér Kristrún vera komin út á hálan ís. Fyrir því eru nokkrar ástæður.

I.            Neyðarlögin voru útbúin, í endanlegri mynd, á síðustu stundu til þess að bregðast við fullkomlega fordæmalausum aðstæðum. Aðstæðurnar sem voru uppi hér á landi voru einstakar af nokkrum ástæðum. Þær eru vel greindar í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, þó sumir reyni nú að gera vinnu nefndarinnar tortryggilega. Ekki síst er það umfjöllun Mark J. Flannery, eins virtasta hagfræðiprófessors Bandaríkjanna, í skýrslunni (Viðauki 3, 9. bindi) sem segir í ítarlegri umfjöllun sinni að veikleikar íslensku bankanna hafi verið sérstakir á alþjóðavísu. Vöxtur þeirra á sér engin fordæmi í sögunni né heldur lánveitingar þeirra með hlutabréf þeirra sjálfra að veði. Á vakt stjórnvalda fengu bankarnir að fjármagna eigin hlutafé, langt umfram 10% löglegt hámark. Allir þrír brutu þeir óumdeilanlega gegn þessari mikilvægu löggjöf skráðra banka á markaði. Í skýrslunni eru meðal annars færð fyrir því í rök, með frumgögnum frá bönkunum sjálfum, að Kaupþing hafi fjármagnað a.m.k. 42% af eigin hlutafé og Glitnir á milli 25 og 30 prósent. Það er ótrúlegt ef satt er, en því hefur ekki verið neitað af neinum forsvarsmanni bankanna til þessa. Hvað þýðir þetta? Þetta þýðir, að hinn séríslenski veruleiki, mitt í vantraustsaðstæðum á millibankamarkaði í heiminum, gerði stjórnvöldum og Seðlabankanum ómögulegt að bregðast við með öðrum hætti en beitingu neyðarréttar til þess að koma í veg fyrir allsherjargjaldþrot þjóðarinnar. Eigið fé bankanna var falskt þegar á reyndi. Ársreikningarnir, sem endurskoðendur skrifuðu upp á, voru uppfullir af röngum upplýsingum um virði eigna, þar sem lánveitingar til kaupa á eigin hlutafé með hlutabréfin að veði, voru eignfærðar fyrir mörg hundruð milljarða þrátt fyrir að þær hafi verið einskis virði. 

II.            Í neyðarlögunum fólst eftir á breyting á leikreglum á fjármálamarkaði. Þessar sömu reglur móta vaxtakjör á skuldabréf, ásamt hinum óskiljanlega áhrifamikla CDS-markaði (George Soros segir í endurútgáfu bókar sinnar New Paradigm for Financial Markets, að CDS-markaðurinn sé tifandi tímasprengja fyrir alþjóðaviðskipti – líka eftir hinar miklu hremmingar haustið 2008). Stórar þjóðir geta ekki gripið til viðlíka neyðaraðgerðar, með breytingum á kröfuröð og „fuck the foreigners“ viðhorfi, vegna þess að almannahagsmunir stórþjóða liggja ekki síður í því að bankar geti staðið við skuldbindingar sínar er tengjast skuldabréfaútgáfu þeirra, heldur en innlánsskuldbindingum gagnvart almenningi. Rúmlega 300  þúsund manna þjóð getur gripið til þess að verja innlánin og breytt leikreglunum eftir á, en það geta tugmilljóna þjóðir ekki.

III.          Þetta á ekki síður við þegar horft er til seðlabanka þessara landa. Þrautavaralánveitandi Portúgals, Grikklands og Írlands er sá sami þegar á reynir. Hagsmunir Evru-þjóðanna eru þannig samofnir. Einmitt þess vegna geta þjóðirnar ekki gripið til viðlíka aðgerða og Ísland greip til, í algerri neyð, gjaldeyrislaust með tæknilega gjaldþrota seðlabanka. Hver þjóð getur ekki hugsað einangrað um sína hagsmuni, þegar myntsamstarfið er sameiginlegt og þrautavaralánveitandinn þar með sá sami.

IV.          Vegna þessara þátta, það er flókinna sameiginlegra hagsmuna, hefur það aldrei komið til álita að beita aðgerð sem felst í breytingu á reglum eftir á þannig að skuldir banka vegna skuldabréfaútgáfu þeirra séu gerðar ótryggari en regluverkið gerði ráð fyrir þegar samið var um kaup á skuldabréfunum. Það myndi auk þess  hafa ófyrirsjáanleg keðjuverkandi áhrif á líklega alla fjármálamarkaði heimsins (Kannski kæmi upp svipað ástand og á haustmánuðum 2008. Hank Paulson, fyrrverandi fjármálaráðherra Bandaríkjanna, upplýsti um það í bók sinni On The Brink að Kínverjar hefðu verið tilbúnir að veita Bandaríkjunum hálfgert efnahagslegt náðarhögg ef þeir sæju ekki til þess að skuldabréf í eigu Kínverja væru tryggar eignir.Kínverjar eru með fangið fullt af dollurum. Kínverjar eiga fjórðung skulda Bandaríska ríkisins og ýmissa fjármálastofnanna). Robert Peston, viðskiptaritstjóri BBC, greindi frá því á vefsíðu sinni í síðustu viku að bandarískir bankar ættu jafn mikið undir og evrópskir bankar þegar kæmi að skuldum Grikklands, Portúgals og Írlands. Hann vitnaði til nýútkominna gagna frá Alþjóðagreiðslubankanum, BIS. Það segir sína sögu um hversu viðkvæmt það getur verið að rýra verðgildi skuldabréfa með afturvirkum lagabreytingum. Pólitískt er það líklega jafn erfitt og þegar Hank Paulson sat á fundum með Repúblikunum úr miðríkjum Bandaríkjanna og reyndi að sannfæra þá um að ríkið yrði að koma einkareknum bönkum til bjargar með mörg þúsund milljarða dollara innspýtingu. Þeir göptu framan í hann. Og færðu augun síðan yfir á manninn sem sat við hlið hans Ben Bernanke, seðlabankastjóra, sem sagði þeim að Bandaríkin yrðu gjaldþrota innan tveggja sólarhringa ef björgunarpakkinn yrði ekki samþykktur. Svo sögðu þeir nei, aldrei. Við samþykkjum þetta ekki. Að lokum tókst þó að tryggja meirihluta fyrir björgunarpakkanum.

Með öðrum orðum; skuldavandi einstakra ríkja eða fjármálakerfa verður aldrei leystur með viðlíka aðgerð og Ísland greip til. Auk þess hefði það aldrei verið mögulegt, á haustmánuðum 2008, fyrir allar þjóðir sem glímdu við bankakreppuna að beita neyðarrétti til að verja sína stöðu. Það hefði verið ávísun á fullkomið hrun fjármálakerfa og jafnvel heilu hagkerfanna, vegna samofinna hagsmuna þjóðanna þvert á landamæri. Skuldabréfaeigendur fjármálafyrirtækja eru oftar en ekki almenningur sjálfur, í gegnum lífeyrissjóði og almenningshlutafélög. Gleymum því ekki. 

V.           Það er ekkert sem bendir til þess að íslensk stjórnvöld hafi gert sér grein fyrir mistökunum sem þau óumdeilanlega gerðu, þegar kom að hraðri útþenslu bankanna og þeirri hættu sem þeir sköpuðu fyrir almenning í landinu með ellefufaldri stærð sinni miðað við árlega landsframleiðslu, 80 prósent skuldbindinga í annarri mynt en seðlabankinn gat útvegað og svo framvegis. Embættismenn sátu fram eftir nóttu og fínpússuðu neyðarlögin alveg fram að því að þau voru samþykkt. Skjálfandi á beinunum af óvissu með þingmenn hlaupandi um ganga, grátandi, í kringum sig. Neyðarlagasetningin var ekki yfirveguð aðgerð vel undirbúinna ráðherra, heldur örþrifaráð smáþjóðar sem var á leið ofan í svarthol skulda, m.a. vegna þess að stjórnvöld í landinu áttuðu sig ekki á vandanum sem þau höfðu skapað með því að bregðast ekki við augljósum merkjum um grafalvarlega eignabólu  – sem færir og virtir erlendir hagfræðingar eins og Robert Aliber höfðu bent á.

VI.          Tal Kristrúnar, Björgólfs Thors Björgólfssonar, Bjarna Benediktssonar, Ólafs Arnarsonar og raunar margra annarra  um að ekki sé fjallað nægilega um fall íslensku bankanna í alþjóðlegu samhengi í skýrslu rannsóknarnefndarinnar ber að mínu mati fyrst og fremst vott um eitt. Enginn þessara aðila hefur lesið skýrsluna vandlega. Á mörgum stöðum í skýrslunni er fjallað um það alþjóðlega lágvaxtaumhverfi sem ýtti undir eigna- og skuldabóluna íslensku, gjaldeyrisójafnvægið og aðra ytri þætti sem óneitanlega höfðu áhrif á það að illa fór að lokum. Alþjóðlega sömuleiðis. Vandinn hér var hins vegar að miklu leyti heimatilbúinn. Sjálfskaparvíti. Það er merkilegasta niðurstaða skýrslunnar, einmitt í ljósi þeirra alþjóðlegu einkenna sem íslenskt hagkerfi mótaðist af.

Þó skal tekið fram að mér finnst gagnrýni Björgólfs Thors á nokkur atriði sem snúa að honum í skýrslunni, hafa verið málefnaleg að mestu leyti eins og hún hefur birst á vefsíðu hans. Ég tel að mörg þau atriði sem hann ræðir um, eins og atvikalýsingar, umfjallanir um veð fyrir lánum til hans og fleira, skipti ekki sköpum þegar kemur að heildarmyndinni. Það er alltof miklum lánveitingum íslensku bankanna til stærstu eigenda sinna, sem jók á innbyggða áhættu í kerfinu og veikti bankanna innan frá. 

Aðferðin sem rannsóknarnefndin beitir, að vitna beint til orða þeirra sem gáfu skýrslu hjá nefndinni, finnst mér góð. Þessar atvikalýsingar eru ekki aðalatriðið í skýrslunni. Heldur gera þær greiningarnar á margan hátt dýpri, margþættari og læsilegri. Það má segja að það hafi verið töluverð vonbrigði að þingmannanefndin sem fjallaði um skýrsluna hafi ekki tekið keflið á lofti og kallað marga þeirra sem rannsóknarnefndin talaði við fyrir, og unnið áfram með þessar lýsingar til þess að skýra afstöðu hvers og eins betur. Því sitt sýnist hverjum.

VII.         Varðandi gjaldeyrismálin fyrir hrun, þá finnst mér upplýsingar úr skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis bera til baka hjalið um að fall krónunnar fram eftir öllu ári 2008 hafi verið rökrétt þróun sem byggði á vantrausti skilvirks markaðar á gjaldmiðlinum. Stærstu eigendur Kaupþings, almenningshlutafélagið Exista og Kjalar, félag Ólafs Ólafssonar, ásamt félögum eru tengdust Baugi heitnum, gerðu gjaldmiðlaskiptasamninga við Kaupþing þegar halla tók undan fæti, sem fela í sér stórfellt tap fyrir bankann. Það hefur komið fram í dómsmálum vegna deilu um uppgjör á þessum samningum.

Í skýrslunni stendur þetta m.a.:

„Það vakti athygli rannsóknarnefndarinnar að á því tæpa tveggja ára tímabili sem hér var til skoðunar var Kaupþing stór nettó kaupandi gjaldeyris á millibankamarkaði á meðan Landsbanki Íslands veitti miklu magni gjaldeyris út á markaðinn. Eins og fram kemur í kaflanum var Kaupþing ekki eingöngu að kaupa fyrir eigin reikning heldur einnig í miklum mæli fyrir hönd stærstu viðskiptavina sinna.          

Frá því í nóvember 2007 og fram í janúar 2008 keyptu fimm innlend fyrirtæki, það er Exista, Kjalar, Baugur og tvö félög tengd Baugi, 1.392 milljónir evra í framvirkum samningum og stundarviðskiptum við íslensku bankana. Meirihluti þess gjaldeyris var keyptur af Kaupþingi. Þetta vekur óneitanlega athygli sérstaklega í ljósi þess að viðskiptin voru mjög umfangsmikil miðað við fyrri viðskipti flestra þessara fyrirtækja.“

Sturla Pálsson, framkvæmdastjóri hjá Seðlabanka Íslands, lýsti því hvernig þetta birtist starfsfólki í seðlabankanum þegar hann gaf skýrslu hjá rannsóknarnefndinni.

„Þeir [Kaupþingsmenn] ryksuguðu gjaldeyrismarkaðinn og svo þegar þeir eru búnir að því þá hætta þeir að kvóta inn á swap-markaðinn sem gerir það að verkum að í mars 2008 bara hrynur krónan og við stóðum náttúrulega algjörlega ráðþrota í málinu því að þegar þetta gerist fara CDS-in á bankann upp og það eru komnar alls konar áhyggjur af þeim þannig að erlendir aðilar sem eiga krónur þeir bara fara í panik að selja.“

Rannsóknarnefndin sá ástæðu til þess að vísa þessu til embættis sérstaks saksóknara, enda telur hún að krónan hafi markvisst verið veikt til þess að búa til gróða fyrir stærstu eigendur Kaupþings. Eiríkur Guðnason og Davíð Oddsson, þá bankastjórar Seðlabanka Íslands, tilkynntu FME um grunsemdir sínar með bréfi en FME sá ekkert athugavert við þetta. Þeir grunuðu Exista um að vera að búa til tugmilljarða gengishagnað til þess að halda félaginu á lífi, og fegra mynd Kaupþings um leið. Í bréfi þeirra, sem sent var á vormánuðum 2008, stendur orðrétt: „Séu aðilar, sem jafnframt eru í bankastarfsemi, vísvitandi að stuðla að því að grafa undan gjaldmiðlinum, er allt þjóðfélagið undir í því veðmáli. Slík hegðun getur í versta falli leitt til þjóðargjaldþrots. Af þeim sökum er rétt að kanna málið til hlítar jafnvel þótt það byggi að hluta á tilgátum og upplýsingum sem ekki er búið að sannreyna.“

Þó nær ómögulegt sé að sanna þetta sem glæpi, ef ekkert finnst um samkomulag á milli bankans og stærstu eiganda hans er þessum viðskiptum tengist, þá liggur fyrir að þolendur þessa háttalags eru allir Íslendingar. „Sjokkið“ sem kemur á krónuna eftir á, þegar bankarnir hrynja, er ekki síst tilkomið vegna þess að það var búið rústa gjaldeyrismarkaðnum fyrir fram.

Stjórnmálamenn finnst mér aldrei hafa skilið þungann í þessu máli. Fólk úr atvinnulífinu, hjá Viðskiptaráði og Samtökum atvinnulífsins, hefur talað um að krónan sé ónýt og að hún hafi átt þátt í því að allt hrundi. Það má vel vera og er að einhverju leyti rétt. En allra alvarlegustu eftirköst hrunsins, háar skuldir heimila og fyrirtækja, má rekja til þess að grafið var undan gjaldeyrismarkaðnum með óeðlilegum viðskiptaháttum. Það var ekki bara um að ræða vantraust á krónunni heldur kerfisbundna atlögu að henni, sem fólk sem sat fyrir framan skjáborðin í seðlabankanum horfði á, „live“, og stjórnendur bankans töldu geta endað með þjóðargjaldþroti.

Samanburður á tvíburakreppum úr öðrum löndum, það er banka- og gjaldmiðlahruni, eins og Kristrún kvartaði yfir í ræðu sinni að ekki hefði verið gert, er í sjálfu sér ekkert annað en yfirborðsmennska ef sá samanburður byggir ekki á sambærilegum upplýsingum. Afnám bankaleyndar og þar með frumgögn um gjaldeyrisviðskipti gáfu rannsóknarnefndinni færi á að greina nákvæmlega hvað átti sér stað. Hverjir keyptu og hverjir seldu. Þetta hefur aldrei verið gert áður með sambærilegum hætti í neinu landi. Í sjálfu sér þarf ekki að bera þetta saman við hvað átti sér stað annars staðar, nema að því marki sem gert er (Asíu-kreppan og fleiri atriði eru til umfjöllunar í skýrslunni). Fyrst og fremst vegna þess sem Flannery er tíðrætt um í sinni greiningu; hina séríslensku veikleika.

En af hverju skiptir þetta máli þegar kemur að neyðarlögunum og hvort þau séu möguleiki fyrir önnur lönd, eða hafi verið haustið 2008? Það er vegna þess að önnur lönd glímdu ekki við þetta háttalag, þessa mynt og þessa þróun á gjaldeyrismarkaði, ofan á allt annað sem að framan greinir. Allt ýtti þetta undir nauðsyn þess að beita neyðarréttinum þegar í óefni var komið. Ekkert annað kom til greina en að beita neyðarréttinum. Eins og "Wild Card" í borðspili.

VIII.       Kjarni málsins er sá að hið alþjóðlega umhverfi hafði ekki úrslitaáhrif fyrir íslensku bankanna. Frumgögnin sem rannsóknarnefndin birtir og dregur ályktanir sínar af styðja það.  Vandamálin sem gerðu útslagið um að þeir gætu ekki þolað áföll voru mörg, djúpstæð og það sem var verst; að þau voru séríslensk að stórum hluta. Þar er helst og alvarlegasta einkennið fjármögnun bankanna á eigin hlutafé, að því er mér sýnist.

IX.          Það er skiljanlegt að mörgu leyti að neyðarlagasetningin 6. október 2008, og aðgerðir í kjölfar hennar, sé nú álitin mikið afrek. Hún var það að mörgu leyti. Það er í reynd með ólíkindum að jafn vel hafi tekist til við að halda hlutunum gangandi. Það er mörgum að þakka. Helst af öllum venjulegu fólki á Íslandi sem hélt ró sinni og hefur tekið þessu af miklu æðruleysi, held ég að mér sé óhætt að segja. 

X.            Þrátt fyrir ágæti neyðarlaganna fyrir Ísland þá eru þau ekki útflutningsvara fyrir aðrar þjóðir, eins og Kristrún gaf í skyn í ræðu sinni. Það er of mikið af hinu góða. Þau voru neyðarúrræði þjóðar sem stóð frammi fyrir einstöku efnahagslegu þroti, vegna þess að stjórnvöld höfðu vanmetið ógnina við almannahagsmuni sem séríslensk vandamál bankakerfisins áttu mestan þátt í að skapa. Vanmatið birtist ekki síst í því – fært í beinharða peninga - að Seðlabanki Íslands taldi traust að lána bönkunum yfir 300 milljarða króna gegn litlum sem engum veðum. Þessar lánveitingar hvíla nú á almenningi með hærri sköttum. 

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.