Bandaríkin, stórveldið sem færði okkur MacDonalds, innrásina í Írak, amerískan fótbolta og Donald Trump bætti um betur fyrir nokkrum árum síðan og afhenti okkur á silfurfati hugmyndafræði sem á ljóðrænni íslensku hefur fengið nafnið Svartur Fössari.

Rétt eins og flestar útsmognustu áætlanir heims er uppskriftin af Fössaranum grátlega einföld. Við tökum hóp af fólki (t.d. hinn vestræna heim eins og hann leggur sig), bíðum eftir að hann verði mátulega taugaveiklaður yfir því að vera óundirbúinn fyrir stærstu neysluhátíð ársins. Svo þegar verkefnalistinn er orðinn of langur og tilhugsunin um að opna blóðrauðan einkabankann í janúar er farin að umbreytast í vikulegar martraðir þá, og aðeins þá, kasta verslunareigendur líflínu til almúgans í einn einasta dag, á hinum Svarta Fössara.

Auðvitað ætluðum við öll að klára innkaupin á yfirvegaðan máta á haustútsölunum í ár og slaka á þessi jólin. Alveg eins og í fyrra og árið þar á undan og árið þar á undan. En svona er nú samt staðan, Jólagjafakaupin bíða og það eru bara tveir valkostir í stöðunni: Þú getur selt neysluguðunum sál þína, kastað þér í þvöguna og keypt gjafirnar á tilboðsverða þennan eina sólarhring. Eða þú getur haldið áfram að kaupa gjafirnar, eina í einu að vel ígrunduðu máli fyrir meiri pening síðar.

Allavegana, hver sem ákvörðun þín verður, kæri neytandi, máttu treysta því að líkurnar á ánægjulegum og afslöppuðum föstudegi í vikunni eru litlu meiri en lífslíkur keppanda í Hungurleikunum. Bölvaður neyslukvíðinn sem fylgir því að missa af frábæru Fössaratilboði er enda litlu skárri en þjáningarnar sem fylgja því að taka þátt í honum. May the odds be ever in your favour!

Höfundur er lögfræðingur og verkefnastjóri.