*

þriðjudagur, 4. ágúst 2020
Óðinn
28. febrúar 2017 12:30

Neytendur borga brúsann, vegginn og sektina

Óðinn mun eflaust geta unað sér ágætlega næstu fjögur árin við að fylgjast með vinstrimönnum gráta misbeitingu Trumps á valdi sínu og afhjúpa þannig eigin hræsni.

epa

Það varð uppi fótur og fit í júlí í fyrra þegar forstjóri Mjólkursamsölunnar, Ari Edwald, sagði að sekt, sem Samkeppniseftirlitið hafði þá nýlega lagt á fyrirtækið, myndi á endanum lenda á viðskiptavinum fyrirtækisins. Orðrétt sagði Ari í viðtali við Ríkisútvarpið: „Á endanum er ég að segja það, að hvort sem það er þessi sekt eða önnur útgjöld, þá koma þau útgjöld MS ekki annars staðar frá en úr vösum neytenda. Þannig að þetta bítur dálítið í skottið á sér, svona sektarákvarðanir, við þær aðstæður sem ríkja á þessum markaði.“

***

Viðbrögðin létu ekki á sér standa. Ritstjóri Stundarinnar sagði: „Auðmýktarskert svör forstjórans benda til djúpstæðs virðingarleysis MS við neytendur, lög og eftirlit. Út frá samfélagslegri ábyrgð er þetta ekki beint rjómi allra viðhorfa, heldur súr, skilin, kögglafyllt mjólk. Þessi mjólk er ekki góð.“

***

Fleiri brugðust við ummælum Ara á sama máta og á endanum lét hann undan og dró í land með allt saman. Hann sagði orðalagið hafa verið „klaufalegt“ og að neytendur myndu þrátt fyrir allt ekki bera mögulega sektargreiðslu MS.

***

Þessi saga er tekin hér sem dæmi um hefðbundin viðbrögð við því þegar fyrirtæki kvarta undan auknum álögum hins opinbera – í hvaða formi sem þær birtast – og segja að óhjákvæmilega muni þær lenda á viðskiptavinum. Forstjóri MS sagði auðvitað sannleikann í upphafi, þótt hann hafi svo dregið í land til að friða þá sem fátt skilja. Hvaðan kæmu annars peningarnir á þessum fákeppnismarkaði?

***

Einfaldur reikningur

Fyrirtæki galdra ekki fram peninga úr lausu lofti, heldur afla þeirra með því að selja viðskiptavinum sínum vörur eða þjónustu. Útselt verð verður að nægja til að standa straum af öllum kostnaði viðkomandi fyrirtækis, hvort sem hann er í formi launagreiðslna, vaxta og afborgana, eða opinberra gjalda. Í einhverjum tilvikum er framlegð fyrirtækja nægileg til að hægt sé að fresta um tíma verðhækkunum, en ekki er hægt að heimta endalaust fjármagn af fyrirtækjum án þess að eitthvað þurfi undan að láta.

***

Þessar skýringar falla hins vegar oftar en ekki í grýttan jarðveg og þykja í hugum margra frekar merki um græðgi þeirra sem stjórna fyrirtækjunum. Sama á við um launahækkanir, en því er sjaldnast vel tekið þegar forsvarsmenn atvinnulífsins benda á þá staðreynd að óhóflegar launahækkanir hafa áhrif á verðlag.

***

Það var því áhugavert að sjá umfjöllun fjölmiðla um hugmyndir Donalds Trump um fjármögnun á hinum alræmda múr, sem hann segist vilja reisa milli Bandaríkjanna og Mexíkó. Óðinn tekur það fram að hann telur hugmyndina um múrinn, sem og um fjármögnun hans, hina mestu vitleysu – líkt og reyndar mjög margt það sem kemur úr Hvíta húsinu þessa daga.

***

Í einföldu máli hefur ríkisstjórn Trumps í hyggju að leggja 20% toll á vörur sem fluttar eru frá Mexíkó til Bandaríkjanna og nota afraksturinn til að greiða fyrir byggingu múrsins. Að sjálfsögðu mun þessi nýi tollur lenda á bandarískum neytendum. Mexíkóskur framleiðandi sem selur vöru sína yfir landamærin fyrir fimm dali mun einfaldlega hækka verðið um 20% og bandaríski neytandinn mun greiða sex dali en ekki fimm fyrir vöruna.

***

En þegar bent hefur verið á þetta er enginn sem stígur fram og segir þetta merki um græðgi mexí­kóskra iðnjöfra. Engum dettur í hug að halda því fram að mexíkósk fyrirtæki eigi bara að taka þessa kostnaðarhækkun á sig sjálf í stað þess að velta henni út í verðlagið.

***

Þetta er einfalda útgáfan af stöð­unni, en þegar nánar er rýnt í hana verður hún jafnvel enn ruglingslegri. Samkvæmt bandarískum skattalögum eru það innflutningsfyrirtæki sem bera ábyrgð á því að greiða tolla af innfluttum vörum. Það verða því ekki mexí­kósk útflutningsfyrirtæki sem munu greiða Trump fyrir vegginn, heldur bandarísk innflutningsfyrirtæki. Það breytir því þó ekki að tollinum verður velt út í verðlagið og að bandarískir neytendur munu borga brúsann.

***

Trump afhjúpar


Donald Trump hefur tekist á þeim stutta tíma sem liðinn er frá embættistöku hans, að sýna að honum er ekki treystandi fyrir þeim völdum sem embætti forseta Bandaríkjanna fylgja. Hann virðist hafa litla stjórn á því hvað hann segir sjálfur og hver höndin er upp á móti annarri meðal starfsmanna hans. Sá kostur fylgir honum samt að hann getur afhjúpað hræsni og hugsanavillu hjá mörgum vinstrimanninum.

***

Fólk sem engar áhyggjur virtist hafa af einræðistilburðum Obama, sem notaði forsetatilskipanir af miklum móð til að komast fram hjá bandaríska þinginu, telur nú fráleitt að Trump virðist ætla að nota sömu aðferðir við að stjórna landinu.

***

Fólk sem ekki hefur viljað sam­þykkja viðvaranir fyrirtækja og forsvarsmanna atvinnulífsins um hækkanir á verðlagi eftirlauna- eða skattahækkanir, er nú sannfært um að 20% tollur á mexíkóskar vörur muni lenda óskiptur á bandarískum neytendum.

***

Það er mikilvægt að geta séð björtu hliðarnar við hinar svörtustu aðstæður. Óðinn mun eflaust geta unað sér ágætlega næstu fjögur árin við að fylgjast með vinstrimönnum gráta misbeitingu Trumps á valdi sínu og afhjúpa þannig eigin hræsni. Ef fram heldur sem horfir verð­ ur það líklega eina leiðin fyrir áhugafólk um bandaríska pólit­ík og þá sem bera hlýjan hug til Bandaríkjanna, til að finna einhverja gleði á valdatíma Trumps.

Stikkorð: tollar Trump Skattur
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.