*

fimmtudagur, 2. desember 2021
Valur Ægisson
5. desember 2018 15:29

Neytendur njóta betri nýtingar raforkukerfisins

Landsvirkjun hefur á síðustu árum gert breytingar á vöruframboði og verðlagningu á heildsölumarkaði.

Aðsend mynd

Með tækniþróun, fjölbreyttara vöruframboði og betri nýtingu á þeirri orku sem unnin er hér á landi hefur okkur Íslendingum tekist að búa til raforkumarkað sem er samkeppnishæfur í alþjóðlegu samhengi.  Samhliða stígum við stór skref í því að sporna við frekari hlýnun jarðar. Íslenskur orkumarkaður er í fararbroddi hvað þetta varðar og til staðar eru tækifæri til að gera hann enn betri.

Landsvirkjun hefur á síðustu árum gert breytingar á vöruframboði og verðlagningu á heildsölumarkaði, en um helmingur þeirrar orku sem heimili og venjuleg fyrirtæki nota koma af þeim markaði. Með þessum breytingum hefur okkur tekist að bæta nýtingu innviða og fjárfestinga raforkukerfisins um u.þ.b. 100 megavött, en það jafngildir aflinu í Búrfellsvirkjun II sem tekin var í notkun fyrr á þessu ári. Það leiðir af sér lægra heildarverð raforku á föstu verðlagi, orkan er betur nýtt en áður og okkur tekst að hafa jákvæð áhrif á umhverfið.

Góð staða Íslendinga

Á íslenskum raforkumarkaði er einungis unnin endurnýjanleg raforka og ekkert jarðefnaeldsneyti. Algengt er á erlendum raforkumörkuðum að verð myndist á uppboðsmarkaði þar sem jarðefnaeldsneyti, kol eða gas, er gjarnan sá orkugjafi sem ræður verðinu. Á Íslandi er ekki uppboðsmarkaður með raforku, heldur er notast við annars konar markaðsform, tvíhliða samninga, þar sem seljandi og kaupandi orkunnar semja sín á milli um verð, magn, tímalengd og aðra verðmyndandi þætti. Um 80% af allri raforku sem unnin er hér á landi eru nýtt af stórnotendum og um 20% eru seld á almennum markaði. Af almenna markaðnum nota heimilin um fjórðung eða um 5% af heildarmagni raforkunnar á Íslandi.

Í raun má skipta raforkumarkaðnum á Íslandi í tvo aðskilda markaði: Annars vegar stórnotendamarkað og hins vegar almennan smásölumarkað fyrir heimili og atvinnulíf. Helsti munurinn á þessum mörkuðum er sá að á stórnotendamarkaði eru íslensk orkufyrirtæki í samkeppni við erlend orkufyrirtæki um viðskipti og staðsetningu stórnotenda, t.d. gagnavera. Þannig keppa íslensku orkufyrirtækin á alþjóðlegum samkeppnismarkaði. Á almenna smásölumarkaðnum keppa íslensk orkufyrirtæki sín á milli um viðskipti þeirra aðila sem eru á Íslandi, t.d. heimila, þjónustuaðila og almennra fyrirtækja. Þar er því um innlendan samkeppnismarkað að ræða.  

Hlutfall heildsöluverðs farið lækkandi

Eins og sjá má á meðfylgjandi grafi fyrir árið 2017 er raforkan 31% af rafmagnsreikningi hins hefðbundna heimilis. Dreifing, stærsti kostnaðarliðurinn, er 39%, flutningur 10% og loks nema opinber gjöld 21% af heildarverði. Ekki hafa orðið stórar breytingar á þessum liðum síðastliðinn áratug, en hlutfall raforkuverðs smásala hefur þó lækkað lítillega á meðan hlutfall dreifingarkostnaðar hefur hækkað lítillega. Stórnotendur tengjast beint inn á flutningskerfið og þurfa því ekki að greiða fyrir dreifingu. Í því liggur helsti munurinn á milli smærri aðila og stórnotenda.

Heildsöluverð Landsvirkjunar hefur lækkað að meðaltali um 14% á föstu verðlagi síðastliðinn áratug, á sama tíma og nýting innviða raforkukerfisins hefur batnað til muna. Ástæðuna má rekja til þess að Landsvirkjun hefur gert breytingar á vöruframboði og verðlagningu á heildsölumarkaði undanfarin ár. Þannig hefur verð á sveigjanleika (afli) hækkað, en á sama tíma voru innleidd skammtímakaup þar sem viðskiptavinum býðst að kaupa stakar klukkustundir með stuttum fyrirvara. Einnig hefur verðlagning vara innan ársins breyst, sumarverð hefur hækkað en vetrarverð lækkað eða staðið í stað. Samspil þessara þátta leiðir til minni hækkana á verði en ella hefðu orðið og í heildina hefur verð sem Landsvirkjun selur á heildsölumarkaði lækkað að teknu tilliti til þróunar verðlags. Þetta er þó breytilegt eftir viðskiptavinum og innkaupamynstri þeirra.

Allt fer þetta saman við markmið um umhverfisvænni orku og betri nýtingu auðlindarinnar, en endurnýjanleg raforka er sífellt að verða samkeppnishæfari gagnvart öðrum orkukostum í heiminum. Ekkert bendir til annars en að sú þróun muni halda áfram.

Höfundur er forstöðumaður greiningardeildar Landsvirkjunar.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.